Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagan af Bjarna vellygna

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Bjarna vellygna

Maður er nefndur Bjarni; hann bjó á Bjargi í Miðfirði; hann var kvongaður og átti Snælaugu dóttir Björns hins auðga austan af Meðallandi. Þeirra synir voru þeir Jón er síðar var kallaður tíkargola, og Ari. Koma þeir lítt við þessa sögu því ungir voru þeir er þetta gjörðist.

Bjarni átti oft þröngt í búi; var hann þó búsýslumaður hinn mesti; fór hann árlega til sjóar og var formaður suður í Garði, en sem hér var komið var vetur í harðara lagi; byrjaði hann því verferð sína í seinna lagi og voru vermenn allir farnir af stað. Fer nú Bjarni að búa sig til ferðar og járna hesta sína; var það bleikur hestur og jörp hryssa góðgeng. Er ei getið hvað hann hefur í böggum sínum nema tvö hálfanker af sýru er Þórður frá Meiðarstöðum hafði pantað hjá honum; fer hann nú á stað og ríður sem leiðir liggja suður á Holtavörðuheiði, en þá hann kemur norðan til á Norðurárdal fer veður að kólna og hvessa svo valla hafði Bjarni út í hvassara veður komið; en þá hann hafði riðið um hríð lítur hann aftur til hests þess er hann teymdi og sá hann að ei var annað en hausinn eftir af hestinum; hafði þá veðrið slitið hann úr hálsliðnum; sleppti þá Bjarni hausnum. Hvessti þá enn meir svo hann fauk af þeirri jörpu og kom víðs fjærri niður, en til allrar lukku þá náði hann með þumalfingri í hestfax og dinglaði þar sem strá fyrir straumi í þrjú dægur. Slotaði þá veðrinu svo Bjarni sezt á bak, og getur ei ferða hans fyr en hann kemur út á Akranes; hafði þá þar niður komið annað kvartilið og var mjög svo brunnið utan af hita sólar þar það hafði svo nær henni sveimað að það lítt kunni standast hita hennar. Fær þá Bjarni sér far suður í Garð og byrjar formennsku sína. Getur ei um aflabrögð fyrr en á sumardag hinn fyrsta; þá réri Bjarni snemma; gjörði þoku mjög svarta, en þegar Bjarni var kominn á mið fiskar hann vel, en þegar hann tekur stjórann þá setur hann flatningssax sitt í þokuna, og þangað réri hann sex daga samfleytt og hafði hnífinn fyrir mið, en á sjöunda degi þegar hann var kominn á mið sitt fór að hvessa og þokan að ryðjast af hnífblaðinu. Hafði hann þá dregið eina keilu. Lét hann þá fara að taka stjóra og berja í land. Flatti þá Bjarni keilu sína og lagði á skut aftur, en þegar ein vika sjóar var til lands þá ætlaði þorskhausahríðin úr landi að drepa hann því fjallháir hausahlaðar fuku sem lausamjöll. Hertu þeir þá róðurinn og létu koll fylgja kili, rykktu á og rifu aftur úr unz þeir náðu sinni lendingu. Var þá Bjarni mjög matlystugur; snæddi hann því með lyst mikilli hvar af hann fékk vindgang mjög harðan svo honum þótti undrum gegna. Tók hann þá fangamerktan stjóra D. H. s. og lét fyrir eftri enda sér, en af þeim yfirnáttúrlega vindgangi fór stjórinn á stað og kom niður austur undir Eyjafjöllum, en keila sú er Bjarni flatti var orðin sleggjutæk þá í land kom og var þó 1½ fjórðungur að vikt.

