Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Klofa-Torfi flýr svartadauða

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Klofa-Torfi flýr svartadauða

Það er kunnugt að svartidauði geisaði víða um lönd áður en hann kom til Íslands. Yfir þessu fylltust Finnlendingar öfund og sendu tvo fjölkynngismenn til Íslands, karl og kerlingu. Komu þau út á Vestmanneyjaskipi og fóru til landsins upp í Landeyjarnar. Vildu þau lítt þýðast aðra menn og gistu þar í útihúsi. Þar var þá Klofa-Torfi líka á vegferðarreisu sinni úr Vestmannaeyjum; þóttu honum þau æði ískyggileg, stóð því á hleri og heyrði viðræðu þeirra hjúanna og merkti þar af hvert erindi þeirra var. Töluðu þau um að skipta með sér störfum; skyldi hún fara með sjó, en hann til fjalla allt upp í miðjar hlíðar. En er Torfi frétti þetta flýtti hann sér heim, fór með allt sitt upp á Torfajökul – því er hann svo kallaður. Dundi þá svartidauði yfir. Var þá sem reykur að sjá í byggðina allt upp í miðjar fjallahlíðar, og er svo sagt að allir menn í Sunnlendingafjórðungi hafi dáið í svartadauða nema Torfi og skuldalið hans.