Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Söngur Illugastaðafeðga

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Söngur Illugastaðafeðga

Á Illugastöðum í Hnjóskadal fyrir og um miðja átjándu öld bjó bóndi sá sem Þórður hét. Hann var gildur maður og búhöldur góður. Átti hann Illugastaði með kotunum Sellandi og Kotungsstöðum. Þórður var hinn mesti raddmaður svo ekki var slíkur á hans dögum. Einu sinni var hann við kirkju á Háls[i], og er samhringt var til messu var margt fólk á hlaðinu. Gekk Þórður þá milli fólksins og kirkjunnar og hóf að syngja og söng einn svo hátt og mikið að menn greindu ekki klukknahljóðið gegnum söng hans; eru þar þó klukkur góðar.

Jón sonur hans bjó eftir hann á Illugastöðum og erfði allar eignir. Hann var og raddmaður mikill svo að til hans heyrðust glögg orðaskil út úr kirkjunni á Illugastöðum þótt margir syngi. Sögðu þó gamlir menn sem þekktu Þórð föður hans að mikið brysti hann á við föður sinn. Jón bjó til elli á Illugastöðum. Hann komst í fátækt og seldi jörðina með kotunum Kristjáni Jónssyni bróðir Björns á Lundi. Flutti Kristján þá að Illugastöðum og bjó þar, en fékk Jóni hæli á Kotungsstöðum. Lifði hann þar nokkur ár og deyði þar nær níræður. Jón var maður ráðvandur og vænn og lengi talinn með heldri mönnum í Hnjóskadal. Börn átti hann tvö, Þórð sem giftist og átti nokkur börn; þókti hann lítilmenni og naut jafnan styrks af föður sínum; dvaldi hann lengst hjá honum með hyski sínu. Guðlaug hét dóttir Jóns; hana átti Jónas nokkur, eyfirzkur. Þeim búnaðist lakliga, áttu engin börn, fluttu frá Illugastöðum þegar Kristján fór þangað, að Reykjum og bjuggu þar, svo að Bakka. Hún fékk átumein í brjóstið og dó af því. Hann bjó síðan á Bakka fá ár og veiktist og dó á kynnisferð í Tungu.