Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sturla ráðsmaður og Sveinn lögmaður
Sturla ráðsmaður og Sveinn lögmaður
Þegar Sveinn Sölvason lögmaður bjó á Munkaþverá hélt hann verkstjóra þann er Sturla hét. Hann var ötull til vinnu og því kær húsbónda sínum, en þókti nokkuð blandinn. Einu sinni um engjaslátt bar svo að að von var lögmanns heim frá Akureyri. Fór þá Sturla snemma á fætur og niður á engjateig að slá og slær hann sér skammt frá alfaravegi. Þegar hann er nýfarinn að slá sér hann mannareið neðan héraðið sem ber brátt fram og þykir honum að vera muni lögmaðurinn. Kemur Sturla það í hug að ginna lögmann að nokkru. Náttfall var mikið á jörð, en sól nýhafin. Hann hættir að slá, en veifar orfinu sem mest mátti hann og fellir döggina af grasinu. Hefur hann þannig farið yfir mikið svæði þá lögmaður kemur. Gengur Sturla þá á veg fyrir húsbónda sinn og heilsar honum kurteisliga. Lögmaður tekur kveðju hans, en lítur yfir slægjuna og undrast hvað mikil hún er – hann átti undir sól að sjá – segir við Sturla: „Hefurðu einn slegið þetta í morgun, Sturla minn?“ „Já, herra,“ mælti Sturla. „Mikill maður ertu, Sturla minn,“ sagði lögmaður. Sturla kvað lítið mark að því. „Mikið víst,“ kvað hinn. Að svo mæltu gefur lögmaður Sturla góðan skerf af því hann hafði meðferðis úr kaupstaðnum og fór svo leiðar sinnar.
Á haustum var það venja að lögmaður lét griðkonur drepa leignasmjörum; var þá venja þeirra að stela smjöri. Lögmaður grunaði þetta og eitt haust þá smjördrepan skyldi verða ætlaði hann sjálfum sér til að hlíta að bægja stuldinum. Var hann nú á vaðbergi í smjörskemmunni. Þar var og Sturla líka. Einu sinni þá er lögmaður brá sér lítið afsíðis báðu griðkur Sturlu og buðu kaup til að hann fyndi ráð það er tefði lögmann frá að gæta þeirra svo vandliga að þær ekki gætu gjört vana sinn; Sturla hét því. Litlu síðar kemur lögmaður og þá hann hefur litla stund staðið fer Sturla þegjandi að litast um í skemmunni og þá minnst varði grípur hann í fang sér eitthvað þungt og hleypur á burt með. Lögmaður sér þetta og ætlar hann muni gripið hafa eitthvert smjörið, fer út eftir honum og kallar: „Sturla minn, hvað ertu með?“ Sturla anzar engu, en fer sem fætur toga suður tún með byrði sína. Lögmaður leitar eftir og vill víst vita hvað það er sem Sturla hafi með að fara. Sturla linnir ei fyrr en hann kemur að ánni fram og varpar byrðinni í hana og er lögmaður þá kominn á hæla honum og sér að þetta er steinn einn mikill sem Sturla kastaði. Er nú lögmaður yfirkominn af mæði, spyr þó: „Því gjörirðu þetta, Sturla minn?“ Sturla leit þá við honum og mælti: „Á, eruð þér að elta mig? Mig dreymdi fyrir skemmstu, herra, að þér dyttuð um þennan sama stein og brotnaði fótur yðar. Þá ég sá yður í skemmunni áðan kom mér í hug draumurinn og varð mér bilt er ég hugleiddi að nú kynni svo fara sem draumurinn sagði, og vildi ég ekki bíða þess og því tók ég steininn úr skemmunni, en meinti hvergi óhætt að leggja hann fyrri en hér.“ „Mikill maður ertu, Sturla minn, og virði ég mikils góðræði þitt þetta.“ Tóku þeir nú tal með sér um ýmisligt heim völlinn og gáði lögmaður ekki að hraða ferð sinni í skemmuna, en sem þeir komu þangað var allt kyrrt og hjávikum lokið. Gefur lögmaður Sturla þá eitt leignasmjörið fyrir ómak hans og gætti úr því starfa síns sem honum líkaði.
Eitt haust var það að Sturla kemur til húsbónda síns; er hann þá hljóður mjög og áhyggjufullur. „Hvað er þér, Sturla minn, ertu veikur?“ spurði lögmaður. „Annað er efni í,“ kvað Sturla, „en mér sé krankt.“ „Hvort efni?“ spurði lögmaður. Sturla mælti: „Svo er háttað að drepa verður allt fé yðar, herra, í haust.“ Hinn undrar að svo skal verða. Sturla biður hann ganga til og skoða sjálfan því allt var féð heim rekið. Segir Sturla að engan sauð eigi hann í réttinni sem sé á vetur setjandi sökum tannleysis, sýnir lögmanni og reynist svo að allt er féð tannlaust í efra gómi. Lögmaður kveður Sturla hafa satt að mæla og fer inn til konu sinnar og segir henni hvar komið sé og að Sturla sinn hefði hér sem oftar komið vitinu fyrir sig. Hún var hér hyggnari og mælti: „Þú lætur narra þig, heillin mín, féð er svo skapað.“ Við ummæli hennar réðist svo að minna varð af fjárskurðinum það haust en Sturla ráðgjörði.
Mælt er að Sturla þessi hafi svo róið allt Grímseyjarsund að aldrei hafi hann fram um stafn litið. Sundið er fullar sex vikur sjávar og þykir mörgum það leiðinligt. Sagt er líka að einkis drykkjar hafi hann neytt, en í þess stað étið heilan smjörfjórðung af súru smjöri á leiðinni.