Fám dögum þar eftir gengur Bjarni á stað inn í Keflavík, en á leið sinni mætir hann manni á Hólmsbjargi; spyrjast þeir tíðinda; segir þessi ei annað í fréttum en nógan fiskiafla í Hafnarfirði. Hugsar þá Bjarni með sér að þar væri sér hentugt að róa einn róður um leið og hann færi norður. Býr hann þá ferð sína og inn að Görðum í Hafnarfirði; þaðan réri hann snemma morguns og út í fjörðinn, en varð ei fiskvar; setur hann því upp segl og siglir landsynning vestur á Svið; þar verður hann var við handstinna fiska, dregur þar og einn flatan fisk þann er vér flyðru köllum; var hún stór svo að ei gat hann innbyrt hana, varð því á eftir að hafa. Hvessti nú veðrið mjög með stórum élum svo allir héldu galdraveður mundi vera; en þá þeir voru mjög svo nær komnir landi sér Bjarni svarta flugsu í lofti fara og koma mjög svo nær sér; rís hann þá upp í skut og nær í þetta; var það þá Garðakirkja; hafði hana þá upp tekið í veðri því; hnýtir Bjarni henni þá aftan í og nær svo lendingu sinni, dregur upp aflann, en nennir ei að para lúðu sína í það sinn; líður svo nóttin; en um morguninn tíðlega kemur fjósamaður frá Mosfelli; hafði þaðan kýr hrakið frá vatni um kveldið; voru þær fjórar og uxi enn fimmti; var það jafnsnemma er Bjarni fór til sjóar að skipta lúðu sinni; varð fjósamaður honum samferða að sjá lúðu hans; en þegar þeir þangað koma sjá þeir að allar kýr hans voru undir rafabeltinu, en uxinn stóð upp í henni; rekur hann nú kýr sínar heim, en Bjarni fer að para lúðu sína; gjörir hann rikling úr flökunum og er mælt að það færi vart á fimm hesta þegar hart var orðið. Þótti Bjarna magi lúðunnar mjög svo stór, ristir því á hann; þar innan úr komu tólf vöðuselir hverja hann lét reka norður á Holtavörðuheiði.

Fer nú Bjarni að búa sig til norðurferðar, ríður inn í Reykjavík og er þar nóttina. Um morguninn er hann snemma á fótum og fer að járna þá jörpu með sexboruðum skaflaskeifum, en þá hann er ferðbúinn og á bak stiginn kemur þjónustustúlka út með kaffibolla sem Bjarni átti að drekka. Var þá svo mikið æði á honum að hann sinnti því lítt nema slær í þá jörpu, en stúlkan gat sett bollann á lend hryssunnar, en um leið og Bjarni sló í, þá brá sú jarpa svo hart við að skeifur undan báðum eftri fótum stóðu fastar á sköflunum í næsta timburhúsvegg; hélt hún sprettinum upp að Galmanstungu; þar fer Bjarni af baki og lítur þá kaffibollann kjuran á lendinni, svo var hún nett að ei hafði út úr farið og var þá mátulega heitt til að drekka. Þar áir hann litla hríð, ríður svo sem leiðir liggja norður Tvídægru, en þá hann er skammt á leið kominn fer veður hvessa með stórrigningu, en þegar Bjarni finnur fyrstu regndropa þá slær hann í hryssu sína og ríður slíkt er af tekur, en svo var sú jarpa fljót að aldrei hvessti svo mikið að regnið næði nema á lend merarinnar, og þá sungu englarnir í loftinu: „Ó, vökur er sú jarpa.“ Sagði þá Bjarni: „Vakrari er hann Jarpur undan henni; herðið þið á skúrinni, ég skal herða á merinni.“ En svo reið hann norður í Miðfjörð að aldregi náði skúrin honum.

Sezt nú Bjarni um kyrrt, ber fátt til tíðinda þar til menn fara að gjöra fjallgöngur; lætur þá Bjarni tvo menn fara í leit. Átti annar þeirra að leita að selum hans; fann hann þá alla í einum hóp, rekur þá heim að Bjargi og slátrar Bjarni þeim öllum, en innan úr hverjum sel komu tólf álftir og var það mikið bjargræði í bú hans, en um veturinn hafði hann sér það til skemmtunar að hann bjó til úr álfarbeinunum sex pör móhripa því hann var vel hagur á tré og járn.

