Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Takmörk biskupsdæmanna á Íslandi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Takmörk biskupsdæmanna á Íslandi

Um það eru sannar sögur að fyrst var hér á landi eitt biskupsdæmi og ekkert ákveðið hvar biskupsstóllinn skyldi vera, en skömmu síðar varð Skálholt biskupssetur; hinn biskupsstóllinn sem var á Hólum var ekki stofnaður fyrr en 1106 fyrir bænastað Norðlendinga með því þeim þótti örðugt að ná til biskups yfir svo langa leið suður á Skálholt. En munnmælin hafa notað sér það að annað biskupsdæmið náði yfir þrjá fjórðunga landsins, en hitt ekki nema yfir einn, til að búa til úr þessum ójöfnuði eftirfylgjandi sögu:

Biskuparnir í Skálholti og á Hólum gátu ekki orðið alls kostar á eitt sáttir um takmörkin á biskupsdæmum sínum, en settu þó Biskupsvörðu sem er milli Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu fyrir takmark á þá hliðina að norðan og austan lengst og komu sér svo saman um að þeir skyldu ríða þaðan báðir, Hólabiskup fyrir norðan land, en Skálholtsbiskup fyrir sunnan, hringinn í kring, og þar sem þeir mættust skyldi takmarkið vera á hina hliðina milli biskupsdæmanna. Eftir það reið Skálholtsbiskup dag og nótt sem mest hann mátti og hestarnir gátu farið og kom loksins dauðmóður (lafmóður) þangað sem mótin eru. En aftur er það frá Hólabiskupi að segja að hann fór hægt yfir landið og tók ekki væst upp á sig, enda var hann ólúraður og sællegur þegar hann mætti embættisbróður sínum. Þeir hittust við suðurendann á Hrútafirði og því hafa takmörk biskupsdæmanna verið haldin eftir þeim firði miðjum jafnan síðan.

Þess ber að geta að frá því landið var frjálst hafa takmörk Norðlendinga- og Vestfirðingafjórðungs og allt eins biskupsdæmanna gengið eftir endilöngum Hrútafirði.