Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kristín á Sörlastöðum og klerkurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kristín á Sörlastöðum og klerkurinn

Á Sörlastoðum í Fnjóskadal bjuggu við góð efni fyrir móðuharðindin 1784 hjón nokkur, Jón og Kristín; þau áttu börn í ómegð. Þegar harðærið kom flosnuðu þau upp frá jörðunni og fóru á vergang með börn sín sem nokkur dóu í harðindunum. Maðurinn dó líka, en konan lifði af á flakkinu.

Skömmu eftir harðindin bar svo til að presturinn mætti Kristínu millum bæja og sagði hún svo frá því: „Þegar ég bjó á Sörlastöðum og hann kom þar til mín sagði hann við mig: „Komið þér sælar heillin góð,“ en núna þegar hann reið hjá mér á götunni sagði hann: „Sæl vertu Kristín kelling.““