Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Skólapiltur og biskupsdóttir
Skólapiltur og biskupsdóttir
Einu sinni fóru skólapiltar margir austan úr Þingeyjarþingi og víða annars staðar að af Norðurlandi. Þeir gistu að Hólum í Hjaltadal. Þar var þá biskup eins og lengi hefir verið. Hann átti dóttur eina og var mjög vandlætingasamur um hana. Þetta vissu skólapiltar. Einn þeirra var fátækra manna og komst í Skálholtsskóla fyrir fylgi frænda sinna og annara góðra manna. Gáfaður var hann og lundhægur. Hinir skólapiltarnir hentu gaman að honum með ýmsu spotti.
Þeim skólapiltunum var vísað til gistingar í stofu eina. Gömnuðu þeir sér nú við drenginn að vanda og buðu honum sína fimmtíu dalina hver ef hann kæmist í rekkju með biskupsdóttur. Hann tekur því vel, en biður þá að gefa sér handskrift upp á þetta. Þeir gjörðu það. Læðist hann nú frá félögum sínum og dylst í bænum. Vel vissi hann hvernig rekkjum var skipað. Þegar honum fannst hentugur tími fer hann á fund við biskupsdóttur, vekur hana, falar rekkju hennar og segir henni hvert akkorð var með þeim félögum og sýnir henni bréfið. Hún tekur þessu fúslega og sofa þau saman um nóttina.
Snemma um morguninn ætlar hann ofan til félaga sinna, en hún bað hann ekki gjöra það; alls hann hefði farið á sinn fund skyldi hann ekki fara svo brátt aftur því félagar hans mundu ekki trúa sögu hans og ekkert af hendi inna ef þeir lékist einir við. Fer hún svo á fætur og finnur föður sinn, segir honum og sýnir hvernig komið er. Biður hann drenginn lítt haska sín.
Félagar hans fara nú úr rekkjum sínum og sækja hesta sína og kemur félagi þeirra ekki. Spottast þeir nú að því sín á milli hvað vært honum muni hafa orðið hjá stúlku sinni. Svo leggja þeir á hesta sína og eru tilbúnir. Tala þeir þá um það að vita hvað félaga sínum líði, spurja hans í bænum. Biskup heyrir mál þeirra og segir hann sé nú þegar búinn, en fyrst verði þeir af hendi að inna það þeir hafi honum lofað því sofið hafi hann hjá dóttur sinni og megi þeir líta á ef þeir vilji. Þeir synja þess harðlega að nokkru lofað hafi. Hann gengur þess harðlegar að þeim, en þeir neita þverlega þar til biskup segir þeir fari þá ekki lengra heldur, sýnir þeim miðann og segir sá skuli úr skera af sýslumanns hendi. Við það mýktust þeir og meðkenndust og greiddu drengnum. Þeir fóru sína leið, en hann var eftir hjá biskupi. Menntaði hann drenginn, kom honum til útlanda. Kom hann svo aftur hingað til landsins, varð merkilegur maður og giftist stúlku sinni.