Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hverjir vaðið hafa yfir Þjórsá
Hverjir vaðið hafa yfir Þjórsá
Það má kalla hraustlegt bragð og verðugt þess að uppi sé haldið þegar menn hafa vaðið yfir jafnmikið vatnsfall og Þjórsá er, og því skal hér geta þeirra manna sem menn hafa vissar sögur af að hafi vaðið yfir Þjórsá, þó ekki sé mjög langt síðan. Gottsveinn Jónsson seinna bóndi á Steinsholti, almennt nefndur Gamli-Gosi, vóð Þjórsá á Nautavaði þegar hann var yngismaður í Þúfu á Landi og fór bónorðsför til Kristínar konu sinnar (Gottsveinskonu) . Hún var þá heimasæta hjá föður sínum Magnúsi í Steinsholti. Arngrímur nokkur vóð yfir ána með Gottsveini, og komst Gottsveinn í vandræði með hann því hann vildi fljóta uppi og varð líka yfirkominn af kulda. Gottsveinn hafði grjót í vösum svo hann flyti ei uppi. Hann gekk að Stóranúpi um kvöldið. Gottsveinn var röskur maður og úrræðagóður þó hann væri misjafnt ræmdur.
Guðmundur nokkur Bersason frá Leiðólfsstöðum í Flóa († 1857-8 um þrítugs aldur) vóð yfir Þjórsá fyrir nokkrum árum, ætlaði Nautavað, en rataði ekki og fór fyrir ofan það, en framan Hrosshyl, fékk djúpt og blautt, en komst þó af. Ekki vita menn til að neinn þessara hafi ráðizt í að vaða Þjórsá í annað sinn.
Bergsteinn hét maður og var Hreiðarsson bónda á Skarðsseli á Landi. Bergsteinn bjó á Yrjum og var mikilmenni. Hreiðar hét bróðir hans; hann bjó í Hvammi. Þeir vóru mjög fátækir. Þeir fóru báðir saman í allar langferðir og höfðu einn hest til reiðar báðir vegna hestafæðar, fóru þó oft yfir Þjórsá á Eyjarvaði. Reið Hreiðar þá, en Bergsteinn vóð á undan. Bergsteinn lagði líka Gaukshöfðavað. Svo bar við eitt vor að Bergsteinn sá mann ríða þar austur yfir með einn hest í taumi. Sá fór þar austur í heiðina engan mannaveg og urðu engir menn varir við hann áður né eftir. Héldu allir það hefði verið útilegumaður. Braut hans sást og fyrir utan ána. Bergsteinn vildi reyna vaðið hans og um haustið þegar veður kólnaði og áin fjaraði vóð Bergsteinn þar út yfir aleinn í frosti og ísskriði og kom votur og sýlaður að Ásólfsstöðum. Vaðið hefir síðan verið mjög tíðkað. Svo lauk ævi Bergsteins að hann kom sunnan af Eyrarbakka með Hreiðari bróður sínum um haust. Þeir fóru yfir Þjórsá á Eyjarvaði seint á degi í hrakveðri, og vóð Bergsteinn eins og hann var vanur, en Hreiðar reið. Sást til þeirra frá Hofi að þeir töfðu við í Árnesinu, og héldu menn þeir hefði leyst upp eftir brennivíni að hressa sig á. Nú dimmaði og höfðu þeir orðið áttavilltir og lagt út í Þjórsá móts við Minnahof er þeir vildu leggja út í Árneskvíslina. Þar er hyldýpi. Sáust hestarnir í eða við ána um morguninn og vóru sóktir. Líkin fundust ei. Lík Hreiðars rak um vorið í Traustholtshólma næstum óskaddað. Lík Bergsteins hefur ekki fundizt. Jón yngsti bróðir Bergsteins býr nú á Skarðsseli, miðaldra maður eða því nær.