Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sveinn lögmaður í dularbúningi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sveinn lögmaður í dularbúningi

Á dögum Sveins lögmanns Sölvasonar á Munkaþverá var hallæri mikið og mannfækkun svo margir bæir eyddust, en fólkið flæktist víða, einkum vestur, og settu menn sig þar niður. Voru þetta afleiðingar af fjársýkinni og jarðeldunum og öskufallinu.

Um þessar mundir bjuggu hjón ein á næsta bæ við Munkaþverá. Þau höfðu nóg af öllu og þurftu ekki að líða skort á neinu, en mjög voru þau harðbrjósta, og því meir sem harðindin uxu því meir óx einnig miskunnarleysi þeirra og var þar engum fátækum hjálpar að leita. Þegar einhver fátækur kom og beiddi að lofa sér að vera vísuðu þau honum að Munkaþverá; sögðu þau að lögmannsfjandinn væri nógu ríkur; en þegar ríkismenn og höfðingjar komu til þessara hjóna skorti ekkert. Buðu þau aldrei neinum sem þau héldu að ekki gæti boðið þeim aftur.

Einu sinni á áliðnum degi bar svo við að karl einn illa til fara kom á bæ þenna; hafði hann ofanfletta mórauða hettu eins og þá var siður til og vondan hattgarm þar ofan yfir; hann var í götóttri og stagbættri úlpu og mátti heita svo að í hann skini beran. Karl þessi guðaði í dyrunum; kom þá stúlka fram sem karlinum leizt vel á; spurði karlinn hana hvort hann mundi ekki fá að vera þar um nóttina; sagði stúllkan að það væri óvíst því honum mundi líklega verða vísað til Munkaþverár eins og öðrum; en karlinn sagðist ekki mundi komast þangað því hann væri bæði kaldur og svangur og mundi hann örmagnast á leiðinni; sagði hann að ekki væri það heldur víst að Sveinn lofaði sér að vera; mundi hann verða leiður á fátæka fólkinu eins og aðrir; fór karlinn þá að skjálfa ákaflega og bað stúlkuna umfram allt að fara til hjónanna og leggja til með sér að hann fengi að vera. Fór þá stúlkan inn, en kom fram litlu seinna og sagði að hann kynni að fá að standa inni; fór hann þá með stúlkunni inn á baðstofugólfið; pallskák var öðrumegin í baðstofunni eins og þá var siður. Þar var rúmflet vinnukonunnar og bauð hún honum að setjast þar. Enginn talaði orð við hann; leið svo rökkrið. En loksins þegar búið var að kveikja kom konan ofan á gólfið; spurði hún þá karlinn að hvort það væri ekki skemmtilegra fyrir hann að halda á einhverju; þeir vildu fá að éta og drekka, en nenntu þó ekkert að gera; spurði hún hann hvort hann gæti ekki hnuðlað neðan við sokk; karlinn sagðist skyldi reyna það. Fékk hún honum þá þurra neðanprjóninga; spurði karlinn hvort ekki væri betra að væta þá, en hún sagðist halda að hann væri ekki of góður til þess sjálfur og vísaði honum á þvæliker og gekk svo í burtu. Tók þá vinnukonan sokkana og vatt þá upp fyrir karlinn; fór hann þá að þæfa. Að löngum tíma liðnum kom konan að skoða þófið og hafði það engum framförum tekið; varð hún þá mjög reið og gaf honum mörg hrakyrði. Loksins þegar háttatími var kominn var honum vísað að liggja á reiðingstorfu á pallskákinni móti stúlkunni og lítið eitt af flautum var honum gefið til næringar. En þegar háttað var kom stúlkan til hans að hlynna að honum; léði hún honum þá koddann sinn og hempu sína ofan á sig, og það sem henni var skammtað gaf hún honum. Undireins og dagur kom fór karlinn á stað og vissu menn ekkert hvað af honum varð.

En snemma þenna dag kom lögmaðurinn ríðandi; gekk þá bóndi út að fagna honum; bauð hann honum í skemmu sína og veitti honum ágæta vel. Fóru þeir nú að tala um harðindin og hvað bágt væri að haldast við vegna fátæklinganna; sagði þá bóndinn að einn djöfullinn hefði verið hjá sér í nótt, en hann hefði farið snemma á stað um morguninn.

Síðan gerir lögmaður boð eftir vinnukonu og þakkar henni fyrir alla aðhjúkrun fyrirfarandi nótt; sagði hann að hún væri of góð að vera hjá þvílíkum húsbændum og skyldi hún koma með sér því sig langaði að launa henni góðsemi hennar. Síðan gerir hann húsbændum hennar harða áminningu og svo brá þeim við það að þau gerðu jafnan gott fátækum eftir það. Stúlkan fór heim með honum og gifti hann hana vel.