Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hamra-Setta

Í tíð Þorvarðar Bjarnasonar í Njarðvík bjó sú kona á Gilsárvelli í Borgarfirði er Sesselja hét og var Loftsdóttir. Hún var gift manni þeim er Steingrímur hét. Maður einn var á bæ þeirra sem hún hélt við og varð mikið um það að þau myrtu Steingrím bónda. En til að forða lífi sínu struku þau í helli einn þar upp í fjallinu sem síðan kallast Sesseljuhellir og Sesseljuhamrar. Þarna vóru þau saman nokkur ár, ég hef ei heyrt hvað mörg. Veiðivatn var í hellinum á hvörju þau lifðu. Ekki er getið þau hafi lagzt á fé manna. Þarna vóru þau og áttu börn saman, hverjum þau drekktu í vatninu, unz fylgimaður hennar dó. Þá hélzt hún ekki við í hellinum fyrir langsemi og fór þaðan. Hún sagði að hver sem fyrstur hefði þrek til að ganga í hellir sinn hann skyldi eiga það sem héngi upp yfir rúminu sínu. En ekki er getið að í hann hafi nokkur komið síðan. Nú er hrapað fyrir hann svo í hann verður ekki komizt. Eftir þetta leyndist hún eitt ár í Dyrfjöllum; þau liggja innan við Njarðvík.

Þetta sama haust vantaði Þorvarð bónda átján sauði gamla. Það var eitt sinn snemma vetrar í Njarðvík að fólk sat allt inni í baðstofu eina kvöldvöku. Það vissi þá ekki af fyrri en þrekleg kona gekk inn að pallstokknum og kastaði vaðmálsstranga upp á pallinn og sagði: „Þá hefur hvör nokkuð sauða sinna, Þorvarður bóndi, þá hann hefur ullina;“ voðin var átján álnir. Héldu menn að bóndi hefði vitað af henni í fjallinu og gefið henni sauðina.

Árinu eftir þetta bar það við á Eiðum fyrir jólaföstu eitt kvöld síðla þá sýslumaður og fólk hans var allt við verk sitt inni að sýslumaður hafðist upp úr eins manns hljóði og sagði: „Hefði eins staðið á fyrir mér nú og henni Hamra-Settu, þá skyldi ég hafa tekið reiðhestinn hérna úr húsinu og ketið úr troginu sem soðið var í dag og sett var fram í klefann, reynt svo að komast suður í Skálholt fyrir jólin og þar í kirkjuna og ná þar að halda um altarishornið.“ Enginn vissi hvernig á þessu stóð. En um morguninn var hesturinn horfinn úr húsinu og ketið úr troginu, og um vorið þá fréttist að sunnan var þess getið að eitt sinn um eða rétt fyrir jólin þá biskup kom í kirkjuna þá stóð velvaxin kona við altarishornið, hélt um það og bað sér friðar; þetta var Sesselja. Hún fór aftur til átthaga sinna austur, giftist og bjó lengi eftir þetta og þótti fyrirtakskona að rausn og vænleika. Nafn hennar bera niðjar hennar í Austfjörðum ennþá.