Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sýslumannsdóttir á grasafjalli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sýslumannsdóttir á grasafjalli

Saga þessi byrjar á því að einu sinni var austur á landi sýslumaður og er ei getið um í hvaða sýslu hann var. Hann átti eina dóttir barna er Ingibjörg hét. Systir átti hann er Margrét hét og fóstraði hún Ingibjörgu upp. En þegar Ingibjörg var tíu vetra dó faðir hennar. Síðan tók ekkjan ráðsmann og bjó sem áður því sýslumaður hafði verið ríkur. Eftir þetta var sýslan veitt öðrum manni og settist hann á jörð þar í sveitinni er var nálægt bæ þeim sem ekkjan bjó á.

Í héraði þessu var siður að gjöra fólk út til grasatekju og var mikið langt þangað sem þau vóru tínd. Það var einn vetur þegar Ingibjörg var eitthvað sextán vetra að hún var oft að tala um það við Margrétu föðursystir sína að hún öfundaði mikið fólkið sem færi til grasatekjunnar á vorin og segist hún öngva ró hafa fyrir því hvað sig langi til að fara með fólkinu sem fari í vor til grasanna. Margrét segir að það sé þó ekki neitt eftirsóknarvert fyrir hana, því betra hafi sér þótt að vera heima þegar hún hafi gengið til grasa. Og hvernig [sem] Margrét setti henni það fyrir sjónir hvað henni mundi bregða við það sem öllu góðu hefði vanizt um ævina og hvað marga kuldastund maður mætti líða þar, dugðu allar þessar fortölur ekkert og Ingibjörg var eins áköf með fyrirætlun sína sem áður. Síðan bað hún föðursystir sína að leggja til með sér hjá móður sinni að hún fengi að fara og fylgjanlega bað hún Margrétu að fara með sér því annars sagðist hún ekki una sér eina dagstund. Margrét segir að sig langi nú ei til grasa, en segist þó verða að fara með henni ef móðir hennar leyfi þeim að fara. Margrét nefnir þetta síðan við ekkjuna og útmálar fyrir henni hvað Ingibjörgu langi mikið til að fara til grasanna. Ekkjan tekur þessu fyrst ekki nærri og heldur að eitthvurt ólán kalli að Ingibjörgu. En fyrir langa þrábeiðni þeirra fengu þær samt leyfi fyrir að fara. Líður nú veturinn og fram á vor að fólk fór að búa sig til grasa og ætlaði hinn nýi sýslumaður að láta fólk fara frá sér og bað móðir Ingibjargar hann að lofa Margrétu og Ingibjörgu að verða samferða. Um vorið var góð tíð og fóru nú allir á stað sem ætluðu sér í heiði. Endilega vildu þær frænkur vera sér í tjaldi og fóru þær með mikið praktugt tjald er faðir Ingibjargar hafði átt og brúkað er hann reið til Alþingis. Nú segir eigi af ferðum grasafólksins fyrri en það kemur á þann stað hvar það ætlar að tjalda. Frænkur völdu sér sjálfar tjaldstað þar sem þeim þótti bezt henta og er þess getið að tjald þeirra stúlkna sást ekki frá neinum hinna tjaldanna, og þó ei væri langt á milli þá bar af hæð eða leiti. Tóku nú allir til starfa og þær frænkur líka, en ævinlega tíndu þær á daginn, en sváfu á nóttunni, en hitt fólkið tíndi á nóttunni og svaf á daginn. Það bar til einn dag er þær vóru að taka grös að Ingibjörgu syfjar svo mikið að hún dregur ýsur ofan í grasamóinn. Margrét kallar þá til hennar og segir að þær skuli fara að tala eitthvað saman og vita hvort ekki færi af henni svefninn og gildir það ekkert. Margrét segir þá að hún skuli fara heim í tjaldið og leggja sig út af um stund. Ingibjörg kveðst ekki fara heim nema hún fari með sér. Fóru þær nú báðar heim að tjaldinu. Nú fer Ingibjörg inn í tjaldið og sofnar hið skjótasta, en Margrét gengur út og sezt við tjalddyrnar og fer að sauma. Þegar hún hefur saumað um hríð verður henni litið upp í brekkuna nokkuð fyrir ofan tjaldið og sá þar koma ríðandi sex menn og stönzuðu þeir þegar þeir voru komnir á bí við tjaldið, eins og þeir væru að tala saman. Síðan ríða fimm áfram, en einn ríður heim að tjaldinu. Margrétu verður nokkuð bilt við er hún sá manninn koma og sá hún fljótt að það var mikils háttar maður, því hann glóði allur í stássi og eins var hesturinn og reiðtygin; hann var bæði stór og fallegur. Þegar hann kemur heim að tjaldinu þá heilsar hann kurteislega upp á Margrétu og spur hana hvört henni tilheyri þetta tjald. Hún segir að svo gott sé það. Hann spur ennfremur hvað margt fólk sé í tjaldinu. Hún segir að þar séu ekki fleiri en hún og önnur stúlka til. „Og hvar er hún?