Þúsund og ein nótt/Fjórða ferð Sindbaðs farmanns

„Unaðsemdir þær og skemmtanir, sem ég naut eftir þriðju ferð mína, höfðu eigi svo mikil áhrif á mig, að þær öftruðu mér frá nýjum ferðum. Lét ég því aftur leiðast af hinni áköfu ferðafýsn, sem alltaf stríddi á mig; ég var líka svo skapi farinn, að ég gat aldrei framkvæmdarlaus verið, og langaði jafnan til að sjá merkilega hluti.

Ráðstafaði ég þá öllum efnum mínum og lagði af stað jafnskjótt sem ég hafði dregið saman vörur þær, sem útgengilegastar voru í löndum þeim, er ég ætlaði að ferðast til. Í þetta sinn fór ég til Persalands og ferðaðist um mörg héruð í því ríki; kom ég að höfn nokkurri og tók mér fari. Sigldum vér þaðan og fórum fram hjá mörgum höfnum á meginlandinu og eyjum nokkrum, er til austurs liggja.

Bar þá svo til einn dag, er vér áttum yfir mikið haf að fara, að allt í einu skall á ofsabylur; hlaut þá skipstjórnarmaður að láta taka inn segl og skipaði sjómönnum til verka, til að koma í veg fyrir óhamingju þá, er yfir vofði. En viðleitni vor kom fyrir ekki; seglin rifnuðu í þúsund parta; við skipið varð engri stjórn komið, og rakst það á grunn og brotnaði, svo að margir af kaupmönnum og farmönnum drukknuðu, en allur farmurinn týndist.“


98. nótt breyta

„Ég var svo heppinn,“ sagði Sindbað enn fremur, „að ég náði í skipsflak nokkurt, eins og margir aðrir kaupmenn og sjómenn; bar straumurinn oss alla að ey nokkurri; fundum vér þar ávexti og uppsprettuvatn og hresstum oss á því. Um nóttina lágum vér þar sem sjórinn hafði fyrst kastað oss upp á land; höfðum vér ekki um talað, hvert ráð vér síðan skyldum upp taka, því vér vorum svo dasaðir og hnuggnir af óláni voru, að vér höfðum ekki rænu á því. Gengum vér eigi fyrr frá ströndinni en sól var upp komin, og sáum vér þá hús á landi upp og héldum þangað. En er vér komum þangað, vissum vér ekki fyrri til en vér sáum fjölda blökkumanna flykkjast kringum oss; skiptu þeir oss á milli sín og fóru með oss til húsa sinna.

Ég var fluttur á sama stað sem fimm aðrir af förunautum mínum. Var oss vísað til sætis og jurtir nokkrar á borð bornar; bentu svertingjar oss, að vér skyldum eta. Voru félagar mínir þá svo athugalausir, að þeir tóku ekki eftir því, að þeir, sem buðu oss að eta, átu ekki sjálfir; hugsuðu þeir ekki um annað en að seðja sáran sult sinn, og átu því með græðgi það, sem fram var reitt.

En mér sagði svo hugur um, að svik mundu undir búa, og bragðaði ég ekki jurtirnar, enda var mér það fyrir beztu, því ég sá skjótt að förunautar mínir urðu vitskertir og vissu ekki hvað þeir sögðu. Var nú á borð borinn rísgrjónagrautur með kókos-viðsmjöri, og átu félagar mínir hann í gríð, því þeir voru vitstola. Ég snæddi hann líka, en samt með hófsemd.

Höfðu svertingjar gefið oss jurtirnar til þess að firra oss vitinu, svo vér skyldum gleyma voru hryggilega óláni, en með rísgrjónagrautnum ætluðu þeir að fita oss, því þeir voru mannætur, og síðan að éta oss, þegar vér værum orðnir feitir; urðu þau afdrif förunauta minna, því vitfirring þeirra varnaði þeim að sjá hvað fyrir þeim lá.

Mun yður skiljast það, að ég, sem var heilvita, horaðist niður í stað þess að fitna. Enda kvaldist ég sí og æ af dauðaangistinni, svo mér þótti öll fæða sem eitur. Kom í mig uppdráttarsýki og varð sú sótt mér til lífs, því þegar svertingjarnir voru búnir að drepa og éta félaga mína, og þeir sáu, að ég var grindhoraður, holdlaus og veikur, þá frestuðu þeir dauða mínum til seinni tíma.

