Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Svartidauði (2)

Þegar svartidauði var búinn að geisa um Norðurland og kominn vestur að Hrútafjarðará var hann í gráu nautslíki og ætlaði vestur yfir og vóð út í ána, en þegar hann ætlaði á land að vestan kom þar móti honum rautt naut svo hann sneri aftur. Leitaði hann þá annarstaðar aftur yfir ána, en það fór á sömu leið; rauða nautið var þar komið, en það gráa sneri aftur. Fór þá gráa nautið að ganga fram og aftur um austurbakkann, og eftir því sem það færði sig gekk rauða nautið alltaf á móts við það um vesturbakkann. Gengu þau þarna um bakkana allt sumarið þar til um haustið þau hvurfu. En svartidauði komst aldrei vestur yfir Hrútafjarðará.