Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kola-Hjalti Pálsson

Hjalti bjó á Rauðafelli undir Eyjafjöllum Pálsson frá Heynesi Magnússonar á Heylæk Barna-Hjaltasonar.[1] Hjalti drukknaði 1650. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Dómhildur Ormsdóttir frá Eyjum í Kjós Vigfússonar. Seinni kona hans var Elín Eiríksdóttir lögréttumanns á Búlandi Sigvaldasonar Halldórssonar sýslumanns á Þykkvabæjarklaustri (um 1550) Skúlasonar Guðmundssonar Sigvaldasonar langalífs. – Í einni ættartölu hef ég séð Jón Sigvaldason í Holti á Síðu nefndan bróður Eiríks, en Jón var faðir Eiríks í Holti sem Holtsætt er frá talin, til vissu sú fjölmennasta ætt af seinni alda mönnum á Íslandi, einkum um allt Suðurland.

Hjalti Pálsson var hraustmenni hið mesta og djarffærinn maður. Þá fóru menn í skóg bæði á Goðaland og einkum Þórsmörk. Hjalti fór eitt sinn með þrjá hesta í taumi. Þá var Þorleifur á Hlíðarenda Magnússon í Ögri Jónssonar, höfðingi mikill og sýslumaður. Hann lagði blátt bann fyrir allt skógarhögg. Heyrði hann um för Hjalta og brá sér austur að Seljalandi og ætlaði að sitja fyrir Hjalta og ræna hann feng. Hjalta var borin njósn af þessari ætlun hans. Varð það þá úrræði hans að draga sekkina upp Bröttufönn og allt fram á jökul, fyrir framan Goðaland, lét svo upp á hestana og flutti fram að Rauðafelli; sendi Þorleifi svo boð: Vildi hann finna Hjalta Pálsson þá yrði hann að bregða sér austur að Rauðafelli. Eftir þetta var hann kallaður Kola-Hjalti – eins og Hjalti [lang]afi hans í Teigi var kallaður Barna-Hjalti vegna barneigna hans.

Í þenna tíma var siður að reka á afrétti upp úr Kaldaklifi. Fundu Rauðafellsmenn tófu dauða í bóli einu. Tóku þeir lágfótu og flógu af henni belg, köstuðu svo kroppnum út fyrir dyr. Spratt hún þá upp og hljóp á burt. Sagt er að tófa liggi sem dauð er hún sér sér engi ráð til undankomu; beri ekkert á henni þó af henni sé fleginn belgur – nema þá skorið er á naflann fiti hún upp á, velti sér svo í moldarflagi.

Um haustið gjörðist dýrbítur mikill á Rauðafelli svo kind fannst bitin á hverjum degi. Á aðfangadaginn fyrir jól gekk Hjalti til kinda. Þá var lausamjöll mikil sem fallið hafði um nóttina og sporrækt. Hjalti fann þá sauð sem hann átti og þókti vænt um, dýrbitinn. Rakti hann för tófu norður yfir jökul og allt að hinu sama bóli. Lá hún hún þar þá inn undir hellisberginu. Hjalti setti á hana staf sinn og drap hana, fór svo fram Goðaland og var við Dalskirkju á jóladaginn. Þókti þetta hraustlega að farið.

Sonur Hjalta og Elínar var Jón faðir Brands föður Magnúsar lögréttumanns á Rauðafelli er átti Sigríði Ólafsdóttir gamla í Hlíð. Þeirra dóttir Vigdís kona Jón lögréttumanns í Selkoti Ísleifssonar föður Ólafs gullsmiðs í Selkoti, Ísleifs gamla í Skógum og margra annarra barna, og er ætt frá flestum þeirra bæði hér undir Eyjafjöllum, í Öræfum og víða annar staðar. Jón var annar Brandsson á Rauðafelli. Hann dó og kona hans í stórubólu 1707. Þau áttu fjögur börn hráung og var þeim öllum komið í góðan samastað fyrir tilhlutun Magnúsar bróður hans. Vigdís hét ein þeirra er giftist Árna Ólafssyni í Hlíð – bróður Rafnketils í Steinum og Höskuldar sterka í Berjaneskoti – og eru margir menn frá þeim komnir hér undir Fjöllum og víðar: Ólafur Högnason dannebrogsmaður í Ey og Arnlaug kona Einars dannebrogsmanns á Skála Sighvatssonar.

  1. Sjá söguna Anna á Stóruborg og Barna-Hjalti Pálsson.