Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Teitur og Sigga

Þegar svartidauði kom í Ólafsfjörð voru þar smalar tveir sem hétu Teitur og Sigga. Það var einn morgun snemma að þau voru að smala uppi í fjöllum. Sýndist þeim þá ókennilega þoku leggja inn allan Ólafsfjörð og réðu það af að halda ekki ofan til byggða fyrri en þokunni létti af. Þoka þessi hélzt mjög lengi og héldust þau alla þá stund við á fjöllum uppi. En er þokunni létti af héldu þau til byggða; var þá allt fólk í firðinum dáið. Þegar Ólafsfjörður fór svo að byggjast á ný varð stundum ágreiningur um jarðir og landamerki. Var þá jafnan leitað vitnisburðar hjá Teiti og Siggu. Hér af er sprottinn málshátturinn: „Þá kemur nú til Teits og Siggu.“