Þúsund og ein nótt/Önnur ferð Sindbaðs farmanns

„Eftir hina fyrstu ferð mína hafði ég, eins og ég gat um í gær, einsett mér, að lifa rósömu lífi í Bagdad, það sem eftir var ævinnar. En ég varð fljótt leiður á aðgerðaleysinu og kom í mig ferðahugur og langaði mig til að sækja verzlun yfir sjó. Keypti ég því vörur þær, er ég þóttist með þurfa, og fór nú af stað í annað sinn með öðrum kaupmönnum, er voru mér kunnir að ráðvendni. Völdum vér oss gott skip, fólum oss guði á hendur og lögðum af stað.

Sigldum vér frá ey til eyjar og varð skipaverzlunin oss næsta arðsöm. Einn dag lentum vér við ey nokkra alvaxna margskonar aldintrjám; var hún svo eyðileg að vér sáum ekkert hús og engan mann. Gengum vér þar um engin og fram með lækjunum, er vökvuðu þau. En meðan sumir lásu blóm sér til skemmtunar og sumir ávexti, tók ég fram nesti mitt og vín og settist niður hjá læk undir hávöxnum trjám, er breiddu út frá sér unaðslega forsælu. Tók ég mér þar svo góðan dagverð, sem ég hafði föng til, en er ég hafði matazt sótti á mig svefn.

Ég veit ekki hversu lengi ég svaf, en þegar ég vaknaði, sá ég ekki skipið, þar sem það hafði legið við akkeri.“


92. nótt breyta

„Ég varð forviða,“ mælti Sindbað, „þegar ég sá ekki skipið liggjandi við akkeri. Reis ég þá upp og litaðist um í allar áttir, en sá engan af kaupmönnunum, sem höfðu lent með mér á eynni. Ég sá ekki annað en skipið á útsiglingu og var það komið svo langt burt, að ég óðar missti sjónar á því.

Þið megið nærri geta, hvað ég hugsaði í þessum hryggilegu vandræðum; ég hélt ég mundi springa af harmi og hljóðaði hræðilega upp yfir mig, lamdi höfuð mitt og fleygði mér til jarðar; lá ég svo langa stund í ringluðu hugarvíli, og voru hugsanir mínar hver annarri hræðilegri. Ég margásakaði mig fyrir, að ég ekki hafði látið sitja við hina fyrstu ferð, og hefði hún þó mátt vera mér svo minnisstæð, að mig fýsti ekki til fleiri. En harmatölur þessar stoðuðu alls ekki og iðrun mín kom í ótíma.

Ég lagði ráð mitt í guðs hönd og klifraði í ráðaleysi upp í hátt tré og sást um í allar áttir til þess að vita, hvort ég kæmi ekki auga á neitt, sem hjálpvænlegt væri. Út af eynni sá ég ekki annað en himin og haf, en á land upp grillti ég í eitthvað hvítt; sté ég því ofan úr trénu, tók með mér það sem eftir var af nestinu og stefndi á hinn hvíta blett; var það svo langt í burtu, að ekki sá deili á, hvað það væri.

En er ég kom nær, sá ég að þetta var hvítur hnöttur, geysi hár og feikna mikill um sig. Þreifaði ég um hann og fannst hann vera mjúkur viðkomu. Ég gekk allt umhverfis til að vita, hvort hvergi væri gat á, en það sá ég hvergi; svo var hann ávalur, að engin tiltök voru að klifrast upp á hann. Fimmtíu fet var hann ummáls.

Í þetta mund var sól nærri undirgöngu. Sló þá snögglega myrkva á himin eins og svipaði yfir þykku skýi. Svo hverft sem mér varð við dimmu þessa, brá mér þó enn heldur í brún er ég sá, að hún stóð af kynjastórum og heljarefldum fugli, er steyptist niður fljúgandi.

Mig rankaði þá við, að ég hafði heyrt sjómenn segja frá fugli nokkrum, er Rok heitir, og datt mér í hug, að hinn mikli hnöttur, sem fékk mér svo mikillar undrunar, mundi vera egg fuglsins. Enda settist hann á hann eins og fugl, sem liggur á eggjum.

Þegar ég sá hann koma, hafði ég skriðið þétt upp að egginu og lá ég nú bak við annan fót hans, sem var viðlíka þykkur og digur tréstofn. Leysti ég þá sundur höfuðbúnað minn og reyrði mig með honum fast við klóna; gerði ég það til þess, að fuglinn Rok skyldi flytja mig af þessari eyðiey, þegar hann flygi burt að komandi morgni.

Svona lá ég um nóttina, en með aftureldingu flaug fuglinn af stað; tók hann svo hátt flug með mig, að ég missti sjónar á jörðinni, og steyptist hann því næst skyndilega niður með slíkri fleygiferð, að ég ekkert vissi af mér. En er gammurinn var setztur og ég hafði fótað mig, leysti ég hnútinn, er hélt mér við klóna.