Ég var því látinn hafa mikið frjálsræði, og voru nálega engar gætur hafðar á, hvað ég tæki mér fyrir hendur. Þannig tókst mér að læðast burt frá húsum svertingjanna og forða lífi mínu. Sá mig þá gamall karl og kallaði á eftir mér, svo hátt sem hann gat, að ég skyldi koma aftur; en í stað þess að snúa aftur, flýði ég hvað af tók og komst skjótt úr augsýn.

Þá stóð svo á, að enginn var heima nema karlinn; hinir svertingjarnir voru úti, og var þeirra ekki heim von fyrr en um kvöldið, og var þetta vani þeirra. Þóttist ég fullviss um, að þá mundi þeim þykja ógjörningur að elta mig, þegar þeir fengju vitneskju um, að ég væri strokinn. Hélt ég áfram þangað til náttaði; lét ég þá staðar numið til þess að hvíla mig og neyta nokkurs af vistum þeim, er ég hafði tekið með mér; lagði ég síðan óðar af stað aftur.

Þannig gekk ég í sjö daga samfleytt, og sneiddi hjá öllum landsvæðum, þar sem ég hélt að mannabyggð væri; nærðist ég mestmegnis af kókoshnetum og voru þær í einu til saðnings og svölunar.

Á áttunda degi náði ég ofan að sjó og kom allt í einu auga á menn, sem voru hvítir eins og ég; voru þeir að tína pipar, sem þar vex ógrynni af. Þótti mér vinna þeirra góðs viti og gekk ég óhræddur til móts við þá.“


99. nótt breyta

„Þeir, sem voru að tína piparinn,“ mælti Sindbað, „komu til mín jafnskjótt sem þeir sáu mig og spurðu mig á arabiska tungu, hver ég væri, og hvaðan ég kæmi. Varð ég glaður við, er ég heyrði, að þeir töluðu móðurmál mitt, og leysti fúslega úr spurningum þeirra; sagði ég þeim, að ég væri skipbrotsmaður, hefði mig rekið að ey þessari og svertingjar náð mér.

„Svertingjar þessir eru mannætur,“ mæltu þeir, „hvernig gaztu sloppið úr greipum þeirra?“

Sagði ég þeim þá alla söguna, sem ég hef sagt yður, og fékk hún þeim mikillar undrunar. Var ég nú hjá þeim, þangað til þeir höfðu aflað svo mikils pipars, sem þeir ætluðu sér. Síðan tóku þeir mig með sér á skip það, sem þeir voru komnir á, og sigldu til annarrar eyjar; leiddu þeir mig á fund konungs síns og sögðu honum nafn mitt. Hlýddi þessi veglyndi konungur með athygli á ævintýri mín, og þótti honum þau merkileg; lét hann síðan gefa mér kostulegan klæðnað og skipaði að mér væri fengið allt, sem ég með þurfti.

Ey þessi er næsta fjölbyggð, og er þar nægð af öllu og verzlun mikil í aðsetursborg konungs. Var mér mikil huggun í raunum mínum, að ég hafði hitt á svo góðan samastað, og svo margar velgjörðir þáði ég af hinum göfuglynda konungi, að ég mátti vel una hag mínum. Enda var honum enginn kærari en ég, og allir hirðmenn hans og borgarmenn kepptust hver við annan um að vera mér til vilja. Kom þar brátt að þeir álitu mig eins og sér samlendan, en ekki sem útlending.

Það þótti mér furðu kynlegt, að allir, og jafnvel konungurinn líka, riðu ekki við beizli, söðul né ístöð. Spurði ég hann því einu sinni, hvers vegna hann synjaði sér svo nauðsynlegra hluta. Hann svaraði mér þá, að enginn í hans ríki þekkti þá hluti, er ég talaði um.

Lét ég þá hið fljótasta iðnaðarmann nokkurn smíða virki eftir minni fyrirsögn. Þegar hann var búinn að því, stoppaði ég söðulinn, fóðraði hann skinni og gullsaumaði hann allan. Að því búnu fór ég til járnsmiðs og lét hann búa til beizli, eins og ég sagði fyrir.