“ segir komumaður. „Hún sefur inn í tjaldinu,“ segir Margrét. „Þó ég sé þér óþekktur,“ segir hann, „þá ætla ég að biðja þig einnar bónar, hverri ég helzt vil að þú játir áður ég segi þér hver hún er.“ „Enginn þarf,“ segir hún, „að hugsa að ég lofi því sem ég veit ekki hvað er.“ „Þá er ei meira um það,“ segir hann, „en bón mín var sú að þú leyfir mér inngöngu í tjaldið og að þú sitjir þar sem þú ert og í sömu stillingu og þú ert núna og ef þú reynist mér trú í því þá skaltú fá það fullborgað.“ „Undarlig þykir mér þessi bón,“ segir Margrét, „en þó mun ég leyfa þér það ef allt verður óskaddað í tjaldinu og með sömu merkjum og nú er.“ Hann segir það skuli vera. Síðan lætur aðkomumaður spesíu í kjöltu Margrétar og segir að þetta skuli hún eiga fyrir inngönguleyfið og svo fer hann inn í tjaldið, en Margrét situr eftir úti í óróligu skapi, en þorir þó ekki að njósna um hvað maðurinn sé að gjöra. Nú líður að hún hélt svo sem hálf stund; þá kemur hann út aftur. [Segir] hann við Margrétu að hún muni nú víst ekkert sjá í tjaldinu öðruvísi en hafi verið áður. Hún segist nú ekki vera svo hrædd um það að hún sjái mikið öðruvísi en hafi verið. En nú segir hann að sér ríði á að hún segi engum lifandi manni frá að þau hafi séðst eða að nokkrir menn hafi komið til þeirra á fjöllunum. Margrét lofar því fyrir fullt og allt. Að skilnaði gaf hann henni aðra spesíu og sagðist vafalaust mega segja henni það að þau mundu einhvörn tíma á ævinni sjást eftir þetta þó það kannske yrði ekki svo fljótt og þá sagðist hann skyldi betur launa henni trúmennskuna. Síðan kveður hann Margrétu og segist halda að mönnum sínum sé farið að lengja eftir [sér] og muni hann mega flýta sér til að ná þeim og síðan ríður hann af stað. En er hann var kominn í hvarf gengur hún inn í tjaldið. Sér hún þá að Ingibjörg liggur í fasta svefni eins og þegar hún gekk út frá henni, en í sænginni fyrir framan Ingibjörgu sér hún að liggur skelfilega stássleg hálsfesti af skæra gulli. Margrét tekur festina og fer að skoða hana og sér að það er nisti á festinni og er kallmanns fangamark á og vóru það þrír stafir: G. G. S. Hún lætur þetta liggja kjurt eins og það lá. Og að litlum tíma liðnum þá vaknar Ingibjörg og óðar en hún tekur opin augun kemur hún auga á festina og spur hvernig á þessu standi. Það segist Margrét ekkert vita, – „því þegar ég kom inn í tjaldið sá ég þetta liggja fyrir framan þig og þorði ég valla að snerta það.“ „Ég veit,“ segir Ingibjörg, „valla hvört ég á að þora að snerta það heldur.“ Margrét heldur að henni muni vera það óhætt eins og sér. „En það segi ég þér satt,“ segir Margrét, „að hér hefur engin sýnileg vera komið meðan þú hefur sofið.“ Nú fer Ingibjörg að skoða festina og virða fyrir sér fangamarkið sem var á nistinu og þær vóru líka að tala um hvör mundi eiga þessa stafi, en Margrét segir að það muni eigi gott að segja um það. Ingibjörg spur Margrétu hvað hún eigi að gjöra við þetta. Margrét segir að það sé sjálfsagt að hún geymi það sem annan menjagrip, því hún segist ekki geta gjört sér aðra hugmynd um festina en að einhvur huldumaður hafi ætlað að gefa henni það í heiðurs skyni fyrir það að hann muni kannski hafa verið í kunningskap við fyrrverandi ættingja hennar og þess vegna ætlað að láta hana njóta þess. Margrét segir samt að hún skuli halda þessu leyndu og láta engvan lifandi mann vita neitt af því. Hún segir við Ingibjörgu að það kunni einhvorn tíma að leiðast í ljós og þess vegna skuli hún ekki láta á neinu bera. Við þetta slitu þær talið Margrét og Ingibjörg og fóru nú aftur að taka grös. Nú það sem eftir var af grasatímanum bar ekkert til markvert. En er þrjár vikur vóru liðnar frá því að fólkið fór að heiman til grasanna þá var nú komið úr byggðinni að sækja það og búa nú allir sig til heimferðar og gengur nú ferðin vel. Koma þær nú heim til sín Margrét og Ingibjörg og er vel fagnað og ber nú ekkert til tíðinda.