Rétt í því ég var búinn að því, þreif hann upp í nef sér gríðarstóran höggorm og flaug samstundis burt með hann. Sat ég nú eftir og var þetta í djúpum dal; lukti hann allt umhverfis fjöll, sem tóku við skýin og voru svo þverbrött, að hvergi var vegur til að klifrast upp. Kom þá yfir mig mikill ótti á ný, og er ég í huganum bar saman þenna stað við eyðieyna, sem ég hafði yfirgefið, þá þótti mér ekki breytt til hins betra.

En er ég ráfaði um dalinn, sá ég að hann var alþakinn demöntum og voru sumir þeirra furðu stórir; en skammt var þess að bíða, að ég sá álengdar þá sjón, er dró mjög úr fögnuði mínum, því þar var mesti sægur höggorma; voru þeir fjarska digrir og langir og enginn minni en svo, að hann gæti gleypt í sig heilan fíl. Á daginn földu þeir sig fyrir óvini sínum, fuglinum Rok, í holum sínum, en um nætur skriðu þeir út.

Var ég nú allan daginn að reika um dalinn og hvíldi ég mig öðru hverju þar sem mér leizt tiltækilegast. En er náttaði fór ég inn í helli einn, þar sem ég hélt mér væri óhætt. Var hellismynnið mjótt og þröngt og hleypti ég hellu fyrir, sem var fullstór til að varna höggormunum inngöngu, en fyllti þó ekki alveg opið, svo að nokkur birta stóð inn í hellinn.

Neytti ég þar nokkurs af nesti mínu og heyrði ég á meðan blástur höggormanna, því nú fóru þeir á kreik. Varð ég næsta angistarfullur af hinum hræðilegu hvæsingum þeirra, og megið þér nærri geta, að ég átti ekki góða nótt. En er bjart var orðið, skreiddust höggormarnir í fylgsni sín; fór ég þá skjálfandi út úr hellinum og gekk lengi vel á demöntum; og kom mér ekki til hugar, að ágirnast nokkurn þeirra.

Loksins settist ég niður, tók mér árbít af nesti mínu og sofnaði, svo órótt sem mér var, því alla nóttina hafði mér ekki komið dúr á auga. En óðar en ég var sofnaður, vaknaði ég við, að eitthvað skall niður á jörðina nálægt mér. Þetta var þá stóreflis kjötstykki og sá ég samstundis mörg stykki velta niður víðsvegar af klettabrúnunum.

Allt til þessa hafði ég haldið, að það væri skröksaga upplogin til gamans, sem bæði sjómenn og aðrir segja um demantadalinn og brellu þá, sem sumir kaupmenn hafa til að ná þaðan gimsteinunum; nú var sjón mín sögu ríkari.

Kaupmenn þessir sækja þangað um það leyti, sem ernir eru búnir að unga út, og kasta þeir stórum kjötstykkjum niður í dalinn. Þegar þau detta niður á hina hvössu demanta, verða þeir fastir í kjötinu. En ernirnir, sem eru þar sterkari en annarsstaðar, fleygja sér yfir kjötstykkin og fljúga með þau upp á björgin í hreiður sín, ungum sínum til viðurværis.

Sækja þá kaupmenn að, fæla burt ernina með óhljóðum og safna saman demöntum þeim, sem fastir hafa orðið í kjötinu. En þessa bragðs neyta þeir, því annars væru engin ráð til að ná demöntunum upp úr dal þessum, því hann er slíkt dauðans undirdjúp, að engum manni er fært að komast þar niður.

Ég hafði haldið ómögulegt að komast upp úr hyldýpi þessu, og hafði mér þótt sem það væri gröf mín; en nú snerist mér hugur, og það sem ég hafði séð, varð til þess að mér datt ráð í hug til að bjarga lífi mínu....


93. nótt breyta

Ég fór þá að tína saman demanta þá, er ég sá stærsta, og lét ég þá niður í leðurmalinn, er ég hafði nesti mitt í. Því næst valdi ég það kjötstykki úr, sem virtist vera lengst, vafði því um mig og batt það fast með höfuðbúnaði mínum; síðan lagðist ég á grúfu. Leðurmalinn festi ég við belti mitt, svo ég gat ekki misst hann.

Jafnskjótt sem ég var búinn að þessu, komu ernirnir; tók þar hver sitt kjötstykki og flaug með, en einhver hinn stærsti hremmdi það stykki, sem ég hafði brugðið um mig; flaug hann með mig upp á fjallstind í hreiður sitt.

Spöruðu þá kaupmenn ekki að fæla fuglana með ópi og háreysti, og er þeir höfðu látið lausa bráð sína, kom einn af kaupmönnum þangað sem ég lá; varð hann smeikur, er hann sá mig. Samt herti hann upp hugann; spurði hann mig ekki, með hverjum fádæmum ég væri þangað kominn, heldur tók hann að ámæla mér og spurði, því ég tæki það, sem hann ætti.

