Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kolfreyja og Vöttur

Svo segja fróðir menn að fyrr meir hafi sú kona búið á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði er Kolfreyja hafi heitið; af henni á bærinn að hafa tekið nafn. Hún var mikil kona vexti enda var hún um flesta atgjörvi köllum líkari en kvennum. Þá bjó á Vattarnesi (næsta bæ fyrir austan) sá maður er Vöttur hét; af hönum tekur Vattarnes nafn. Hann var maður auðugur að fé, en engi var hann afburðamaður.

Það var einhverju sinni að Kolfreyja reri á sjó og flestir bændur úr sveitinni og meðal þeirra Vöttur; þá var blíðalogn og veður ið fegursta. Rastir heitir fiskimið eitt; þangað reru flestir bátarnir. Fiskur var handóður um daginn; en er flestir voru búnir að hlaða skip sín tók veður að hvessa; héldu þá flestir í land. Þar kom að lokum að Kolfreyja var ein eftir og annar bátur til; það voru þeir Vöttur; sat hann og hafði þá enn eigi hlaðið. Þá var eigi sætt lengur og brátt tók veðrið svo að herða að sær rauk sem mjöll væri, þá leystu þau Vöttur og Kolfreyja og héldu til lands. Þeir Vöttur voru tólf á bát, en Kolfreyja ein á skipi. Sóttu þau nú til lands og veitti erfitt róðurinn og dró Kolfreyja þó brátt fram úr þeim Vattarnesingum og tók þá nú að reka undan. Kolfreyja kallar þá til þeirra og spyr ef þeir vilji róa í kjalfar sitt. Þeir þiggja það og endist það um hríð, en þar kemur þó loks að menn Vattar gjörast svo máttfarnir að þeir treystast eigi að halda fram róðrinum; bað Kolfreyja þá þá að taka við taug af skipi sínu og tengja saman skipin. Sezt hún þá í andþófssæti og sækir róðurinn allknálega og fer svo um ferðir þeirra að hún nær landi með þá og voru allir þá svo máttfarnir að engi var sjálfbjarga nema Vöttur einn. Tekur Kolfreyja þá sinni hönd í hvorn skipsstafn og kippir upp í naust báðum skipunum senn. Að svo búnu fer hvort heim til sín Vöttur og Kolfreyja og líður nú til vetrar.

Það var einhverju sinni um vorið á útmánuðum að Vöttur kom að máli við kolfreyju og bað hana segja sér hvað hann gæti helzt gert það er henni mætti gagn að vera, í bjarglaun. Kolfreyja mælti: „Einkis er eg þurfi, en gott þætti mér ef þú vildir hjálpa mér um í eina sjóvettlinga.“ Vöttur greiðir þá til hjá sér og gefur henni þrjá tugi álna af voðmáli og biður hana segja sér ef eigi hrökkvi til. Nokkuru seinna hittast þau Vöttur og Kolfreyja og spyr Vöttur þá hvort til skorti. Kolfreyja sagði að þá hafði hún sniðið vettlingana, „en kort er efni, Vöttur vin, vantar í alla þumlana.“ Vöttur færði henni þá sex álnir voðmála í viðbót og er þá eigi annars getið en dugað hafi.