Þegar nú allt var fullgert, sýndi ég konungi og bar við einn af hestum hans. Sté hann þá á bak, og þótti svo vænt um nýbreytni þessa, að hann launaði mér með mestu rausn. Gat ég nú ekki undan færzt, að smíða fleiri söðla fyrir ráðgjafa hans og helztu embættismenn í hirðinni, og gáfu þeir mér stórgjafir fyrir, svo að ég varð vellríkur á stuttum tíma. Ég bjó líka til reiðtygi handa tignustu mönnum í borginni, og hlaut fyrir almennan lofstír og virðingu.

Það var einu sinni þegar ég var hjá konungi, og sýndi honum lotningu mína með öllum virktum, að hann mælti: „Sindbað, mér er vel til þín, og veit ég að allir þegnar mínir unna þér að mínu dæmi. Nú mun ég biðja þig einnar bænar, og mátt þú ekki synja mér hennar.“

„Herra!“ anzaði ég, „sá er enginn hlutur, að ég mundi eigi vera fús til að gera, ef ég gæti með því auðsýnt yður hlýðni mína. Þér hafið ótakmarkað vald yfir mér.“

„Þú átt að kvongast,“ mælti konungur, „svo að þú ílengist í ríki mínu og verðir afhuga öllum burtferðum.“

Þorði ég eigi að mótmæla konunglegum vilja hans og gifti hann mér eina af hirðmeyjum sínum, og var hún ættstór, fögur, hyggin og auðug. Eftir hjónavígsluna bjó ég saman við konu mína og lifðum við um hríð í bezta samlyndi. Allt fyrir það undi ég ekki högum mínum, heldur ásetti ég mér að sæta fyrsta tækifæri, sem byðist, að flytja þaðan til Bagdad, sem ég aldrei varð afhuga, hvað góðum kjörum, sem ég átti að fagna.

Meðan ég bjó yfir þessu áformi, vildi svo til, að kona nábúa míns, sem var góður vinur minn, tók sótt og andaðist. Vitjaði ég hans þá og ætlaði að hugga hann, og með því mér virtist hann vera yfirkominn af harmi, sagði ég við hann: „Guð varðveiti þig og gefi þér langa lífdaga!“

Varpaði hann þá öndinni mæðilega og mælti: „Hvernig ætti ósk þín að rætast? Ég á ekki eftir ólifað nema eina stund.“

„Kveldu þig ekki með svo hryggðarlegum hugsunum,“ sagði ég, „ég vona, að ekki fari svo, og að við megum lengi saman vera.“

„Þér óska ég langra lífdaga,“ anzaði hann, „en af mér er það að segja, að efnum mínum er ráðstafað og á að jarðsetja mig í dag með konu minni. Forfeður vorir hafa innleitt þenna sið, og hafa þeir aldrei út af honum brugðið. Skal grafa manninn kvikan með líki konunnar og konuna með líki mannsins; ég á ekkert undanfæri, því allir hljóta að lúta þessum lögum.“

Meðan hann var að segja mér frá þessum hryllilega sið, sem fékk mér mikillar undrunar, drifu þangað skyldmenni, vinir og nágrannar til þess að fylgja þeim hjónum til grafar. Var lík konunnar fært í hin kostulegustu klæði, eins og hún hafði verið búin á brúðkaupsdegi sínum, og prýtt skartgripum þeim, er hún hafði átt. Því næst var hún lögð á líkfjalir og fór líkfylgdin af stað. Gekk maðurinn fremstur allra á eftir líkinu, og stefndi líkfylgdin á fjall nokkurt hátt, og er þangað var komið, var velt frá stórum steini, er lukti hyldjúpa gjótu; var líkið látið síga ofan í hana með öllu skartinu og gersemunum.

Því næst faðmaði ekkillinn ættingja sína og vini og lét mótstöðulaust leggja sig á líkbörur með vatnskrukku og sjö smábrauðum; var honum sökkt ofan í hyldýpið á eftir konu sinni. Fjall þetta var fjarska langt og gekk allt að sjó fram. En er þessi hátíðlega greftrun var á enda, var gjótan afturlukt með steininum.

