Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kirkjustaður undir Hekluhrauni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kirkjustaður undir Hekluhrauni

Einhvern tíma gengu skólapiltar nokkrir frá Skálholti heim til sín um jólin að fjallabaki austur á Síðu og í Skaftártungu. Þeir fóru hinn sama veg suður aftur í góðu veðri. En þegar þeir komu vestur í Hekluhraun hvarf einn þeirra snögglega svo að þeir vissu ekkert hvað af honum varð. Leituðu þeir hans lengi, en fundu ekki og hurfu frá við svo búið og ætluðu að hann hefði farizt í einhverri hraungjánni. Var það og rétt til getið að hann féll í hraungjá eina og hrapaði lengi sem í gljúfri, datt seinast hátt fall og kom niður á graslendi. Þegar hann hafði svo gengið þar um stund fann hann að hann var kominn á slegna jörð. Um síðir kom hann að bæjarhúsum sem stígur lá að; þaðan rakti hann annan stig og kom þá að kirkju; síðan gekk hann heim aftur til bæjarins og var hann ólæstur. Hann gekk inn og til baðstofu og fann þar fyrir sér uppbúið rúm, lagðist upp í það og sofnaði skjótt í því hann var bæði þreyttur og þrekaður eftir fallið. Hann dreymdi þá að aldraður maður kæmi til sín og segði sér að hér væri kirkjustaður í sókn þeirri sem af hefði farið í næsta Heklugosi á undan, og hefði hraunið lukzt yfir húsin, allt heimilisfólkið hefði dáið, en hann einn lifað eftir, grafið fólkið og jarðsungið, því hann hefði verið prestur þar í sókninni. „Þegar þú vaknar,“ mælti hann, „skaltu leita eldfæra undir höfðalagi þínu, en kerti finnur þú á hillu þar uppi yfir; muntu þá bráðum finna mig dauðan; bið ég þig að jarða mig að kirkju minni á réttan hátt og lesa þá ræðu yfir mér sem þú munt finna. Vistir munu þér nægja hér til hálfs þriðja árs.“

Eftir það vaknaði maðurinn og fann eldfærin og kertið þar sem honum var til vísað; sá hann þá að borð stóð skammt frá rúminu; sat þar maður við á stól og hallaðist örendur fram á borðið og lá ræðan á borðinu fyrir framan hann. Maðurinn fór nú að öllu eins og fyrir hann var lagt; síðan fór hann að byggja stöpul með þrepum í upp að gjá þeirri sem hann hafði fallið niður um; var hann lengi að því þangað til að hann gat lagt stiga af stöplinum upp í gjána og klifrazt upp. Fór hann svo til byggða og fékk sér mannhjálp og festar til að síga niður og ná því undan hrauninu sem fémætt var.