Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Mannskaðar á Sviði
Mannskaðar á Sviði
Í Akrakoti á Álftanesi bjó lengi maður nokkur sem Jón hét. Var hann í heldri bænda röð og meðhjálpari prests á Bessastöðum. Hafði hann lengið verið sjósóknarmaður mikill og talinn gæðaformaður einkum fyrir skipstjórn á sjó. Lengi reri hann sama báti er hann átti, litlu fjögra manna fari. Þegar hann eltist hætti hann vetrarróðrum nokkur ár og lét bát sinn standa uppi. Veturinn 1834-35 kom í hann hugur sá að taka upp róðra að nýju. Lappaði hann við bátskrifli sitt hið gamla og réði háseta til; var einn sonur hans, ungur maður sem Núpur hét. Gekk nú Jóni vel að gömlum vanda sjósóknin og sókti hann á Svið engu slæligar en aðrir. Vorið 1835 á laugardaginn fyrsta í sumri var veður gott og logn mikið. Réri þá líka allur almenningur af Nesjunum og Jón sem aðrir. Þoka var á mikil og undarliga farin; var sem hún ryki líkt og reykur út og inn um húsin í Reykjavík og millum þeirra. Um nónbil tók að létta þokunni og lysti jafnframt á steinóðu norðanveðri; varaði mesta veðrið ekki yfir eyktartíma. Í veðri þessu fórst Jón og vóru þær getur á að báturinn mundi hafa gengið í sundur undir honum í sjónauðinni. Fórust þá tuttugu og fjórir menn af Álftanesi og sextán af Akranesi. Af Seltjarnarnesi týndist enginn í því sinni, en fám árum áður höfðu þaðan týnzt í sjó í kafaldsbyl þriðjudag fyrsta í einmánuði tuttugu og sex menn og þá enginn af Akra- og Álftanesjum þótt allir sæktu sömu miðin.
Í þriðjudagsbyl þessum sigldi einn formaður úr Reykjavík (sá hét Sigurður Vilhjálmsson; var hann á litlu og völtu tveggja manna fari með annan mann) alla leið af Sviði suður í Njarðvíkur eða Voga. Þókti það með ólíkindum hversu hann komst lífs af. Laugardagsveðrinu lysti á við Ísafjarðardjúp á dagmálum, á Barðaströnd á hádegi, en á nóni í Reykjavík.