Þér megið nærri geta, að ég varð sárhryggur við sjón þessa. Öllum hinum, sem viðstaddir voru, fannst lítið um, því þeim var ekki nýnæmi, að sjá slíkt. Gat ég ekki á mér setið, að segja konungi, hvað mér bjó í skapi, og tók ég þannig til máls: „Yðar hátign! Mér fær meiri undrunar en ég geti frá sagt, að í löndum yðar skuli slíkum sið vera fylgt, er býður að grafa lifandi menn með dauðum. Hef ég víða farið um heiminn og kynnzt mörgum þjóðum, en svo grimmdarfullra laga hef ég aldrei heyrt getið.“

„Hvað þykir þér að, Sindbað?“ anzaði hann, „lögin ná yfir alla, ég sjálfur er ekki undanþeginn, og á að kviksetja mig með konu minni, ef hún skyldi deyja fyrr en ég.“

Þá mælti ég: „Dirfist ég að spyrja yðar hátign, eru útlendingar líka háðir þessum sið?“

„Það máttu reiða þig á,“ svaraði konungur, og hló við, því hann skildi, hvað mér gekk til að spyrja, „þegar þeir hafa kvongazt hér með oss, þá eru þeir ekki undanþegnir.“

Með þessa hryggilegu úrlausn gekk ég heim til mín og kveið ég svo fyrir, að kona mín kynni að deyja á undan mér, og ég verða kviksettur með henni, að ég fékk eigi á mér tekið fyrir sorg og áhyggjum. En hvernig átti ég að sleppa hjá þessu óláni?

Ég sá ekki annað vænna en að taka hlutskipti mínu með jafnaðargeði og treysta guðs handleiðslu. Samt varð ég dauðhræddur, hvað lítið sem konu minni varð illt, en því var verr, að það bar loksins að hendi, sem verst gat orðið. Hún tók hættulega sótt og andaðist að fárra daga fresti.“


100. nótt breyta

„Nú getið þér gert yður í hugarlund, hvað ég tók út,“ mælti Sindbað, „mér þótti eins hryllilegt, að vera kviksettur, eins og að verða mannætum að bráð, og var þó ekkert undanfæri.

Ráðgerði konungur að heiðra útför mína með viðurvist sinni, og hinir helztu borgarmenn ætluðu líka að sýna mér þá virðing, að fylgja mér til grafar. Þegar allt var tilbúið, var lík konu minnar lagt á líkbörur, skrýtt í hin kostulegustu klæði, sem hún hafði átt; því næst var líkið hafið út. Fylgdi ég á eftir líkinu grátandi og harmandi forlög mín.

Áður en vér náðum til fjallsins, ætlaði ég að reyna að hræra þá, sem viðstaddir voru, til meðaumkvunar; veik ég mér því fyrst að konungi og síðan að hinum, er kringum mig stóðu. Ég hneigði mig fyrir þeim allt til jarðar, kyssti klæðafald þeirra, og beiddi þá miskunnar. „Gætið þess,“ mælti ég, „að ég, sem er útlendingur, ætti ekki að vera slíkum grimmdarlögum undirgefinn; þar við bætist, að ég á konu og börn heima á ættjörðu minni.“

En það stoðaði ekkert, að ég bar upp kveinstafi mína á hjartnæmasta hátt, enginn viknaði. Þeir flýttu sér því heldur að sökkva líkinu niður í gjótuna, og samstundis var ég látinn síga ofan í opinni líkkistu með vatnskrukku og sjö brauðum. Ópi mínu og veini var enginn gaumur gefinn, og var steininum velt yfir gjótuna, og lauk með því þessari hátíðlegu greftrun.

Meðan ég var látinn síga niður, sá ég við birtu þá, er skein ofan í gjótuna, hvernig þessum híbýlum undir jörðinni var háttað. Gjótan var allmikil um sig og á að gizka fimmtíu álnir á dýpt. Var þar óþolandi nálykt af líkunum, er lágu til beggja hliða; þótti mér sem ég heyrði nokkra af þeim, er síðast höfðu verið greftraðir, gefa upp öndina.

