Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ræningjasögur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Ræningjasögur

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þá eru ræningjasögur alltíðar á Íslandi sem von er á þar sem þeir hafa svo oft gert hér óskunda.

Áður er vikið á rán Tyrkja frá Algier á Norðurlandi, í Selvogi og í Vestmannaeyjum, og sagt er að Grímseyingar kunni enn ýmsar sögur um rán þeirra hér, og til skamms tíma hefur það verið venja þar að prestar hafi á tilteknum dögum prédikað móti Tyrkjum.

Spanskanöf heitir bergsnös ein milli Ytri-Laxár og Blöndu á Refasveit í Húnavatnssýslu. Þar er sagt að Íslendingar hafi barizt við sjóræningja frá Spáni og fellt þá; skammt þaðan er hóll einn sem þeir voru dysjaðir í sem fallið höfðu.

En munnmælin hafa ekki aðeins búið til sögur um útlenda ræningja, heldur og um innlenda, og er það því skiljanlegra sem háttalag þeirra virðist nú fyrst á seinni öldum hafa á sér eins konar undarlegan blæ og hálfvegis skreytilegan. Hér eru nokkrar þeirra.