„Þér munuð haga orðum yðar öðruvísi,“ mælti ég, „þegar þér kynnist mér betur. Kvíðið engu, ég hef fleiri demanta handa báðum okkur en allir hinir kaupmennirnir til samans. Tilviljunin ein hefur ráðið feng þeirra, en ég hef sjálfur valið úr demantana, sem ég hef í malnum.“

Sýndi ég honum malinn og í sama bili þyrptust hinir kaupmennirnir kringum mig, og urðu þeir forviða, en þegar ég hafði sagt þeim sögu mína, undruðust þeir hálfu meira. Samt furðuðu þeir sig ekki svo mjög á úrræði því, er ég hafði haft mér til frelsis, eins og á áræði mínu, að ég skyldi hafa hætt á það.

Tóku þeir mig nú með sér þangað er þeir höfðu byggistöð sína; leysti ég frá malnum í viðurvist þeirra. Voru demantar mínir svo stórir, að þá rak í rogastanz, og kváðust þeir engan demant séð hafa við nokkra konungshirð, sem þeir hefðu til komið, svo stóran, að í nokkurn samjöfnuð kæmist við mína.

Beiddi ég nú kaupmanninn, sem átti hreiður það, er örninn hafði borið mig í (því hver kaupmaður átti sitt hreiður), að taka svo mikið af þeim, sem honum líkaði. Lét hann sér nægja einn, og var sá einn af hinum smærri; lagði ég þá fast að honum, að taka fleiri og ekki hika sér við, en hann svaraði:

„Nei, ég er ánægður með þenna og er hann svo dýrmætur, að ég mun ekki fara fleiri ferðir framvegis, og þarf ég nú ekki að bera áhyggju fyrir ókomna tímanum.“

Um nóttina var ég hjá kaupmönnum þessum og sagði sögu mína enn þá einu sinni, þeim til fróðleiks, sem ekki höfðu heyrt hana í fyrra skipti.

Ég var óumræðilega glaður, að vera sloppinn úr hættum þeim, er ég sagði yður frá; mér þótti sem allt hefði verið draumur og gat ég varla trúað að ég væri úr öllum háska. Voru nú nokkrir dagar liðnir síðan kaupmenn höfðu fleygt kjötstykkjunum niðrí dalinn, og var hver í sínu lagi ánægður með það, sem honum hafði áskotnazt; tókum vér oss því upp með næsta morgni.

Lá leið vor yfir fjöll og voru þar geysistórir höggormar, en vér vorum samt svo heppnir að komast klaklaust undan þeim. Jafnskjótt sem vér komum til hafnar, sigldum vér til eyjarinnar Ríha, þar sem kamfórutréð vex; er það tré svo stórt og laufmikið, að það veitir hundrað mönnum næga forsælu.

Safi sá, sem er efni kamfórunnar, er látinn drjúpa niður úr rifu í ofanverðum stofni trésins; rennur hann í ker eitt, hleypur þar saman og verður að kamfóru. Þegar vökvinn þannig er runninn úr trénu, hrörnar það og fölnar.

Á hinni sömu ey eru og nashyrningar, sem eru minni en fílar og stærri en uxar; stendur horn upp af nösum þeirra og er hér um bil alin á lengd; er það klofið eftir miðju enda á milli og markar fyrir mannsmynd á, dreginni hvítum strykum.

Nashyrningurinn og fíllinn eiga jafnan í stríði saman, leggur nashyrningurinn horninu í kvið fílsins og vegur hann upp á höfði sér. En þá vellur blóð og feiti fílsins í augu honum, svo honum förlast sýn; fellur hann síðan á jörð, og það mun yður þykja undrum gegna, að þá kemur fuglinn Rok, flýgur burt með báða í klóm sér og færir ungum sínum til ætis.

Margt er annað fábreytilegt á ey þessari, en það læt ég ósagt svo að yður eigi leiðist saga mín. Keypti ég þar góðar vörur fyrir demanta mína og héldum vér þaðan til annarra eyja og verzlunarborga á meginlandinu; því næst komum vér til Balsora og fórum þaðan til Bagdad. Gaf ég þá fyrst fátæklingum stórar ölmusur og naut síðan auðæfa þeirra, er ég flutti þangað og hafði svo mikið fyrir haft.“

Lauk þá Sindbað að segja af annarri ferð sinni. Hann lét telja Hindbað hundrað gullpeninga enn og bauð honum að koma aftur næsta dag og heyra sig segja frá þriðju ferð sinni.

Fóru gestirnir, hver heim til sín, og komu aftur næsta dag á samri stund. Svo gerði og daglaunamaðurinn og hafði hann því nær gleymt sínu fyrra volæði. Var nú gengið til borðs og að liðinni máltíð beiddi Sindbað sér hljóðs og sagði frá hinni þriðju ferð sinni.