Þúsund og ein nótt/Hin þrjú epli

„Herra!“ tók hún til máls, „í einni sögu, sem ég hef sagt yður, gat ég þess, að kalífinn Harún Alrasjid hefði gengið út á náttarþeli; hinu sama bregður einnig fyrir í þessari frásögu.

Einn dag skipaði kalífinn stórvezírnum Gíafar að koma næstu nótt í höllina. „Vezír!“ mælti hann, „ég ætla að ganga um borgina og heyra hvað talað er, en einkum vil ég komast eftir, hvernig menn eru ánægðir með dómara mína. Ef menn kvarta undan þeim og hafa gildar ástæður til þess, mun ég setja nýja dómara í staðinn, sem betur gegni skyldu sinni; en sé þeim hælt, skal ég sjá það við þá.“

Kom nú stórvezírinn í höllina á tiltekinni stund, og fóru þeir kalífinn, Gíafar og Mesrúr, höfuðsmaður geldinganna, í dularbúning til að torkenna sig; því næst gengu þeir allir út saman.

Þeir gengu yfir mörg pláss og torg í borginni; sáu þeir loksins í smástræti einu, hvar maður gekk og bar fiskinet á höfði sér; var hann hár vexti og hafði hvítt skegg. Á handleggnum bar hann körf úr pálmablöðum, en staf í hendi.

Þá mælti kalífinn: „Þessi karl lítur ekki út fyrir að vera fjáður, við skulum yrða á hann og spyrja um efnahag hans.“

„Heyrðu kunningi,“ mælti vezírinn og veik sér að honum, „hver ert þú?“

„Herra,“ svaraði karlinn, „ég er fiskimaður, og allra fiskimanna aumastur og fátækastur. Ég fór að heiman um hádegisbil til fiskjar, og hef einskis aflað, og á ég þó konu og ung börn fyrir að sjá, en enga lífsbjörg handa þeim.“

Kalífinn sá aumur á honum og mælti: „Hefurðu dug í þér til að kasta neti þínu út einu sinni enn? Við skulum gefa þér hundrað sekkínur fyrir það, sem þú dregur á land.“

Þegar fiskimaður heyrði þetta, gleymdi hann því, hvað honum hafði gengið erfitt fyrr um daginn, og þáði undir eins boð kalífans og fór nú aftur með honum, Gíafar og Mesrúr ofan að Tígrisfljóti; hugsaði hann með sér: „Þessir menn eru svo fyrirmannlegir og ráðsettir að sjá, að ég trúi því ekki, að þeir láti fyrirhöfn mína óborgaða, og þó ég ekki fengi meira en hundraðasta part af því, sem mér var lofað, þá mætti mig muna um það.“

Þegar þeir voru komnir að fljótinu, kastaði fiskimaður út neti sínu, og er hann dró það upp aftur, var í því kista, vandlega læst og næsta þung. Kalífinn lét þá stórvezírinn fá manninum hinar hundrað sekkínur, og sagði honum, að hann mætti fara. Skipaði kalífinn Mesrúr að taka kistuna upp á öxl sér og bera hana til hallarinnar, því honum lék mikil forvitni á að sjá, hvað í henni væri.

Þegar þeir voru komnir þangað með kistuna, luku þeir henni upp og fundu stóra körf úr pálmablöðum; var lokið saumað yfir með rauðu ullarbandi. Vegna bráðlætis kalífans var ekki leystur þráðurinn, heldur var hann skorinn í sundur með hníf; var þá tekinn ströngull upp úr körfinni, sveipaður í brekáns ræfil og vafinn snærum.

En er þau voru rifin utan af og farið var í ströngulinn, varð þeim felmt við, því innan í honum fundu þeir lík ungrar konu; var það hvítt sem mjöll, en skorið sundur í stykki.“


111. nótt breyta

„Yðar hátign getur betur ímyndað sér en ég útmálað, hvernig kalífanum brá við þessa hryllilegu sjón.

En allt í einu snerist undrun hans í ofsalega reiði; hann hvessti augun brennandi af heipt á stórvezírinn og mælti af ákefð: „Ólánsmaður, vakir þú svona yfir þegnum mínum. Undir þinni stjórn verða manndráp leynilega framin í höfuðborg minni að ósekju, og íbúum hennar fleygt í Tígrisfljótið, til þess að þeir biðji mér hefndar á efsta degi. Ef þú ekki bráðlega afplánar dauða þessarar konu með lífláti morðingjans, þá sver ég við guðs heilaga nafn, að ég skal láta festa þig á gálga og fjörutíu ættingja þína.“

„Konungur rétttrúaðra manna,“ anzaði stórvezírinn, „ég bið yðar hátign, að gefa mér frest til löglegra rannsókna.“

„Þriggja daga frest veiti ég þér,“ svaraði kalífinn, „að öðru leyti er allt þinn ábyrgðarhluti.“

Fór nú stórvezírinn Gíafar dauðhræddur heim til sín. „Hvernig á ég,“ hugsaði hann með sér, „að hafa upp einn morðingja í svo mannmargri borg, sem Bagdad er; hefur hann vafalaust drýgt ódæði þetta vottalaust, og er ef til vill flúinn úr borginni. Margur annar mundi í mínum sporum taka einhvern aumingja, sem er í fangelsi, og lífláta hann, til þess að gera kalífanum fullnustu; en ég vil ekki ofþyngja samvizku mína með slíku ofbeldisverki, og kýs ég heldur dauðann en kaupa líf mitt svo dýrt.“

Skipaði hann þá öllum dómurum og lögreglumönnum, sem hann átti yfir að segja, að leita ódáðamannsins vandlega. Létu þeir allt lið sitt starfa að eftirgrennslun þessari, og lögðu þeir sig í líma, því þeim þótti þetta mál varða sig eins mikið og stórvezírinn. En allar rannsóknir þeirra urðu árangurslausar; þeir fengu ekki uppgötvað morðingjann, og sá nú vezírinn í hendi sér, að dauðinn væri sér vís, nema hann frelsaðist fyrir sérlega guðs hjálp.

