Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sjóhrakningur úr Einholtssókn 2.-4. maí 1842
Sjóhrakningur úr Einholtssókn 2.-4. maí 1842
Þá reru fjögur skip frá Skinneyjarhöfða í stilltasta veðri, en nokkuð þykku lofti, út á svo stilltan sjó að menn höfðu ekki séð hann stilltari. Um miðmundabil þegar mennirnir komu út á fiskimið hér um bil á fjórtán faðma djúp sem er töluvert langræði fóru þeir að renna færum, en afli lét ekki svo telja mætti. Þegar leið að miðaftani fóru að koma vindgárar á sjóinn og litlu síðar hvessti svo að ekki var viðdvalavært. Var þá tekið til róðra af hvorjum sem megna mátti. Eitt af skipunum var gangbezt og hafði líka góða áróðramenn, en bæði var það smærra eða mjórra og jafnvel ósterkara en hin skipin sem sáu að það runaði fram hjá hinum og var komið meir en hálfa leið til hafnar þá menn sáu það síðast gegnum sjórokið og sandfok af landi og virtist þeim er sögðu mennirnir á því vera komnir í hóp og héldu því að eitthvað hefði bilað á skipinu. En nú hrakti hvort hinna skipanna frá öðru, því engu varð við ráðið. Þó allt væri reynt að halda þeim réttum móti öldum sjávarins urðu þau að reka fyrir storminum og þó sum skipin hefðu kraka dugði það lítið. Tveggja skipsverjar ætluðu að ná sinni duggunni hvort um nóttina, en það heppnaðist ekki nema öðru og voru þó hásetar þess orðnir kaldir á höndum, en fengu þar þá bæði hvíld og góðan viðgjörning þar til birti af degi og jafnvel slotaði nokkuð veðrinu. Annað skip sögðu þeir sem á því voru hefðu þeir látið snúast og skakast í öldunum eins og fara hefði viljað eftir að hásetar þar voru orðnir magnþrota og eitt mesta kallmenni þar á andaður. Eitt skipið sem liðléttast var og enginn var á til yfirburða nema meðhjálpari Eiríkur Eiríksson hafði stjóra sem nokkuð tempraði rek á því. En jafnvel fleiri en einn af hásetum þess urðu svo yfirfallnir af vanmegni og ofboði að nefndur Eiríkur varð að hafa töluvert ómak til að varna þeim að fleygja sjálfum sér í sjóinn enda dóu þar um nóttina tveir menn, en um morguninn sá þriðji, gamall maður, heldur knár og þrautgóður, hafði alltaf leitazt við lagfærsluviðburði þar til hann sleppti árum og sagðist ekki geta lengur, hneig niður og var andaður. Þegar leið fram á þriðja dag nefnds mánaðar fór veðrinu að vægja nokkuð, loftið orðið heiðskírt og áttin orðin austanhallari og því ráku skipin þá suðvestur í sjó. Þá sá áminnztur Eiríkur eitt af skipunum langt út í sjó og virtist það horfa að landi þó þá væri öll landsýn horfin. Vildi þá áminnztur Eiríkur geta náð til þess skips, en liðsmenn hans voru allir afburðalausir orðnir nema einn maður; gat þó tekizt að skipin náðu saman. Voru þá allir lífs á því skipi nema einn. Varð þá Eiríkur að fara á það skip af sínu með þá menn sem hjarandi voru á hans og hjálpaði þá hvörir öðrum svo að tveir og tveir voru um hvorja ár, en skipið urðu þeir að skilja eftir með öllum [búnaði] sem á því var, því hvorki voru kraftar til að afferma það á hitt skipið og veðrið of hvasst til að festa skipin saman. Með þessu móti náðu þessar tvær skipshafnir landi undir sólarlag 3. dag maímánaðar upp á Breiðabólstaðar- og Reynivallarfjörur í Kálfafellsstaðarsókn. Þar lentu þá líka tvö önnur skipin, þar af annað það sem hafði dvalið við dugguna um nóttina, og höfðu hásetar þess heitið á Einholtskirkju ef þeir næðu landi, og gáfu henni allgóðan hökul eftir á.
Þetta sama kvöld ætlaði Rafnkell heitinn Eiríksson að ná landi á Fellsfjörum því hann hafði lengst hrakið vestur. En þá hann kom nær landi herti á storminum aftur svo hann hrakti frá út og vestur enn lengra. Hann var því þá nóttina úti og þá missti hann einn manninn út af klepruðu skipinu, en náði þó í fót hans og innbyrti aftur lifandi. En eftir sólaruppkomu næsta dag eftir dó á því skipi drengur átján ára gamall. Um hádegisbil þann 4. dag nefnds mánaðar náði Rafnkell heitinn landi við Ingólfshöfða. Voru þá allir hásetar hans svo máttfarnir að ekki komust af sjálfs kröftum til bæja nema hann og signor Gísli á Uppsölum Þórsteinsson, en þó dóu engir þeirra nema áminnztur drengur.
Hinir er lentu kvöldið áður gátu flestir dregið sig til bæja þó sumir fengju hesta; einkum var máttfarinn einn sem dó á heimleiðinni. Af hinum sem báru sig vonum betur og fengu heita mjólk, graut og kjöt og allan góðvildar-aðbúnað dó einn af þeim um nóttina, en í allt dóu af þessum sjóhrakningi þrettán eða fjórtán menn. Það skip er fyrst er um talað að framan að næst var komið landi þegar menn til sáu og hitt sem eftir var skilið á sjónum ráku upp á Meðallandsfjörur og höfðu eigendur engin not þeirra.
Af gamalli hjátrúarfræði létu einstaka fáfróðustu menn af sér heyra að þetta hefði verið óhreint (sem þeir nefndu) eða galdraveður og þóktust hafa séð mórauðan hund koma á baðstofu- eða fjósglugga Gísla heitins Jónssonar er var á því skipinu er fyrst um talast og þann hund síðan fara sjómannaleið til sjávar, því nefndur Gísli átti að hafa átt eitthvað ósamkvæmt við norðlenzkan póst á Djúpavogi sumrinu fyrir.