Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Líkaböng

Í Hólakirkju í Hjaltadal hangir enn, að sagt er, klukkan Líkaböng. Um þá klukku er það sögn nyrðra að hún hafi farið að hringja af sjálfsdáðum þegar lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt norður frá Skálholti. Er sagt að hún hafi farið að hringja þegar líkfylgdin kom á Vatnsskarði, þar sem fyrst sér ofan í Skagafjörð, og hætt síðan; í annað sinn hringdi hún þegar líkfylgdin kom á Hrísháls þar sem fyrst sér heim að Hólum upp eftir endilöngum Hjaltadal, og í þriðja sinn þegar líkin komu að túngarðinum á Hólum. Hélt hún þá lengst áfram þangað til líkin voru borin í kirkjuna og það með svo miklum undrum að hún rifnaði. Er þetta talið nokkurs konar tákn og vottur þess hversu illa jafnvel dauðir hlutir á Norðurlandi hafi unað aftöku Jóns biskups.

Espólín getur þess ekki að Líkaböng hafi hringt sér af sjálfs dáðum, þó hann tali um hringingar bæði þegar líkfylgdin fór fram hjá kirkjum í Hóla biskupsdæmi og eins frá því fyrst sást til hennar frá Hólum, en hins getur hann sem eins konar kraftaverks meðal annara fleiri að Héraðsvötnin í Skagafirði hafi verið í leysingu um það leyti sem líkfylgdin kom að þeim; hafi hún komizt yfir þau á ísbrú einni, en þegar þeir voru komnir yfir sem líkin fluttu ræki af spöngina.