Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hljóða-Bjarni

Maður er nefndur Pétur; hann bjó undir Heiði á Langanesi; það var um miðja átjándu öld. Pétur var vel fjáður og græddi fé af kaupskap við Hollendinga. Til þess vann hann og lét vinna mikið duggaraband. Því var hann kallaður Prjóna-Pétur. Prjóna-Pétur átti tvo sonu; hétu Guðbrandur og Bjarni. Þeir voru snemma léttir á fæti, snarir og liðugir. Í æsku prjónuðu þeir mjög duggaraband. Stjaki stóð á hlaðinu á Heiði, tveggja álna hár og var högginn stallur í miðjan stjakann. Það var leikur þeirra bræðra þegar þeir hlupu út með prjónana að hlaupa á stjakann, fóta sig á toppinum og fella ei lykkjuna. Það tókst Guðbrandi, en Bjarna ekki. Guðbrandur var maður gæfur og þokkasæll, en Bjarni var snemma ódæll, fullur gróðahyggju, einrænn og draugalegur; gátu engir við hann tætt. Latur var hann og hrekkjóttur og þó allvel viti borinn. Snemma bryddi hjá honum á ljótum strákskap.

Guðbrandur kvongaðist og átti tvær dætur; þær voru mannvænlegar, en giftust þó ekki og kom ekki ætt af þeim. Guðbrandur var orðlagður maður að léttleik og snarræði. Hann þreytti hvern hest á hlaupi og göngu. Og eitt sinn kom hann gangandi til kirkju að Sauðanesi og stóð margt fólk á hlaði. Þar voru fjórir hestar bundnir hvor aftan í annan; sá yzti var við stjaka og stóð stjakinn við for. Þá hljóp Guðbrandur til skeið og stökk fram yfir alla hestana og forina. Það hlaup var meira en fimmtán álnir.

Bjarni var og mesta snarmenni og þó ekki sem Guðbrandur. Hann fór víða um sveitir með kaupskap og hafði ýmsar brellur; alstaðar var hann illa þokkaður, því bæði var hann kvensamur og ásótti konur, enda var hann illfús ef gjört var móti honum og kvalari við skepnur. Það var eitt til marks hvað illfús hann var að hann tók eitt sinn nokkra hunda sem rifust, færði í poka og stakk síðan með broddstaf til bana. Sagt var og hann hefði stungið hesta ef hann reiddist þeim, því hann var fólskur í skapi.

Bjarni fór vestur um sveitir og eitt sinn í Reykjavík. Hann lézt jafnan hafa kvöl í baki, gekk álútur og hljóðaði mjög; því var hann kallaður Hljóða-Bjarni. Og með því hann var svo hvimleiður, illfús og hljóðaði var hann víða um Norðurland hafður sem grýla við börn. Það sannar vísa sem móðir kvað við barn sitt er það hljóðaði:

Bjarni Pétursson þig sér
sem að étur börnin hér;
þetta tetur úti er
ef þú getur trúað mér.

Þegar Bjarni kom í Reykjavík hitti hann mann á götu höfðinglegan. Þeir heilsuðust. Maðurinn spurði: „Hvað heitir þessi maður?“ „Ég heiti,“ segir Bjarni, „Bjarni sonur Prjóna-Péturs sem var undir Heiði á Langanesi; eða ertu nú nokkru nær? Og hvað heitir þú?“ „Ég heiti Geir,“ segir maðurinn. „Biskupinn kannske?“ segir Bjarni. „Svo er það kallað,“ segir hinn. Þá hljóðaði Bjarni mjög, varð bjúgari og hljóp burtu. Við þetta kannaðist Bjarni í elli og sagði: „Hvornig átti ég að þekkja biskupinn, allir mannaskrattarnir gengu á kjól.“ Bjarni þúaði flesta menn og þótt höfðingjar væri. Oft var Bjarni ofsóttur og eltur fyrir óknytti og landhlaup, en komst mjög oft undan, lá úti tímum saman í hellum og skútum á heiðum eða fólst á bæjum. Eitt sinn var honum náð og færður Birni sýslumanni, föður Þórðar cancellieráðs, eða Þórði.[1] Lét sýslumaður setja hann í gapastokk og hafa stokk undir fótum, því Bjarni var lágur. Þá kallaði Bjarni: „Vægð um stund! Vægð um stund!“ „Enga vægð,“ segir sýslumaður og lét kippa stokknum undan fótunum. Þá orgaði Bjarni:„Enga vægð,“ segir hann helvízkur.“

