Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Rútur á Rútafelli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rútur á Rútafelli

Rútur hét maður sá er bjó undir Eyjafjöllum í Skógasókn á jörð þeirri er síðan er kölluð Rútafell. Sagt er hann hafi verið héraðshöfðingi. Ekki vita menn hvað snemma hann hefir verið uppi; þó er það líklegt hann hafi uppi verið á söguöldinni þó hans sé hvergi getið því Rútafell (réttar væri Rútsfell) er það stór jörð að hún hefir varla byggzt á seinni öldum og ekki heldur verið byggð áður því þá hefði hún haldið sínu gamla nafni.

Rútur hafði átt sökótt við einhverja héraðsmenn; því bjó hann sér aðsetur í hellir einum sem er fyrir ofan og austan Rútafell framan í Litlafjalli og kallaður er Rútshellir og sjást þar enn merki til að þar hefir búið verið. Er fornverk á hellinum, víða klöppuð berghöld þó sum séu nú sundur brostin; hefir verið hengt í þau. Dyrustafir og hurðarjárn eru allt öðruvísi að gildleika sum hver en nú er títt; má víst ætla að sumt af því gæti verið frá Rúts dögum. Í innanverðum hellinum er stúka, sjálfgjörð sumpart, en sumpart klöppuð vestur og fram yfir hellinum. Þar í er rúmstæði eða bjargbekkur sem Rútur lá á. Yfir rúmi því er hola klöppuð að utanverðu. Ganga má upp á hellirinn sem er að ofan ávalur sem hryggur.

Svo fór að leikslokum að menn þoldu ekki yfirgang Rúts; keyptu þeir þá syni hans til að fyrirkoma honum; líkara væri að það hefðu verið þrælar hans, en þó er hitt almenningssögn. Klöppuðu þeir þá að honum fráverandi áðurnefnt gat og ætluðu að leggja hann þar niður um með spjótalögum. Kom hann að þeim er þeir voru að þessum starfa. Stökk þá sinn í átt hverja – og eru örnefni enn í dag við þá kennd. Drap hann Sebba hjá Sebbasteini skammt fyrir austan hellirinn, Högna hjá Högnakletti fyrir ofan Rauðafell, Ingimund hjá Ingimundi á Steinafjalli, Guðna hjá Guðnasteini í framanverðum Eyjafjallajökli og Bjarna við Bjarnarfell.