Undir eins og ég var kominn niður, stóð ég upp úr kistunni og gekk frá líkunum með hendurnar fyrir vitunum. Því næst fleygði ég mér til jarðar og lá langa stund, grátandi brennheitum tárum.

Ég hugleiddi mín hryggilegu forlög og sagði við sjálfan mig: „Að vísu stjórnar drottinn oss eftir vizku sinni, en eru það ekki sjálfskaparvíti, veslings Sindbað, að þú hlýtur nú að deyja svo óheyrilegum dauða? Guð gæfi þú hefðir látið líf þitt í skipreikanum og ekki komizt af, þá hefði viðskilnaður þinn ekki orðið svo langvinnur og hryllilegur, en þér er það mátulegt fyrir bölvaða ágirndina. Ólánsmaður, nær hefði þér verið, að sitja heima, og njóta ávaxtanna af iðjusemi þinni í kyrrð og ró.“

Þannig þreytti ég mig á þessum fánýtu harmatölum niðri í gjótunni, og lamdi höfuð mitt og brjóst í æði og örvæntingu. Ekki vildi ég samt fyrirfara mér sjálfum og frelsast þannig; elskan til lífsins réði meiru, og var hún rík í hjarta mínu, þrátt fyrir alla eymd; reyndi ég því að teygja sem lengst úr lífi mínu. Þreifaði ég fyrir mér og gekk aftur til kistunnar með hendurnar fyrir vitunum; neytti ég þá brauðsins og vatnsins, sem mér hafði verið fengið meðferðis.

Þannig liðu nokkrir dagar og þótti mér sem gjótan væri miklu víðari og fleiri lík í henni en mér hafði virzt í fyrstunni. Þegar matbjörgin var á förum, bjó ég mig undir dauða minn.


101. nótt breyta

Meðan ég beið dauða míns, heyrði ég að steininum var velt frá; var lík með lifandi konu látið ofan síga. Örvæntingin kemur mönnum til að ráðast í mörg fádæmi. Meðan konan var að síga ofan, gekk ég þangað, er ég hélt hún mundi niður koma, og laust aumingjann í höfuðið með stóru mannsbeini, sem ég hafði tekið í hönd mér. Féll hún í rot eða dó öllu heldur, og gekk mér ekki annað til þessarar óheyrilegu grimmdar en það, að ég vildi ná brauði því og vatni, er hún hafði með sér; var ég nú aftur birgur til nokkurra daga. En er þeir voru liðnir, var lík konu og lifandi maður látið ofan síga. Drap ég hann á sama hátt, og með því að um þetta leyti dóu margir í borginni, gat ég jafnan aflað mér viðurværis með þessu móti.

Það var einu sinni, er ég hafði drepið aðra konu til, að ég heyrði eitthvað ganga nálægt mér og blása við um leið. Gekk ég á hljóðið, og er ég kom nær, heyrðist mér blásturinn hærri, og þótti mér, sem ég sæi eitthvað stökkva á undan mér. Veitti ég eftirför skugga þessum, er stóð við hvað eftir annað á flóttanum, og blés æ því meir er ég kom honum nær.

Ég var þangað til að elta hann, að ég sá loksins ljós langt í burtu, og var það tilsýndar eins og stjarna; stefndi ég þá stöðugt á ljós þetta og missti oftsinnis sjónar á því, þegar eitthvað bar fyrir, en kom ætíð auga á það aftur; loksins varð ég þess vísari, að ljósið kom úr klettarifu einni, sem var svo víð, að komast mátti út um.

Þegar ég hafði komizt að þessu, hvíldi ég mig um stund, því ég hafði tekið mjög nærri mér; síðan gekk ég alla leið að klettasmugunni, skreið út um hana, og stóð allt í einu á sjávarströndinni.

Hugsið ykkur nú, hversu óumræðilegur fögnuður minn hafi verið; ég var svo frá mér numinn, að ég gat ekki öðru trúað en allt þetta hefði verið draumur. En þegar ég var kominn til sjálfs mín og genginn úr skugga um, að þetta væru engir draumórar, skildi ég fljótt, að það, sem ég hafði elt, mundi vera dýr, sem væri vant að ganga úr sjónum upp í hellinn til þess að éta líkin.