Á hinum þriðja degi var honum stefnt á fund kalífans, og spurði þá kalífinn hann, hver valdur væri að morðinu. Þá svaraði Gíafar grátandi: „Drottinn rétttrúaðra manna! Ég hef engan fundið, sem gæti gert mig nokkurs vísari um þetta mál.“

Þá veitti kalífinn honum hin beiskustu ámæli, og skipaði að hengja hann og fjörutíu ættingja hans fyrir framan hallarhliðið. Meðan verið var að reisa gálgana og sækja hina fjörutíu ættingja stórvezírsins, lét kalífinn kalla hátt um alla borgina og segja:

„Hver, sem vill sjá stórvezírinn Gíafar og fjörutíu ættingja hans hengda, hann komi á plássið fyrir framan höllina.“

Þegar nú allt var tilbúið til líflátsins, leiddu dauðadómarinn og margir dómþjónar Gíafar fram með fjörutíu ættingjum hans; var þá hver settur undir þann gálga, sem honum var ætlaður. Nú var snörunum brugðið um háls þeim; harmaði manngrúi sá mjög, er horfði á, og fékk ekki tára bundizt, því stórvezírinn og ættingjar hans voru vitrir og elskaðir, bæði í Bagdad og hvarvetna annarsstaðar í ríkinu, vegna réttlætis síns, örlætis og ósérplægni.

Nú var ekkert til fyrirstöðu, að skipun hins vandlætingasama kalífa yrði framgengt, og var rétt að því komið, að hinir göfugustu menn í borginni yrðu líflátnir.

Þá ruddist ungur maður, fríður sýnum og vel búinn, gegnum mannþröngina, fram fyrir stórvezírinn og kyssti á hönd hans svo mælandi: „Voldugi vezír, yfirmaður emíranna í hirð þessari, stoð og stytta hinna nauðstöddu! Þér eruð saklaus af glæp þeim, sem veldur því, að þér eruð hingað dreginn. Farið héðan og látið mig afplána dauða konu þeirrar, er fleygt var í Tígrisfljótið. Ég er morðinginn og hef unnið til refsingarinnar.“

Þó að vezírinn yrði glaður við orð þessi, kenndi hann samt í brjósti um hinn unga mann, því ekkert illt lýsti sér í yfirbragði hans, heldur var svipurinn miklu fremur sérlega góðlegur og geðslegur.

Hann ætlaði að svara honum einhverju, en í því kom maður, hár vexti og hniginn á efra aldur. Sagði hann við vezírinn: „Herra, trúið ekki ungmenni þessu, ég hef drepið konuna og enginn annar, og á ég því einn að sæta hegningu. Ég særi yður í guðs nafni, refsið eigi hinum saklausa í stað hins seka.“

Ungmennið sór og sárt við lagði, að hann einn væri valdur að morðinu, og ætti enginn annar hlut í, en gamalmennið greip fram í og sagði: „Sonur, örvæntingin hefur rekið þig hingað, og þú ætlar að taka fram fyrir hendur forlaga þinna. Ég hef lifað nógu lengi í heimi þessum, og ber mér eigi að vera svo fastheldinn við lífið; láttu mig því leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig. Ég ítreka það, að ég er morðinginn; líflátið mig því undir eins!“

Þessi kappdeila gamalmennisins og ungmennisins kom Gíafar til að fara með þá báða til kalífans; beiddi hann fyrst yfirvald það samþykkis, er um aftökuna átti að sjá, og var það auðfengið.

Þegar hann gekk fyrir kalífann, kyssti hann sjö sinnum á jörðina og tók til máls: „Drottinn rétttrúaðra manna, hér kem ég til yðar með gamalmenni og ungmenni; þykist hvor um sig hafa drepið konu þá, er fannst í Tígrisfljótinu.“

Kalífinn spurði þá því næst, hvor þeirra væri hinn rétti morðingi, og er báðir ítrekuðu það, sem þeir fyrr höfðu sagt, skipaði hann að hengja þá báða.

Móti því mælti vezírinn og sagði: „Herra, ef nú einungis annar þeirra er sekur, þá væri óréttvíst að lífláta hinn.“

Þá tók hinn ungi maður aftur til máls: „Ég sver við allsvaldandi drottinn, sem himnana hefur upp reist, að ég hef drepið konuna, brytjað hana sundur og fleygt henni í Tígrisfljótið fyrir fjórum dögum síðan. Væri ég þá rækur úr samneyti réttlátra á dómsdegi, ef þetta eru ósannindi. Ég einn er refsingarverður.“

Þegar hann hafði unnið eið þenna, trúði kalífinn honum því heldur, sem gamalmennið svaraði engu.

Því næst sagði hann við ungmennið: „Ólánsmaður, því drýgðir þú svo viðbjóðslegan glæp, og hvað kom þér til, að ljóstra upp um sjálfan þig?“

Svaraði hinn þá: „Drottinn rétttrúaðra manna! Væri það uppskrifað, sem mig og konu þessa hefur hent, mundi heimurinn eignast fróðlega sögu.“

„Þá skipa ég þér að segja oss hana,“ mælti kalífinn og gerði ungmennið það á þessa leið: