Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Mjór maður langur, heillin!

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Mjór maður langur, heillin!“

Síra Einar Bjarnason á Prestsbakka á Síðu prófastur til Kirkjubæjarklausturs átti dóttir þá er Elín hét. Í æsku heimasæta í föðurgarði átti hún barn með manni þeim er Einar hét. Þennan mann vildi hún eiga, en fekk ekki fyrir foreldrum sínum sem létu hana ekki vel eftir þetta.[1]

Farandakerling fór að austan í betliferð litlu seinna. Komst hún allt í Skálholt. (Þar var þá biskup annaðhvort Þórður Þorláksson eður Jón Vídalín). Biskup fór að spyrja kerlingu ýmsra hluta, þar á meðal sem nákvæmast um prófastsdóttrina. Lét kerling vel yfir henni og háttum hennar, enda hafði Elín verið mesti geðhægðarmaður og ákaflega vel að sér til handanna. Þessu næst spurði biskup hvernig maður sá væri er hún hefði átt barnið með. Þá svaraði kerling því sem síðan er að orðtæki haft: „Mjór maður langur, heillin!“ Biskup sagðist ekki hafa verið svo að spurja að því, heldur hver mannkostamaður hann væri eður hvert orð færi af honum. Þá segir kerling: „Aldrei hefir hann komizt undir dóm, heillin!“ Eftir það gaf biskup upp að spyrja kerlingu þessa.

En er kerling kom austur aftur fer hún að segja Elínu frá viðræðu sinni og biskups. Þá spurði Elín hví hún hefði borið þeim svo ójafnt söguna. „Til að gjöra sem óhæfilegastan muninn,“ segir kerling, en Elín atyrti hana fyrir. – Elín andaðist á árunum milli 1744-1749.

  1. Einar Bjarnason (um 1653-1720) var prestur á Prestsbakka frá 1686 til dauðadags. Einar barnsfaðir Elínar var Sigurðsson.