Ölkvæði II
Ölkvæði II
Höfundur: Stefán Ólafsson
Höfundur: Stefán Ólafsson
- Vínið held eg bezt brent
- bæta ólysti,
- ef vel er ákent
- það ískrar í brysti,
- mjaðar staup sé með spent,
- svo menn verði ótvistir,
- öllum er öl hent,
- ef þá dátt þyrstir.
- Kæran gaf mér krús á,
- kættist hrings álfur,
- þar skal enginn af fá,
- utan eg sjálfur;
- til gleði brún brá,
- bikarinn hálfur,
- einhverj veitir ásjá,
- ef eg verð sem kálfur.
- Kviknar bjórs kraptur,
- kennir það happa,
- hér mun skerfur skaptur,
- skal hann út klappa,
- saup randa raptur
- renda skúms hnappa,
- enn bið eg aptur
- þú á viljir tappa.
- Fjalar og Frosti
- fann Kvásis dreyra,
- þá kýs eg kosti
- við krúslá að heyra,
- Hárs rennur rosti,
- og ruglum enn fleira,
- ei þverrar þorsti,
- og því vil eg meira.
- Út er runnið öltár
- í mjöðinn sæta,
- fult af því staup stár,
- er styggvan má kæta,
- þó eg ætti firn fjár
- fyrir að bæta,
- guðs frið og gott ár,
- og grön skal enn væta.
- Tintin gengur tollfrí,
- tek eg dropann frjáls inn,
- hana skenkti enn í
- auðs þiljan málsvinn,
- heilsa boðast hér ný
- og hýran yfir sjálfs kinn,
- enginn fær á því
- þó eg skoli háls minn.
- Enn kýs eg ósein
- ölkerin skoppi,
- svo verða láti virt hrein
- volgt undir toppi,
- mitt gengur málbein
- mjúkt og óloppið,
- á því fæ eg gert grein
- að gott er í koppi.
- Opt fer eg í ölbón
- og enn meir vil hafa,
- nú rénar sá són
- og sýknin ákafa,
- heila setur fult frón
- og forstand í vafa,
- tekur að verða tæp sjón,
- og tungan að drafa.
- Upp kemur ófrýnt
- útgönguklukkið,
- ekki verður alt sýnt
- ölmála sukkið,
- flestalt er til tínt
- tvíbytnu jukkið,
- af nauðsvefni nef brýnt,
- og nú er vel drukkið.