Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Guðmundur Magnússon á Hafrafelli segir sögur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Guðmundur Magnússon á Hafrafelli segir sögur

Mýsnar. Einu sinni þegar ég var á Bessastöðum í Fljótsdal kom ég út eitt kvöld. Það var um haustkvöld og á níðamyrkur. Þá sá ég hvar þrjár mýs komu austan yfir ána og stefndu upp nesið. Mér þóttu það ekki góðir gestir og hljóp á móti þeim; elti ég eina út á ána og náði henni þar; hinar missti ég það sinni. Þá fór ég að elta þær. Önnur hljóp í bæinn, en hin upp fyrir. Ég elti þá sem í bæinn hljóp, því verst þótti mér ef hún staðfestist þar. Ég elti hana í hvern kima, en seinast hljóp hún upp undir Ragnhildi mína og þar hafði ég hana. Nú fór ég út að vitja um þá þriðju. Þá sá ég hilla undir hana upp á heiðarbrúninni. Ég hljóp á stað og náði henni seinast norðan við miðheiði. Eiga Jökuldælingar að þakka mér að músin komst ekki á dalinn.

Silungarnir. Eitt sinn kom ég að vatni og sá það var fullt af silungum, en ég hafði ekkert net. Mér varð það þá að ráði að ég rétti fingurna í vatnið. Komu þá silungar og beit sinn í hvern fingur, en svo komu aðrir og bitu í sporðana á þeim. Ég beið þangað til mér þóttu rófurnar orðnar nógu langar. Þá dró ég á land og var þetta svo mikill silungur að ég gat ekki borið meira.

Álftaveiðin. Eitt sinn fór ég með öðrum í álftaveiði. Okkur gekk erfitt, því tjarnirnar voru of djúpar, en álftirnar styggar. Þá tók ég það ráð að vaða niðrí vatninu og seilast neðan í lappir álftunum. Það vöruðust þær og ekki. Með þessu lagi veiddi ég þær allar.

Snjórinn. Eitt sinn fór ég yfir Þórdalsheiði (Jórudalsheiði) í miklum lausasnjó. Var svo djúpur snjórinn í öllum dalnum að slóðirnar sáust eftir hringana í eyrunum á mér.