Annað sinn var Bjarni hýddur; þá er sagt hann hafi beðið vægðar á sama hátt, en sýslumaður hafi svarað: „Húðina af! Húðina af!“ Aðrir segja þessi hýðing hafi verið svo komin undir sem nú skal segja: Bjarni kom á bæ og var þar ekki heima nema konan og dóttir hennar. Bjarni lagðist á hugi við dóttur húsfreyju og sókti mjög á hana með gjöfum og blíðlæti. Kom svo langt að stúlkan leyfði honum að vera um nótt út í hesthúsi þar sem hey var, því húsfreyja rak hann úr bænum, kvaðst skyldi finna hann þar um nóttina einslega. Þessu varð Bjarni sárfeginn og læddist burtu. Stúlkan hélt orð sín og fór um nóttina til hesthússins, en móðir hennar var með henni og höfðu stóran vönd. Stúlkan opnaði húsið og var Bjarni þar fyrir klæðlaus og fagnaði henni þegar, en í því kom húsmóðirin með vöndinn og tók til að hýða Bjarna. Höfðu þær harm undir og afhýddu vægðarlaust. Þá er mælt hann hafi hljóðað af kvölunum og sagt: „Vægð um stund, himnesk náðin!“ „Húðina af! húðina af!“ sagði kelling.

Fleiri slíkar ráðningar fékk Bjarni fyrir kvennafar sitt. – Eitt sinn ásótti hann lengi stúlku á Langanesi og lézt oft mundi verða sér að bana ef hún gengi ekki að eiga sig, og víst mun hann hafa náð ástum hennar svo það varð af um síðir að hún giftist honum, því mönnum þótti ráð að spekja með því stjórnleysi hans, en lítið vildi batna fyrir það. Samkomulag þeirra varð svo illt og ómannlegt að þau skildu og síðast að lögum. Þessa konu sína kallaði Bjarni Gunnu járnröð.

Löngu seinna ærðist Bjarni svo eftir annarri konu; sú var ekkja og hét Sigríður. Það varð um síðir að hún átti hann fyrir hræðslu sakir, enda efuðu menn ekki hann mundi gjöra eitthvað illt í ærslum sínum ef hann næði ei konunni. Það hjónaband fór líkt og hið fyrra. Bjó hann svo ferlega við hana að hún hljópst frá honum og fékk hann hana aldrei síðar til sambúðar og sótti þó oft eftir því. Þá konu kallaði Bjarni Siggu koparstykki.

Eitt sinn fór Bjarni af Langanesi austur á Fljótsdalshérað; þá var hann orðinn gamall. Vildi hann finna Pál sýslumann Melsteð og fá hjálp hans að ná aftur konu sinni. Á þeirri ferð var Bjarni nótt á Finnsstöðum. Þar bjó Þórður bóndi Gíslason, búhöldur mikill og athafnamaður, skynugur vel, en nokkuð brellinn og meinlegur. Hann tók Bjarna vel, spurði margs og veitti ótæpt brennivín svo kall varð ölvaður. Vísaði Þórður honum til rúms á skák á hápalli og var illt rúm á bálkum, en hátt niður á gólf og var steinlagt. Bjarni lét illa í svefni og byltist mjög í ölæðinu svo hann valt fram af niður á gólfið. Þá vaknaði Bjarni og hljóðaði ákaflega. Þórður heyrði og sagði: „Æ, meiddirðu þig, Bjarni minn?“ „Hví spyr þú svo, bölvaður gikkurinn?“ sagði Bjarni, „heyrirðu það ekki? Ég rotaðist.“ „Ekki hefir þú rotazt,“ segir Þórður, „þess vegna hljóðar þú.“ „Bölvaður gikkurinn,“ sagði Bjarni, „er það ekki annað að rotast og annað að dauðrotast?“

Aldrei náði Bjarni aftur samvistum við Sigríði konu sína. Ekkert barn átti hann við hvorugri konu sinni.