Nú er frá því að segja að er þær frænkur höfðu dvalið nokkra stund heima að Ingibjörg fer að kenna sér óhreysti og þoldi ekki neina vinnu og getur valla fylgt fötum. Fer móður hennar að verða áhyggjufull út af þessu og vill fara [að] leita henni lækninga. Eftir þetta fer Ingibjörg að verða nokkuð framsett og halda allir að hún sé orðin full með meinlæti og innvortisveiki. Fer nú móðir hennar að verða óró í skapi og minnist nú þess er hún sagði að Ingibjörg mundi hafa eitthvað illt af grasaferðinni og mundi henni hafa brugðið við ellegar heima. Margrét segir að valla muni það hafa verið í so góðu veðri sem einlægt hafi verið, en unglingar, segir hún, á hennar aldri fái þetta oft í sig og batni það ævinlega aftur. Líka segir hún að Ingibjörg hefði fengið þessa vilsu í sig er hún hefði verið lítil og hefði þá batnað það aftur og eins mundi enn verða, og réði frá að leita henni nokkurra lækninga. Síðan dregst þetta að engin meðöl eru brúkuð við hana. En að nokkrum tíma liðnum leggst Ingibjörg og elur sveinbarn. Nú er prestur sóktur til að skíra barnið og er þá farið að spurja hver faðir sé að því, en Ingibjörg getur þar ekkert svar upp á gefið. Nú er gengið fast á þær Margrétu og Ingibjörgu um hver barnið ætti, því eftir því sem tímar töldust þá var kjúklingurinn getinn í grasaheiðinni, en þær gátu ekki að heldur feðrað barnið. Var nú farið að ráðgast um hvað barnið skyldi heita, en Margrét segir í laumi að hún skuli láta það heita Gísla eftir fangamarkinu sem sé á nistinu, því sá sem það hafi átt hafi annaðhvört heitið Guðmundur eða Gísli. En þeim þótti Gísli fallegra og var það síðan skírt. Elst hann nú upp hjá móður sinni þangað til hann var sjö vetra og þótti hann afbragð allra sveina á þeim aldri bæði að vexti, fríðleik og gáfum. Veturinn eftir það að Gísli var sjö vetra fer Margrét að segja Ingibjörgu frá því að hún vilji fara suður um vorið því hún segist eiga systir suður á Þingvöllum er sé þar prestkona og segist hún ætla að finna hana og segir að það væri gaman fyrir hana að fara með, því systir sín hafi oft skrifað sér í bréfum að sér þætti gaman að sjá hana og segir hún þær geti þá komið á Alþing um leið, – „og skaltu þá fara með Gísla líka,“ segir Margrét. Gjöra þær síðan þetta með sér og eru staðráðnar í að framkvæma þetta. Nefna þær síðan þetta við ekkjuna og leyfir hún það, en segir að þær skuli biðja sýslumanninn að lofa sér að verða sér samferða þegar hann ríði til Alþings og fallast þær á það.

