Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón tófusprengur segir sögur
Jón tófusprengur segir sögur
Tóan. Einu sinni fór ég að elta tóu. Ég átti tík ólma að hlaupa. Lengi elti tíkin rebbu, en seinast varð hún uppgefin. Þá herti ég mig, en varð erfitt að halda í við tóuna því ég var brjóstveikur og hafði mikinn hósta. Hóstinn óx eftir sem ég mæddist og seinast hóstaði ég upp lungunum. Ég kastaði þeim á þúfu og léttist þá mikið. Tók ég nú að draga [á] tóuna því hún fór að mæðast. Rann þá út úr henni slefa mikil alla leið, og seinast sprakk hún. Nú sneri ég heimleiðis og fann lungun; þá var tíkin lögzt á þau. Ég greip þau og gleypti og hef aldrei kennt brjóstveiki síðan. Þess gætti ég að slefan úr tóunni var ólseig og sá ég að mátti nota til einhvers. Ég vatt hana upp og tætti úr reipi á tólf hesta.
Sálin í lóninu. Þegar ég var í Gnúpverjahrepp hjá móður minni réri ég eitt sinn suðrí Garði. Einn dag gerði á foraðsveður og sigldum við heimleiðis. Í lendingunni hvolfdi og drukknuðum við allir. Við höfðum seilað út fiskinn. Rák[u] upp líkin og seilarnar. Mig rak þar upp á malarrif. Þegar ég hafði legið þar nokkra stund leiddist mér sú lega og hljóp á fætur; sá ég þá sálina mína synda þar í einu lóni. Ég óð út í og gleypti hana. Þá sá ég að seilarnar voru reknar og lá ein ár á fjörunni. Ég tók árina og eina seil sem á voru nítján og tuttugu fiskar. Kippaði ég þá seilina upp á árina og lagði á öxl mér. Drífa var á hin mesta. Ég stefndi norðaustur til Henglafjalla, en alltaf dreif í ákafa. Þegar ég kom upp undir Hengilinn var snjórinn orðinn svo djúpur að árin náði ekki upp úr; þó hélt ég áfram, en vissi valla hvort ég stefndi. Þegar ég hafði lengi gengið niðrí snjónum hrapaði ég niður mikið hrap og fann að ég var í húsi. Ég þreifaði fyrir mér og þekkti ég var í eldhúsi móður minnar austrí Hrepp; og þótti mér hafa betur tekizt ferðin en ég vænti.
Steinninn á melnum. Eitt sinn var ég fyrirvinna hjá ekkju í Borgarfirði. Það var einn vetur að mikill svellgaddur var á jörðu. Þá gerði dimmviðri svo mikið að engum manni var ratandi. Hestar voru úti og var hjá þeim eitt trippi sem ég óttaðist að mundi drepast. Ég réðst út í veðrið og fann hestana. Brá ég bandi um háls trippinu og hélt heimleiðis með það, en vissi ekki hvað ég fór. Eitt sinn kom ég á svellbumbu og ætlaði þar mundi þó vera undir melur. Mér kom til hugar ef ég næði til melsins mundi ég þekkja hann; lagðist ég þá niður og tók að grafa svellið með hendinni. Ég herti mig og klóraði svellið þangað [til] ég kom handleggnum niður upp að öxl; þá fann ég þar hnefastein, tók hann upp og þekkti á hvaða mel hann átti að liggja. Fyrir þetta náði ég heim og varð það mér til lífs og trippinu.
Áraförin. Eitt sinn rerum við í blíðalogni af Suðurnesjum, en þegar degi hallaði gerði á landsynning svo mikinn að hús tók upp á landi. Öll skip rak til hafs og náði ekkert lendingu nema við; við börðum þangað til við komumst í vör. Daginn eftir var logn; þá rerum við aftur sömu leið. Þá brá [svo] undarlega við að áraför okkar, þau kvöldinu fyrir, sáust enn á sjónum og mátti rekja út á Svið. Það er ólygin saga.
Kútmagarnir. Eitt sinn reri ég undan Eyjafjöllum og var á Raufarfelli. Einn sunnudagsmorgun suðum við kútmaga og voru yfrið góðir. Ég vissi að konu minni þóttu heitir kútmagar mesta sælgæti. Þá datt mér í hug að færa henni nokkra upp úr suðunni. Ég tók Rauð minn, setti logandi kútmaga í mal minn og reið af stað. Rauður var ólúinn og fór geyst yfir. Þegar ég kom heim á hlaðið hjá mér í Eystrihrepp greip ég malinn og hljóp inn. Þá heyrði ég að enn kurraði suðan í kútmögunum og höfðu ekki kólnað meira en svo á leiðinni og er þó vegurinn yfir hálfa aðra þingmannaleið. Góður var sá rauði!