Þúsund og ein nótt/Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn

18. nótt breyta

Einu sinni fór gamall garðyrkjumaður út í garðinn sinn með syni sínum, reið drengurinn asna, en karlinn gekk.

Undruðust það allir, sem mættu þeim, og margir kölluðu til þeirra: „Sjáið þið karlinn vitlausan, sem er það flón að ganga, en lætur son sinn vera að spjátra sig á asnanum.“

Vegna þessara ámæla lét karlinn son sinn fara af baki, og fór sjálfur á bak. En ekki leið á löngu, að þeir mættu öðrum og heyrðu glöggt að þeir sögðu: „Hann er orðinn ær, gamli karlinn, hann sæti ekki einn á asnanum annars.“

Þá lét garðyrkjumaðurinn piltinn setjast fyrir aftan sig, og tvímenntu þeir svo spölkorn, þangað til þeir heyrðu menn segja, sem fram hjá gengu, að þetta væri mesta ósvinna, að drengurinn skyldi sitja svona fyrir aftan föður sinn. Höfðu þeir feðgar þá sætaskipti, en það varð ekki til annars en að þeir fengu að heyra hjá þeim, sem urðu á vegi þeirra næst:

„Karlinn sá arna er ósóminn sjálfur, að hann skuli ríða svona með þennan ungling fyrir framan sig.“

Hvernig sem aumingja garðyrkjumaðurinn reyndi á alla vegu, gat hann aldrei gert svo öllum líkaði. Getur yðar hátign,“ sagði Kansade ennfremur, „ráðið af því, að enginn sleppur hjá ámælum annarra, og að það er heimska, að ætla sér að hlýða hvers eins ráðum. Framkvæmdu því hið fyrsta áform þitt, og láttu hegninguna koma yfir son þinn fyrir vanþakklæti hans og guðlausan níðingsskap.“

Morguninn eftir settist Sindbað konungur í hásæti, gerði boð eftir böðlinum og skipaði honum að drepa Núrgehan.

Þá gekk annar vezírinn fram og mælti: „Ó þú konungur veraldarinnar, lát ekki ginna þig til slíks bráðræðis, að úthella svo dýru blóði. Mistryggðu þann munn, sem æsir þetta haf svikanna. Konur verða aldrei uppnæmar að rægja. Þær sitja í legubekknum með krosslagða fæturna og fingurna leikandi á tánum, og gera ekkert annað liðlangan daginn en að hugsa upp vélræði til að leika á karlmennina.

Minnist yðar hátign þeirra orða, sem Mahómet sagði í andarslitrunum: „Ég skil svo við mannkynið, að ein sundrungar uppspretta er eftir, og hefur hún upptök sín hjá konum. Ég gekk ríkt eftir að minna boðorða væri gætt, og leitaðist við að útrýma syndinni úr heiminum, en ég gat ekki rifið upp hina dýpstu rót hennar, sem er kvenkynið, því það er friðarspillir mannkynsins, og þó hauðsynlegt til að halda því við.“

Ef ég mætti segja þér söguna af Saddyk hestaverði, mundirðu ekki hlaupa svona á þig, að láta eftir hinni blóðugu bæn drottningarinnar.“

Svo uppvægur sem Sindbað konungur var, barðist þó föðurhjartað í brjósti hans, og hlýddi hann fúslega á allt, sem hann hélt mundi geta sannað sakleysi sonar hans. Bauð hann því vezírnum að segja hina fyrrgreindu sögu.