Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón á Skálum og Langaneseyjar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón á Skálum og Langaneseyjar

Langanesseyjar eiga að vera tvær, önnur minni slétt með miklu grasi, hin stærri klettótt og sund nokkurt á milli þeirra, hin minni nær landi; eiga að liggja í dagmálastað frá Skálum á Langanesi – og í beztu sævarsýn sjást til þeirra frá Skálum sem tveggja þokuskúfa.

Það er í sögum að eitt sinn var vinnumaður á Skálum sem Jón hét, kjarkmaður mikill; kom sér fremur illa við bónda, en vel við konuna svo ekki var grunlaust að mundi vera við of. Oftlega þá sjór var stilltur var hann að klifa á því að gaman væri nú að eiga skip og fara á því til Langanesseyja því þangað vildi hann vera kominn. En í júní eitt sumar þá bóndinn þar kom á ferð snemma morguns var Jón vinnumaður hans horfinn, líka bátur hans úr fjörunni og eldagögn með ýmiskonar fleiru. Bónda varð hverft við og grunaði konu sína að í ráðum mundi vera með þetta því fulltrúa voru menn um að Jón mundi farinn að leita Langanesseyja með því hafblíða var mikil þenna morgun sem hann hvarf. Svo liðu nokkur ár – ég hef ekki heyrt hvað mörg – að ekkert spurðist til Jóns. Þá er þess getið eitthvort sinn eftir þetta að hollenzk fiskidugga kom inn á Finnafjörð og komu menn út á hana og þóktust þekkja þar Skála-Jón því hann gaf sig á tal við þá, spurði frétta frá Skálum um vellíðan konunnar, sagði mikinn mun þeirra hjóna hvað hún væri betri maður en bóndi hennar á sína raun, bað þá bera henni kveðju sína og sendi henni ýmislegt af léreftum og öðru sem ætti að vera lítil þóknun fyrir liðsinni hennar við sig og þægilig atlot. Mönnum virtist hann mikilsráðandi á téðri duggu.

Svona heyrði ég[1] sögu þessa.

  1. Þ. e. Jón Sigurðsson í Njarðvík.