Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagnir úr Njálu

Sagnir þessar eru ýmist missagnir eða viðaukar við bóksöguna. Það orðtak er enn haft eftir Njáli að hann hafi átt að segja: „Af langviðrum og lagaleysi mun land vort eyðast.“ Það er og sagt eftir Sæunni kerlingu á Bergþórshvoli að hún hafi sagt um arfasátuna sem henni var klaksárast til:

„Uggir mig það, arfasáta,
að úr þér muni rjúka.“

Hvortveggja orðtækin eru síðan höfð fyrir máltæki.

Á Bergþórshvoli þar sem gamli Njáll bjó sér enn Flosahól og Flosalág þar sem þeir Flosi bundu hesta sína áður en þeir réðust heim að bænum; þá sér og enn Káragerði þar sem Kári hljóp yfir þegar hann komst út úr brennunni, og Káratjörn þar sem hann slökkti eldinn í hári sínu og klæðum.

Þegar Flosi reið frá Njálsbrennu er sagt að hann hafi leynst í Þríhyrningi og haft hesta sína uppi í dal þeim á fjallinu sem við hann er kenndur síðan og kallaður Flosadalur. Sjálfur hafðist hann við í helli þeim sem er í fjallinu útnorðanverðu og síðan heitir Flosahellir. Sá hellir sést enn og er þverhnípt bjarg bæði ofan og neðan að honum og eigi fært að nema í sigi. Í helli þessum lét Flosi verða eftir gullkistu eina. Mælti hann svo fyrir að sá einn skyldi hafa not fjár þessa sem héti eftir sér, en enginn annar. Einn bóndi hefur reynt að ná fénu. Komst hann í hellinn, fann þar kistu og stóð lykillinn í skránni. Bóndi lauk þá upp kistunni og hugsaði sér nú til hreifings. En hann sá ekkert fémætt í henni, en full var hún af gráviðarlaufum. Bóndi reiddist og hugðist ekki oftar mundi þangað fara og láta Flosa svo gabba sig eins hættulegan veg. Hann tók þó fullan sjóvettling með sér af laufinu til sýnis. En þegar hann kom ofan á jafnsléttu leit hann í vettlinginn og sá nú að hann var fullur af silfri. Sá hann nú að hér voru brögð í tafli og þorði ekki að fara upp aftur í hellinn því hann hugsaði að vættur sú sem sér hefði gjört sjónhverfinguna mundi þá beita öðrum brögðum og þótti honum ekki færilegt að hætta sér þannig oftar. Aldrei fór hann síðan í hellinn og enginn hefur þangað annar farið.

Á hinum forna þingstað Íslendinga á Þingvöllum eru tvær gjár, sín hvorumegin við Lögberg, sem liggja nærri saman til beggja enda; heitir hin eystri Nikulásargjá, en hin vestri Flosagjá. Er sú saga til þess að þegar bardaginn varð á alþingi 1012 af eftirmálinu um Njálsbrennu er sagt að Flosi hafi frelsað líf sitt með því móti að hann tefldi á tvær hættur og stökk vestur yfir gjána út af Lögbergi til að forða sér; er það hlaup talið átta faðmar, en miklu lægri er þó vestri gjábarmurinn en hinn eystri sem hann stökk af. Frá hvorugum þessum atburði greinir Njála neitt sem þó lýsir gjörla bardaganum.

Í Laugarnesi, skammt fyrir innan Reykjavík, er leiði Hallgerðar Höskuldsdóttur langbrókar, konu Gunnars á Hlíðarenda. Það er sagt að hún hafi beðið þess að hún væri grafin þar af því hún hefði átt að sjá það fyrir að þar mundi síðar verða reist kirkja, en aðrir segja settur biskupsstóll; ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin en annarstaðar á Laugarnestúnum. Þó Njála geti ekki um legstað Langbrókar er ekkert ólíklegt að sögnin sé sönn því það er kunnugt að Glúmur Ólafsson miðmaður Hallgerðar átti í sameiningu við Þórarin bróður sinn bæði Varmalæk í Andakíl, Laugarnes og Engey, og urðu þeir á það sáttir að meðan þeir lifðu báðir skyldi Glúmur hafa Varmalæk, en Þórarinn Laugarnes, en þó áskildi Þórarinn sér, ef hann lifði lengur, Varmalæk. Það er og ljóst að hann flutti sig þangað eftir fall Glúms, en Hallgerður aftur að Laugarnesi. Eftir það giftist hún í þriðja sinn Gunnari og voru samfarir þeirra sem kunnugt er af Njálu. Engar munnmælasagnir eru mér kunnar frá þeim tíma um hana nema að hún hafi átt að svara Gunnari er hann beiddi hana um lokka tvo úr hári hennar í bogastreng sinn á þessa leið:

„Illa man ég þér þá kinnhestinn forðum
er þú slóst mig undir Hlíðarenda borðum.“

Eftir víg Gunnars fór Hallgerður til Þorgerðar dóttur sinnar að Grjótá og þar var hún að minnsta kosti fimm árum síðar, 998, er hún hrakyrti Njál og sonu hans. Eftir fall Þráins er ekkert ólíklegt að hún hafi farið aftur að Laugarnesi, látizt þar og verið þar grafin að ósk sinni; er þar kallað Hallgerðarleiði suðaustur frá bæ þeim sem stendur suður og upp frá biskupsstofunni á Laugarnestúni. En ekki er líklegt að atriðið um biskupsstólinn í Laugarnesi ef það á að fylgja sögunni geti verið eldra en síðan hann var settur þar árið 1825. Það munu og vera munnmæli, en ekki tekið eftir handritum Njálu, að Hallgerður hafi átt að segja eftir að hún tók kristna trú: „Það hlægir mig að Gunnar dó í heiðni (eða: maður heiðinn), en ég er kona kristin.“