Lengi var Bjarni á elliárum niðursetningur á Langanesi. Þar sem sveitarómögum var lýst í hreppsbók Langnesinga stóð við hjá nafni Bjarna: „gamall letingi“ eða annað verra. Alla tíð var hann hvimleiður og var settur niður á fleiri stöðum en einum hvert ár. Síðast átti hann að vera missiri á Sauðanesi. Þá ók ég sem skrifa þetta[2] kalli á sleða í vistina snemma vetrar og var honum þar samtíða þangað til hann dó seint á útmánuðum.[3] Tók ég að honum gröf með öðrum út við garð suður frá sáluhliði. Þenna vetur var Bjarni mikið meinhægur, hafði oft yfir sálma úr Hallgrímskveri og virtist orðinn guðrækinn. Þó brá enn fyrir hjá honum strákskap í orðum og oft var hann á nóttum frammi með ljós að rusla í kistu sinni, en aldrei um daga. Menn ætluðu hann ætti peninga, en ei fundust eftir hann nema þrjár krónur, enda hafði það ætíð verið siður hans að geyma peninga í jörðu í þúfum og holum. Því ætluðu menn að hann mundi víða hafa fólgið fé í jörðu, og það vissu menn að hann hafði oft mikla peninga og lét aldrei burtu. Hann var hjátrúarmaður, hataðist við menn og var ei trútt um að menn hræddust hann fyrir fjölkynngi.

Bjarni Pétursson var orðheppinn og talaði oft í líkingum mjög einkennilega. Til vitnis um það skal segja hér nokkuð um orðtök hans:

Síðasta vetur sem Bjarni lifði rólaði hann í stofu þar sem maður þiljaði innan. Bjarni tók upp heflaða fjöl öðrumegin, en var svört hins vegar og ekki sjáleg. „Hvert á þetta að snúa?“ sagði Bjarni og benti á svörtu hliðina. „Að veggnum,“ sagði smiðurinn. „Ég skil það kunningi,“ sagði Bjarni, „því hann hefir ekki augu.“

Eitt sinn spurði maður í Norðurlandi Bjarna: „Hvað kemur til að Langnesingar heyja svo lítið?“ „Það er löstur á Langanesi kunningi,“ sagði Bjarni, „öll stráin föst á öðrum endanum.“

Einhverju sinni kom Bjarni á vergangi sínum að Hálsi í Fnjóskadal, bar sig illa og bað séra Sigurð Árnason gistingar. Prestur aumkaði hann og fylgdi honum inn. Þegar konur urðu þess varar að Bjarni skyldi vera þar um nóttina, kom í þær mikill þytur og kváðust flýja bæinn, ef sá herjans sonur væri þar og linntu ekki látum fyrr en prestur bað Bjarna að verða burtu og leita næsta bæjar. Frá þessu sagði Bjarni svo: „Ég kom að Hálsi og leitaði í öskunni, fann þar einn neista. Þá komu konur og kæfðu hann með eilífu hlandi.“

Annað sinn sagði hann svo frá næturgreiða: „Ég kom á bæ; þar var mér gefinn svartur grautur á þremur öskum og lambskinnsþykkt út á af flautum.“ „Vel var fram borið,“ sagði einhver. „Ekki svo vel kunningi,“ sagði Bjarni, „því askurinn var þrefaldur; þú skilur það, kunningi, einn var af skít, annar af tré, þriðji af farða; item, gefist þeim hjónum aldrei, gefist þeim aldrei!“

Fleira sagði Bjarni þessu líkt, til að mynda um hjón á bæjum og illan beina sem hann fekk: „Ég kom á einn bæ, þar hefi ég séð mestan hjónamun: Konan var sem grængolandi norðansjór, en bóndinn sem dauðs manns skuggi á uglu.“ – „Ég kom á bæ; þar var bóndinn eineygður, en það eina auga var honum svo gott sem önnur þrjú og hann hefði haft eitt í hnakka; en konan var eins og þrístrend þjöl. Þú skilur það kunningi, hvernig sem þjölin er lögð snýr ætíð upp ein röðin.“ – „Á einn bæ kom ég á Árskógsströnd og fann bóndann; hann var sem þoka yfir feni, en út úr konunni stóðu átján þúsund gaddar; hún nísti tönnum sem sauður kominn að bana, fallinn í pytt.“

Fleira man ég ekki um Hljóða-Bjarna.

  1. Björn Tómasson (1727-1796) var sýslumaður í Þingeyjarþingi frá 1786 til æviloka og Þórður sonur hans (1766-1834) eftir hans dag til dauðadags.
  2. Séra Sigurður Gunnarsson.
  3. Bjarni dó 20. júlí 1826, 83 ára.