Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hornafjarðarfljót
Hornafjarðarfljót
Hornafjarðarfljót koma úr jökli þeim er kallaður er Heiðnabergsjökull. Falla þau niður miðjan Hornafjörð og eyddu þau þar bæi marga er þau hlupu fram. Segir sagan að þar hafi áður verið fögur sveit og þéttbýl. Jökullinn hljóp um nótt og var fólk allt í svefni. Fórust þar allir og engu varð bjargað, hvorki mönnum né skepnum. Sópuðu fljótin gjörsamlega öllu, bæjum og húsum og því er í var, og fylgdi þar grassvörðurinn með. Þurrkaðist þannig sveitin öll í burtu og þótti það mikil sjón og ógurleg um morguninn er menn sáu vegsummerki.
Þrem árum síðar var smali á ferð niður við ósinn á fljótinu. Hundur var með honum og nam staðar við þúfu eina á sandinum. Smalinn ætlaði að halda áfram, en rakkinn flaðraði upp um hann og hljóp ýmist að þúfunni og rótaði í henni snuddandi eða að smalamanni. Smalamaður gekk þá að þúfunni og vildi vita hvað um væri. Heyrði hann þá gelt niðri í henni. Reif hann þá til og fann þar stúlku eina og hund hjá henni. Hún hafði þar verið síðan hlaupið varð og hafði húsið sem hún var í haldið sér og sandorpið. Hafði hún fundið þar vistir margar og því hafði hún getað lifað. Smalamaður fór nú heim með fund sinn, og þótti þetta merkilegur atburður og þykir svo enn í dag.