Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Saga Hákonar fullknerris

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Saga Hákonar fullknerris

Hákon kom af Norvegi og nam land allt vestan megin Jökulsáar allt að jöklum og út [að] Teigará og bjó á Hákonarstöðum. Þá kom og Skjöldólfur nokkru síðar og nam land allt sunnan áar, en vegna þess að honum þóktu fagrari hlíðar vestan megin í dalnum byggði hann bæ sinn þeim megin og kallaði Skjöldólfsstaði, en vegna þess að það land hafði áður numið Hákon, en þetta var gjört í óleyfi hans, þá kom þykkja og fjandskapur þeirra á milli svo að Hákon skoraði Skjöldólfi á hólm og skyldi fundur þeirra verða í hólmanum í Stórhólmavatninu á tilsettum degi. Skjöldólfur átti skjaldmey eina er Valgerður hét og lét hann hana með sér fara. Þegar þau komu norður á heiðina að vatni einu sjá þau þar mjög mikinn fjölda af sárum álftum. Hann segir henni að vakta álftirnar meðan hann sé í burtu að þær fari ekki af tjörninni. Með það heldur hann leiðar sinnar. Svo finnast þeir Hákon í hólminum og berjast þar og féll þar Skjöldólfur fyrir Hákoni. En það er að segja af Valgerði að aldrei kom Skjöldólfur aftur, en hún hljóp alltaf í kringum tjörnina þangað til hún sprakk, og heitir tjörnin síðan Valgerðarhlaup til þessa dags, og var Skjöldólfur þar heygður í hólmanum; stendur haugur hans þar enn í dag.

Svona segir frá sögu þessari í Jökuldælu sem var til, en er nú töpuð. Ræfil af henni, mjög fúinn og lasinn, sá Pétur sálugi á Hákonarstöðum, faðir þeirra bræðra sem þar nú eru.

Svo segir líka í Jökuldælu: Hof höfðu Jökuldælingar í teignum fyrir framan Hofteig og lá teigurinn á milli ánna undir hofið. Í þann tíma bjó Brandur sterki að Víðirhólum, en Gaukur á Gauksstöðum. Eitt sinn þegar riðið var til blóta riðu þeir yfir um Jökulsá á vöðum nokkrum sem enn sést merki til. Þá stjakaði Brandur við Gauki svo hann féll af hesti og vöknaði í ánni. Nokkru seinna gjörir Gaukur sér ferð og að Víðirhólum og vó þar Brand óforvarandis. Sömuleiðis segir í Jökuldælu að í Svartadauða hafi eyðzt bæir í Jökuldals- og Hlíðarhrepp utan Þorsteinn á Brú komst af með hyski sínu í Arnardal og tvær manneskjur aðrar; hét önnur þeirra Valgerður beinróa og drengur sem hét Ögmundur jötukúfur. Fann Þorsteinn þau bæði lifandi á einhvörjum bæ eftir pláguna. Hafði Valgerður verið á tólfta ári í plágunni, og þegar allt var dautt á hennar heimili fór hún að leita á öðrum bæjum, og fann hún þá í hesthússtalli á Hákonarstöðum þennan dreng á fjórða ári, og hét Ögmundur og var síðan kallaður jötukúfur. Þau urðu síðan hjón og er margt manna sagt frá þeim komið. Líka segir að kelling hafi komizt af á Brú sem Þorsteinn komst ekki með þegar hann flutti undan plágunni, og er sagt hún hafi lifað á skyrámu og smjörtunnu sem Þorsteinn skildi eftir. – Og lúkum við hér þessari sögu.