Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Um Jón drumb

Maður hét Jón; hann bjó á Hámundarstöðum í Vopnafirði. Eitt vor rak hafís þar að landi sem oftlega skeður. Er þá vani manna þá ísinn er þéttur að menn ganga á hann í selaleit. Jón gjörði þetta, gekk út á ísinn með exi í hendi; en þegar kominn var nokkuð frá landi gjörði landvind hvassan svo ísinn rak undan með Jón sem bar að Langanesseyjunni enni minni sem á að liggja lítið eitt nær landi. Þarna komst hann á land og staðfestist, byggði sér þar skála og var þar í þrjú ár. Hann sagði þar trjáviðar- [og] hvala[reka], líka grashaga góða fyrir kvikfénað og ýmiskonar æti af því er að landi ber, og líklega eggjum og fugli. Hann sagði sund nokkuð milli eyjanna; hin eyjan væri stærri og klettótt; oft hefði hann séð elda brenna yfir á eyjunni, en aldrei orðið var við neitt á hinni eyjunni sem hann vissi ekki að gjöra grein fyrir nema það hefði nokkrum sinnum að borið á veturna að skálakofi sinn hefði verið eins og hristur til sem hann hefði ekki vitað af hvörju orsakaðist. Allan þann tíma sem hann var á eyju þessari bar aldrei skip þar nærri, svo af óyndi og óþreyju tók hann fyrir á seinasta árinu að hola innan digran trédrumb. Og um veturinn í hafveðri sem honum virtist standa rétt upp á landið fór hann í drumbinn og velktist upp að landi – ég hefi heyrt að Langanesströndum – en komst lífs á land, sagði sögu þessa og var kallaður síðan Jón drumbur.