Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Saga um Sigurð, Eirík og Gunnstein

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Saga um Sigurð, Eirík og Gunnstein

Það mun hafa verið á milli 1780 og '90 að sá maður átti heima á Berufjarðarströnd í Múlaþingi er Eiríkur hét; hann var ungur, og mjög ódæll þótti hann vera. Þá vóru hörð ár og sultur mikill manna á milli.

Eitt sinn stal Eiríkur sauð og hafði þá fengið þann mann í félag með sér er Gunnsteinn hét og lofað honum að láta hann fá hlut úr sauðnum, en sagt er þó að Gunnsteinn væri ekki neinn klækjamaður. Þá kom að þeim piltur einn lítill og kvaðst mundi segja frá athæfi þeirra, en Eiríkur sagði það skyldi ekki verða og tók drenginn og skar úr honum tunguna og varð það hans bani, en þó gat hann áður auglýst aðgjörðir þeirra Eiríks og Gunnsteins, vóru þá teknir til fanga og færðir til sýslumanns í Suður-Múlasýslu er þá bjó í Eskjufirði. Er sagt það hafi verið Jón Sveinsson[1] lögmanns Sölvasonar, og hafði hann þá í haldi um hríð og þann þriðja sakamann er Sigurður hét; það er af honum sagt að þegar hann var átján vetra, gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helzt þó kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhvurjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargarþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan í byggðina og fór að stela sjófangi úr hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns sem fyrr segir.

Þeir vóru geymdir í lofti einu ramgjörvu. Þetta var snemma vetrar. En eina nótt fóru þeir og gátu brotizt úr loftinu; fóru svo inn í eldhús og tóku þar ofan sauðarfall og suðu í sápuþvottarskólpi er þeir fundu í eldhúsinu. En þegar þeir vóru búnir að sjóða og borða nægju sína gengu þeir út og var hinn mesti kafaldsbylur, en þeir mjög illa búnir að klæðum, einkum Sigurður, því að víða skein í hann beran. Þó halda þeir út sveit og út að Sigmundarhúsum og fóru þar í fjárhús. En um morguninn er bóndinn á Sigmundarhúsum er Ólafur er nefndur ætlaði að fara að gefa í húsin brá honum heldur í brún er þar vóru menn fyrir. Var þá Gunnsteinn og Eiríkur í garðanum, en Sigurður var að berja sér úti fyrir dyrunum og sagði við Ólaf: „Harður er ég, harður er ég.“ Bóndi þóttist vita hvurnig á ferðum þeirra stóð, að þeir mundu valla með leyfi farið hafa, en segir þó við þá að þeir skuli koma með sér heim að bænum og fá sér að borða, þeir muni þurfa þess með. Eiríkur og Gunnsteinn tóku því undireins vel að fara heim með Ólafi, en Sigurður sagðist ekki vilja það og kvaðst hyggja að bóndi mundi ekki verða þeim trúr, en hann lofaði öllu fögru. Er ekki að orðlengja að það verður úr að þeir fara heim með Ólafi, og lætur hann fara að sjóða mat handa þeim, en sendir mann á laun til sýslumanns inn að Eskifirði (sem þó er æði langur vegur) og segir hann verði sem skjótast að vitja fanganna. Sýslumaður brá við og fékk sér menn þar kringum sig og fór með nokkra menn út að Sigmundarhúsum og vissu þeir Sigurður og hans félagar ekki fyrri til en þeir vóru teknir fastir af sýslumanni og hans mönnum. Flytur hann þá enn inn að Eskifirði og lætur byggja byrgi eða virki fyrir sunnan ána nærri Borgum. Er það hér um bil litla stekkjargötu frá Eskifirði. Þangað vóru þeir látnir félagar. Var gluggi einn þar á sem þeim var réttur inn um maturinn daglega.

Eiríkur var næstur glugganum og náði með því móti meiri hluta af matnum og höfðu þeir Sigurður og Gunnsteinn ekki nema það lakasta. Fór þá svo að þeir dóu báðir í harðrétti um veturinn og vóru dysjaðir undir steini þar skammt frá. En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumanninn á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin – og bar ekki á Sigurði eftir það. En Eiríkur var höggvinn um vorið á svonefndri Mjóeyri, skammt fyrir utan Eskifjarðarkaupstað, og sér merki til dysjar hans enn.

  1. Jón Sveinsson (1753-1799) var sýslumaður í Suður-Múlasýslu frá 1781 til dauðadags og bjó að Eskifirði.