Líður nú af veturinn og til vors að riðið er til þings og fara þær Ingibjörg og Margrét af stað með sýslumanni. Ræðir nú ekki af ferðum þeirra fyrri en þær koma á Þingvelli og er ekki annars getið en ferðin hafi gengið vel. En daginn eftir átti að setja þingið. Er þeim nú öllum vel fagnað á Þingvöllum. Segir nú systir Margrétu að þær skuli nú fara ofan á þing á morgun því þar sé skemmtilegt að koma fyrir þá sem ekki hafi komið þangað fyrri. Fóru þær nú daginn eftir allar þrjár í hóp og drengurinn og maður með þeim og er þá búið að setja allar búðir og standa þær skammt frá búðunum og eru að virða fyrir sér fjöldann á þeim. Hvíslar þá Margrét að Ingibjörgu að hún skuli láta Gísla brúka festina í dag og lætur Ingibjörg hana um hálsinn á drengnum. Hleypur hann þá þegar minnst varir út í mannþröngina. Kemur hann þá að einum búðardyrum og hleypur þar inn. Sér hann þar sitja mann við borð og vera að skrifa, en fleiri sá hann ekki þar inni. En þegar maðurinn lítur drenginn hættir hann að skrifa og fer að virða hann fyrir sér. Síðan spur maðurinn drenginn að heiti. Hann segist heita Gísli. „Hvers son ert þú?“ spurði maðurinn. „Það veit ég ekki,“ svarar Gísli. „Veiztu þá ekki hvað faðir þinn heitir?“ „Nei,“ segir drengur, „ég hef aldrei heyrt hann nefndan á nafn.“ Síðan spur hann hvað móðir hans heiti. „Hún heitir Ingibjörg,“ svarar drengur. „Hvar er þá móðir þín?“ segir maðurinn. Gísli segir að hún sé hér einhverstaðar nálægt og segist hafa hlaupið frá henni. Maðurinn býður þá Gísla að koma til sín og lofa sér að skoða festina sem hann hefði um hálsinn; hann gjörir það. Síðan spur maðurinn hvur hafi gefið honum þessa festi. „Ég á hana ekki,“ svarar Gísli; „móðir mín á hana.“ Maðurinn biður Gísla að segja móður sinni að hann vilji finna hana. Hleypur nú Gísli á burt og kemur til móður sinnar og segir henni að hér sé maður sem hann hafi fundið, en vilji finna hana. Hún spur hvert hann hafi farið að ganga á fund manna inn í búðir. Hann segir: „Já, ég kom inn í eina,“ segir hann, „og sá ég þar einn mann og vildi hann finna þig.“ Ingibjörg verður fremur feimin við þessi tíðindi, en Margrét segir að hún skuli fara. Ingibjörg segist ekki fara nema Margrét fari með sér. Fara þær nú báðar og drengurinn með og koma þær nú brátt að búðinni og ganga þær þar inn og fer drengur inn á undan þeim, Heilsa þær nú manninum og þekkir Margrét brátt að það er hinn sami maður sem kom til þeirra að tjaldinu forðum. Maður[inn] segir við Ingibjörgu að Gísli hafi komið til sín áðan og hafi hann spurt hann hvers son hann væri, „og gat hann ekki sagt mér það og þess vegna bað ég hann að skila til þín að ég vildi finna þig því mér var forvitni á að vita hvað faðir hans héti.“ En Ingibjörg þagði og gat engu svarað. En þegar hann fékk ekkert svar þá spur hann hvar hún hafi fengið festina, en Ingibjörg þegir sem áður. Þá segir Margrét hvört hann vilji að hún segi eitthvað um það hvar hún muni hafa fengið það. Þá spur maðurinn hvört hún muni framar geta það. Hún segir að það sé spursmál hvert hann vilji að hún segi nokkuð um það. Hann segir að hún megi það ef hún geti. Segir hún þá frá manninum sem kom að tjaldinu. Og greip hann þá fram í og sagði að hún væri nú búin að þegja nógu lengi og sagðist hann nú sjálfur geta opinberað það sem hún væri so lengi búin að þegja yfir og sagði hann þá upp alla sögu. Og var þetta sýslumaður vestur langt á landi. Sagðist hann nú hafa í hyggju að fara austur með Ingibjörgu og biðja hennar. Gjörði hann það og fékk hana. En Margrétu gifti hann vænum manni og gaf henni síðan tuttugu hundraða jörð og launaði þannig þagmælsku hennar. Amen.[1]

  1. Þessi saga er að vísu ekki af neinum biskupi, en á efnis vegna helzt samstöðu með sumum undanfarandi sögum; verður ekki heldur skipað í flokk sagna af ákveðnum mönnum.