Líður nú vetur fram til jóla að ei bar til tíðenda, en á aðfangadag jóla kemur Snælaug að máli við bónda sinn og kveðst lítt því una að hafa ei nýmeti um jól og skorar fast á mann sinn, kvaðst hún helzt vilja ljúffengan blautfisk. Tekur hann lítt máli hennar. Var þetta snemma dags, en þá minnst varir er Bjarni á braut genginn; hefur hann nú upp mikla göngu og [kemur] snemma dags vestur á Mýrar, fær sér þar skip og menn. Ógjörla vita menn hvað margir réru með honum, en hitt er víst að í átján staða skipti var af skipi því. Var nú ákafi mikill í Bjarna svo þegar hann ýtti sparn hann bjargið til ökla og er síðan þar kallað Bjarnastig. Sigla þeir nú á djúpmið og láta færi til botns gá; draga þeir þar átján í hlut af löngu. Fer þá að hvessa svo Bjarni vildi í land fara. Gjörði nú særok. Réru þeir þá brattför og knattför, síðan slettu þeir á nokkrum kellingarslæpum og rykktu svo á og rifu aftur úr; gekk þó lítið. Loks komu að þeim háar öldur og stór ólög svo að skipinu hvolfdi undir þeim. Lætur Bjarni sér ei bilt verða. Hann snýr upp skipinu og tínir fisk allan; sezt hann þá við árar og spyrnir svo fast í hlunna að þeir verða sem krap fyrir fótum hans, en þá hann er mjög nær landi kominn sér hann svarta flugsu í loftinu, í hverja hann nær og kippir í skut niður. Var það þá hestasteinn frá Hólum í Hjaltadal með tólf hestum við. Kemst hann nú á land og ber af skipi og setur upp í naust, en þá hann er að því búinn finnst honum sem hann sé utan við sig og hélt hann það væri af þreytu, en þá varð honum litið fram á sjó, sér þar fljóta lítinn blóðrauðan hnoða á þriðju báru og þekkti þá að það var sálin úr honum hverja hann í flughasti gleypti og varð mikið hressari eftir. Seilar hann nú afla sinn hver eð var átján í hlut í átján staði, leggur á bak sér og labbar á stað, en þá hann er kominn upp í Norðurárdal gjörir logndrífu svo mikla að á hæstu hólum getur hann aðeins rétt staf sinn upp úr. Gengur hann nú fram að dagsetri; var það aðfangadagur jóla sem fyr var sagt. Heldur hann nú áfram það beinasta hann kann þar til hann dettur inn um eldhússtrompinn á Bjargi, en byrðin varð eftir úti. Heilsar Bjarni konu sinni og biður hana fara að sjóða; setur hún nú upp stóra pottinn. Gjörist nú reykur még mikill, en vegna þess að farið var að hvessa þá og drífa burt snjóinn þorði því ei Snælaug út að skýla hjá, biður því bónda sinn að hjálpa sér. Fer hann þá út þó ferðlúinn væri, skýlir hjá gluggum, en þá hann ætlar ofan gjörir byl mikinn svo Bjarni fýkur sem brenndur miði og kom ei niður fyrr en suður á Eiríksjökli; var það fall mikið svo hann lærbrotnaði, viðbeinsbrotnaði og fjögur rif úr síðu hans hrukku sundur. Stendur hann þó upp og gengur um jökulinn hvar hann finnur birkiprik og gengur við það heim síðan og var þá nær dagur kominn. Er ei getið ferða hans framar og setzt hefur hann um kyrrt og stýrt búi sínu þar til synir hans tóku við búsforráðum og höfum vér ei meira heyrt af hans framaverkum. Endum vér svo þetta ævintýr af Bjarna svokölluðum fyrirtak.