Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón Höskuldsson á Hlíðarenda

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón Höskuldsson á Hlíðarenda

Þegar Björn prófastur Halldórsson var prestur á Eyjadalsá frá 1797-1810 byggði hann hjáleigukot sem Hlíðarendi heitir manni nokkrum er Jón Höskuldsson hét. Maður sá var einkar ráðvandur, en alla ævi var hann bláfátækur og undi manna bezt fátækt sinni. Þókti hann jafnan nokkuð hreykinn yfir sjálfum sér, bæri það undir að hann ætti að éta. Ekki var fólks hjá Jóni nema kona hans sem Ólöf hét og piltur þeirra Sigfús að nafni. Kotið hafði áður lengi í eyði legið og var mjög í órækt, en útheysslægjur litlar. Jón gat því lítið heyjað og komst aldrei undir að eiga skepnur til bjargar sér; mun hann og líka verið hafa lítilmenni til verknaðar. Hann baslaði við að halda lífinu í kvígildisánum sem prestur fékk honum og munu þær verið hafa níu að tölu heldur en sex. Bak við hlíð þá sem kotið stendur undir liggur upp til fjalls dalur sá sem Eyjadalur heitir. Er þar afbragðsland að gæðum fyri sauðfé og búfjárhagi staðarins. Þar átti líka Hlíðarendabóndinn hagabeit fyrir fé sitt hvorsu margt sem verið hefði. Prestur hélt töluverðan pening á staðnum sem hann daglega lét beita á dalinn. Jón beitti líka þangað rollum sínum. Við kirkju að Eyjadalsá um sumartíma er Jón að tala við vinnumann prests og segir: „Dáfallegt þókti mér að koma upp á dalinn í gær, kall minn.“ Þetta var orðtak hans þegar hann talaði við einhvern. „Hvað bar til þess?“ segir hinn. „Það, kall minn,“ segir Jón, „að horfa á þegar Hlíðarendaféð breiddi sig fyrir sunnan ána, en Eyjadalsárkindurnar fyrir utan.“ Á þessi er þverá í vestanverðum dalnum, sem Norðurá heitir. Beggja megin hennar eru fögur haglendi sem blasa við sjónum þegar komið er upp yfir brúnina fyrir ofan Hlíðarenda. Bárðardalur er allfögur sveit og góð, og fram af honum til fjalla liggja víðlend afréttalönd. Reka sveitungar þangað geldfé sitt og lömb á vorum og ganga eftir á haustum. Eiga þeir allmargt fé. Fór Jón frá Hlíðarenda í göngurnar eins og aðrir þó hann ætti minna en hver hinna. Fjársafnið af afréttinni var til réttar rekið í Litlutungu fremst í dalnum. Kom þar jafnan margt og fallegt fé saman.

Eitt haust var það að Jón á Hlíðarenda átti ekki á afréttinni roskna kind nema einn hrút veturgamlan og fór hann þó í göngurnar. Þegar farið var að draga féð úr réttinni fannst hvergi hrútur Jóns, og vantaði hann. Fóru menn þá að aumka Jón fyrir missir hrútsins. Þá Jón heyrir það segir hann: „Hvað er að fást um það, kall minn, þeir verða að missa sem eiga.“

Á seinni árum Jóns á Hlíðarenda var siglingaskortur við Norðurland, afli brást við sjó og hart var árferði á landi; leiddi af þessu matvælaskort almennings. Kom það mest niður á þeim sem fátækastir vóru og ekki áttu skepnur sér til bjargar. Jón átti þá oft hart í búi, því til fárra var að leita, enda leitaði hann ekki meðan hann hafði einhverja næringu heima hjá sér, því betli var hann fráhverfur og þókti sér minnkun að því. Eitt vor var það að hann hafði enga björg aðra en fjallagrös sem hann tíndi á Eyjadal jafnótt og snjó leysti af. Sauð hann þau einsömul í vatni og lifði á, en til matbóta sagðist hann hafa tekið einir og soðið með grösunum og hefði sér fundizt það mikið bæta og sæta matinn. Á þessu sagðist hann lengi lifað hafa og þakkaði guði þá björg sem hann þannig hefði gefið sér, því annars mundi hann dáið hafa. Kæmi Jón á bæi og væri honum matur gefinn að borða, át hann lítið af því, heldur bað leyfis að mega stinga því hjá sér – ef það var þess háttar matur að það yrði – til þess að gefa það konu sinni og dreng þá heim kæmi. Kenndu þá margir í brjósti um hann og viku honum einhverju meiru. Var þá ætíð tvennt til afbrigða, fyrst hvað innilega hann þakkaði guði og mönnum það honum var gott gjört, og síðan hitt hversu ánægður og glaður hann fór af stað heim til sín. Hversu bágstaddur sem Jón var bað hann aldrei ölmusu, hann möglaði aldrei yfir bágendum sínum og ætíð var hann með glöðu bragði. Um hann sagði kona nokkur, Björg að nafni, systir síra Björns,[1] vitur kona og góðgjörn, til hverrar Jón oft hvarflaði, að engan mann héldi hún lifa ánægðari og glaðari með sjálfum sér heldur en hann og engum manni fyndist sér eins ánægjusamt að gjöra gott sem honum, og var hún þó orðlögð fyrir greiðasemi við alla er til hennar komu.

Jón var tóbaksmaður; en er siglingin brást fekkst ekki tóbakið. Fór þá mörgum eins og síra Þorlákur kvað:

Tóbaksmok ef þrýtur þá
þeir með rokum flakka, —

nema Jóni; hann átti stúf af leirpípulegg rúmlega þumlungslangan, úr gamalli tóbakspípu. Þetta geymdi hann sem gull væri og hafði oft í munni sér. Einu sinni spurði Björg hann hvert hann hefði nokkra skemmtun af þessu. „Já,“ segir Jón, „það er nóg fyrir mig, ég finn að því smekkinn.“

Eitt einkenni Jóns var það að hversu þurfandi sem hann var og hversu fúsliga allir þeir sem unntu ráðvendni og þakklátssemi gjörðu honum gott, þá var hann mjög spar á að leita þeirra liðsinnis.

Eftir fá ár brá Jón búi á Hlíðarenda og fór til dvalar hjá bónda nokkrum með konu sína. Kom hann sér jafnan vel. Sonur hans þroskaðist og varð sæmiligur maður. – Og kann ég ekki söguna lengri.

  1. Þ. e. Björg Halldórsdóttir, móðir sögumanns, séra Benedikts Þórðarsonar á Brjánslæk, en bróðir hennar var séra Björn Halldórsson (1774-1841) á Eyjadalsá og Garði í Kelduhverfi.