Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jarðhús Torfa
Jarðhús Torfa
Torfi átti eigi aðeins í styrjöldum við þá sem nú var getið, heldur og aðra miklu fleiri er hann gat búizt við að gerðu sér heimsókn er minnst varði. Þess vegna hafði hann, auk fjölmennis þess er hann hélt jafnan, sterkar gætur á að fjandmenn kæmi ekki flatt upp á sig. Hann átti sterkan og rammbyggðan húsabæ í Klofa. En það þótti honum ekki heldur einhlítt; hann lét því grafa leynigang eða gjöra jarðhús undir bænum og lá það suður og austur undir túninu öllu. Var gengið í annan enda jarðhússins í svefnherbergi Torfa. En hinn jarðhússmunninn segja sumir að lægi út fyrir austan túnið í Klofa, en aðrir að hann væri í hesthúsi Torfa austur á Klofatúni. Hvort sem er um það, var jarðhús þetta ekki smuga ein eða rangali undir jörðunni, heldur sterklega uppgerður gangur með stoðum og bitum svo ekki þurfti að óttast fyrir að það félli niður. Ekki var heldur dimmt í húsinu, því Torfi hafði látið gjöra glugga á það með nokkru millibili og hagað svo til að undir hverjum glugga miðjum væri biti. Á þessa bita lét hann breiða sauðargærur blautar, bæði til þess að það liti út líkara jarðgryfju er komið væri að í myrkri og svo til þess að óvinir hans ef þeir kynnu að álpast þar ofan í gætu ekki náð neins staðar handfesti nema í gærurnar. En svo var hátt undir bitana að það var einskis manns meðfæri að komast upp á þá af gólfi svo þeir sem niður duttu gátu ekki komizt úr jarðhúsinu fyrr en Torfi lét annaðhvort drepa þá eða gaf þeim líf ella. Þó var jafnframt annar aðaltilgangur Torfa með jarðhús þetta; þangað ætlaði hann að flýja sjálfur ef ófrið bæri að á náttarþeli eða hastarlegar en svo að hann gæti náð til húskarla sinna er hann lét jafnan vera í starfi þegar hann hélt kyrru fyrir, og því er það að sumir segja að jarðhúsmunninn lægi út fyrir austan túnið að þaðan átti hann skammt að komast í hraunið fyrir austan Klofa og leynast þar. En hinir hafa það og til síns máls sem segja að uppgangur úr jarðhúsinu hafi verið í hesthúsinu austur á túninu að þar gat hann hlaupið á hest og komizt svo undan.
Vér kunnum hvorki að segja frá því hversu marga menn Torfi hefur látið taka í jarðhúsi þessu né heldur hvað oft hann hafi þurft sjálfur á því að halda til að forða þar lífi sínu; en hitt er hér um bil áreiðanlegt að jarðhúsið hefur verið til; því ekki eru yfir fimmtíu ár síðan að austurbærinn í Klofa var tekinn og þá grafið upp grjót úr bæjarstæðinu. En við það fundust staurar sem stóðu upp á endann í bæjarstæðinu með nokkru millibili, ákaflega gildir og langir, ef þeir hefðu tollað saman fyrir fúa. Hafa menn það fyrir satt að þessir staurar hafi verið stoðirnar í jarðhús Torfa er allt var þá sigið saman sem von var eftir meir en þrjú hundruð ár.