Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Torfajökull

Torfi hét maður, fósturson bónda á Keldum. Hann hljóp burt með dóttur bónda og varð honum fyrir að halda til fjalla. Ráðsmaður frá Keldum elti þau, en þau riðu undan þar til hestarnir sprungu, Blesi á Blesamýri, en Faxi í Faxa (fjalli). Þá komu þau að Torfahlaupi. Þá tók Torfi stúlkuna á handlegg sér og stökk yfir hlaupið með hana. Ráðsmaðurinn var þá kominn að hlaupinu og kallaði til Torfa: „Vel er hlaupið, hafi ekki hræddur hlaupið.“ Torfi svaraði: „Hlauptú, þú ert óhræddur.“ Hann hljóp, en komst ekki betur en svo að hann náði í hríslu sem lafði fram af brúninni. Þá sagði bóndadóttir við Torfa: „Höggðu á, maður.“ Torfi hjó á hrísluna og ráðsmaðurinn fórst. Torfi fór þá í Torfajökul og segir ekki meir af honum. Við hann er kennd Torfafit, Torfatindur og Torfa(mýri?) m. m.