Kannaði ég nú fjallið, sem lá milli borgarinnar og sjávarins, og var það svo þverbratt, að þaðan lágu engir mannavegir, og voru þar mestu ógöngur. Ég fleygði mér til jarðar á ströndinni og lofaði drottin fyrir, að hann hafði miskunnað mér; síðan gekk ég aftur inn í hellinn og sótti mér brauð; fór ég með það fram í birtuna og snæddi; hafði ég aldrei haft jafngóða matarlyst á þessum hryllilega stað.

Fór ég þangað einu sinni enn, og rakaði saman í myrkrinu gripum þeim, er í líkkistunum voru, demöntum, roðasteinum, perlum, armbaugum og alls konar dýrindis vefnaði, sem ég gat komizt yfir. Allt þetta bar ég ofan á sjávarströnd og batt í böggla og vafði vandlega um festum þeim, er líkin höfðu verið látin síga í, og var nóg til af þeim. Lét ég bögglana liggja þar á ströndinni, þangað til mér byðist færi á, að sleppa þaðan burt; þurfti ég ekki að kvíða, að þeir skemmdust af rigningum, því þetta var um þurrkatímann.

Tveimur eða þremur dögum síðar sá ég skip, er sigldi út úr höfn borgarinnar og fór fram hjá ströndinni þar sem ég var. Rakti ég þá höfuðbúnað minn sundur og veifaði honum eins og blæju, og æpti af öllum mætti til þess eftir mér yrði tekið. Sást þá til mín af skipinu, og var bátur sendur eftir mér.

Þegar skipverjar spurðu, fyrir hvaða hrakföll ég væri þangað kominn, skrökvaði ég því að þeim, að ég fyrir tveimur dögum hefði bjargazt af skipbroti með vörur þær, er ég hafði með mér. Til allrar hamingju gerðu þeir sig ánægða með þetta svar mitt; tóku þeir mig með sér ásamt vörunum, en athuguðu ekkert frekar staðinn þar sem ég hafði verið, né heldur grennsluðust eftir, hvort tilhæfa væri í sögu minni.

Skipstjórnarmaður var önnum kafinn að segja fyrir verkum á skipinu, og tók hina ósönnu skipbrotssögu gilda. Ætlaði ég að gefa honum nokkra af gimsteinum mínum í þakklætis skyni, en hann vildi ekki þiggja.

Nú sigldum vér fram hjá mörgum eyjum; ein þeirra var Bjölluey, og er þaðan í góðu byrleiði tíu daga sigling til eyjarinnar Seylon, en sex daga sigling til eyjarinnar Kela; þar stigum vér á land. Eru þar blýnámur nógar, indverskur reyr og afbragðs kamfóra. Er Kelu konungur næsta ríkur og voldugur, og tekur ríki hans yfir alla Bjölluey, en hún er tvær þingmannaleiðir á lengd, og eru eyjarskeggjar þar svo siðlausir, að þeir éta mannakjöt.

Þegar vér höfðum verzlað þar á eynni til góðra muna, fórum vér leiðar vorrar og sigldum inn á margar aðrar hafnir. Loksins kom ég heilu og höldnu til Bagdad með þvílík ógrynni auðæfa, að ég vissi enga tölu á þeim. Gaf ég fátæklingum stórgjafir og færði drottni þannig þakkir fyrir miskunnsemi þá, er hann hafði auðsýnt mér; þar að auki lét ég reisa mörg musteri. Síðan lifði ég glatt með ættingjum mínum og vinum og átti hina beztu daga.“

Lauk þá Sindbað að segja af fjórðu ferð sinni og fannst þeim, er á heyrðu, meira til hennar koma en þriggja hinna fyrri. Hann gaf Hindbað aftur hundrað gullpeninga og beiddi hann að koma til borðhalds næsta dag, á sama tíma og að undanförnu; skyldi hann þá segja honum ævintýri sín á hinni fimmtu ferð. Hindbað og hinir aðrir gestir kvöddu því næst Sindbað og gengu á burt.


102. nótt breyta

Þegar allir voru saman komnir næsta dag, var til borðs gengið, og að lokinni máltíðinni, sem stóð ekki skemur yfir í þetta sinn en endranær, hóf Sindbað að segja af fimmtu ferð sinni á þessa leið: