Þúsund og ein nótt/Inngangur
Í nafni guðs hins miskunnsama, líknarfulla. Dýrð sje guði konunginum, gjafaranum góðra hluta, skapara heimsins, sem uppreist hefur himininn án stoða og breitt út jörðina sem ábreiðu. Friður og blessun sé með heilsuboðanum, vorum drottni og herra Mahómet og þeim, sem hans eru; blessun og friður æ og ævinlega, allt til efsta dags.
Að svo fyrirmæltu víkjum vér til efnisins. Ævi fyrri kynslóða
er fróðleg fyrir seinni menn og ber manninum að taka eftir
forlögum annarra og hafa sér til eftirdæmis eða viðvörunar.
Skal hann hyggja að sögu hinna fyrri þjóða og því, sem drifið
hefur á daga þeirra, og vera af hjarta lítillátur. Lofaður sé
algjörleiki þess, sem svo hefur stýrt sögu fyrri tíða og
manna, að hún er orðin hinum seinni til fróðleiks. Þess konar
eru líka frásagnirnar og hin kynlegu ævintýri í Þúsund og
einni nótt.
Það er segin saga - en einn guð er alvitur, alvís, almáttugur
og algóður - að einu sinni hafi í fyrndinni verið konungur
yfir Indlandi og Kína; hafði hann fjölda hermanna og
varðmanna, þegna og þjóna. Þótti hann umfram alla konunga á
sinni öld, og var af ætt Sassaníða, þeirra er í fornöld réðu
yfir Persíu; hann átti tvo sonu, var annar fullorðinn en hinn
unglingur. Voru báðir kóngssynir riddaralegir, og þó einkum
hinn eldri, er Sjarjar hét og erfa átti ríki að konungi
liðnum. Hann stýrði ríki sínu svo réttvíslega, að allir
þegnar hans unnu honum hugástum. Yngri bróðirinn Sjasenan
átti ekkert tilkall til nokkurs hluta af ríkinu, eftir því
sem lög voru til, og varð hann því að vera metorðalaus. Lék
honum samt engin öfund á láni bróður síns, og reyndi hann á
allar lundir að vera honum að skapi. Varð Sjarjar honum enn
vinveittari fyrir þetta, því honum hafði jafnan verið hlýtt
til bróður síns, svo að hann lét af hendi við hann
konungsríkið Samarkand, og fór Sjasenan þangað óðara.
Báðir bræðurnir stýrðu nú löndum í rúm tíu ár, vel og
réttvíslega, þegnum sínum til heilla og hamingju. Þá varð
hinum eldra hugur á að finna bróður sinn. Ráðgaðist hann því
jafnskjótt um þetta við stórvezír sinn, eða æðsta ráðgjafa,
og bauð honum því næst að búast til ferðar til Samarkand. Lét
hann velja til dýrustu gjafir, ágæta hesta með gullbúin
reiðtygi, alsett gimsteinum, egipzka riddara, fríðar ambáttir
og kostuleg klæði og skrifaði bróður sínum til, hversu mjög
hann þráði hans fund. Innsiglaði hann bréfið og fékk vezírnum
ásamt gjöfunum og lagði ríkt á við hann að flýta sér, bæði á
þangaðferðinni og heimleiðinni.
Vezírinn svaraði: „Ég heyri og hlýði,“ bjó sig síðan til
ferða og varð tilbúinn á þriðja degi. En á fjórða degi tók
hann orlof af Sjarjar og lagði með fjölmenna sveit út á öræfi
og óbyggðir. Fór hann dagfari og náttfari, og er hann kom í
námunda við aðsetursstað eins af undirkonungum Sjarjars, þá
kom hann til móts við vezírinn með dýrindis gjafir í gulli og
silfri og hélt honum veizlu í þrjá daga, svo að uppfylltist
boðorð spámannsins. Á fjórða degi fylgdi hann vezírnum eina
dagleið og skildu þeir að svo búnu. Fór vezírinn leiðar
sinnar unz hann kom í grennd við Samarkand; gerði hann þá boð
á undan sér, til þess að láta Sjasenan vita um komu sína.
Reið sendimaður inn í borgina og lét vísa sér á höll
konungsins, og er hann náði hans fundi, kyssti hann jörðina
frammi fyrir fótum hans og sagði að vezír bróður hans væri á
leiðinni og farinn að nálgast.
Bauð þá Sjasenan óðara æðstu hirðmönnum og stórhöfðingjum
ríkisins að fara eina dagleið til móts við hann. Þeir gerðu
svo, og er þeir fundu vezírinn, heilsuðu þeir honum og gengu
með ístöðum hans alla leið til borgarinnar. Gekk vezírinn þar
fyrir konung, heilsaði honum og beiddi honum guðs hjálpræðis
og kyssti jörðina frammi fyrir fótum hans og sagði honum, að
bróðir hans beiddi hann að finna sig. Rétti hann honum þá
sjálft bréfið, en konungur tók við því og las, og svaraði
því, að hann væri fús að taka boði bróður síns.
„En ekki fer ég fyrr,“ þessum orðum mælti hann til vezírsins,
„en þú hefur gist mig í þrjá daga.“
Vísaði hann honum þá á höll eina til íbúðar, gaf öllum vín og
vistir og veitti stórmannlega. Liðu svo þrír dagar, en á
fjórða degi fór konungur að búa sig til ferðar og aflaði
góðra gjafa, hæfandi tign bróður hans. En er konungur var
tilbúinn, sendi hann tjöld sín, múlasna og úlfalda á undan
sér út úr borginni, fól vezír sínum ríkisstjórnina á hendur í
fjarveru sinni; lagði hann svo af stað frá aðsetursborg
sinni.
En um miðnætti hugkvæmdist honum, að sér hefði legizt nokkuð
eftir í höllinni, sem hann þurfti að gera; sneri hann því
aftur um hæl til hallarinnar og flýtti sér. Fór hann þangað
einn og læddist sem hljóðlegast um herbergi sín, og er hann
kom að rekkju sinni, sá hann að drottningin, sem hann unni
hugástum, og svartur þræll lágu þar saman í fasta svefni.
Honum sortnaði fyrir augum við sjón þessa. Hann stóð grafkyrr
allra snöggvast og starði á þetta, eins og hann tryði ekki
sínum eigin augum. En er hann var genginn úr skugga um það,
segir hann við sjálfan sig: „Varla hef ég snúið bakinu við
höll minni, og meðan ég enn er undir múrum Samarkands,
dirfast menn að svívirða mig svona! Upp á hverju ætli þessi
kvenskratti taki, þegar ég er kominn til bróður míns? En ekki
skal glæpur þinn óhegndur vera, flagðið þitt!“
Svalaði konungur ofsabræði sinni þegar í stað, brá sverðinu
og svipti báðum úr svefni í dauða, fleygði því næst hverju
líkinu ofan á annað út um glugga ofan í gryfju eina, sem
grafin var kringum höllina, og fór síðan eins og hann var
kominn.
Þegar hann var kominn til föruneytis síns, bauð hann því að
taka sig upp, en nefndi ekki á nafn við nokkurn mann, hvað í
hafði skorizt. Urðu menn skjótbúnir og varla kominn dagur,
þegar lestin fór af stað rneð bumbnahljóm og lúðraþyt og alls
konar hljóðfæraslætti, svo að öllum varð skemmt nema
konunginum. Hann gerðist þunglyndur út af ótryggð drottningar
sinnar og rættist aldrei af honum alla ferðina.
Nálægt höfuðborg Indlands mætti hann Sjarjar soldáni; kom
hann á móti honum með alla hirð sína og tók við honum báðum
höndum. Stigu bræðurnir báðir af baki og féllust í faðma og
fóru ekki á bak aftur fyrr en þeir höfðu sýnt hvor öðrum
mikil vinahót og ástúðleik; æpti ótölulegur manngrúi
fagnaðarópi meðan þeir riðu til borgarinnar. Var hún
hátíðlega skreytt eftir boði soldáns; er það siður við slík
tækifæri í Austurlöndum, að kaupmenn setja fram til sýnis
hinn fegursta varning, láta mála hús sín og tjalda yfir
borgarstræti. Fylgdi soldán bróður sínum um borgina í höll
eina, sem hann hafði ætlað honum. Var hún áföst við höll
sjálfs hans og aldingarður á milli; var höllin þeim mun
skrautlegri sem hún líka annars jafnaðarlega var höfð til
hátíða og hirðskemmtana og nú nýlega prýdd með mestu viðhöfn.
Skyldi Sjarjar þar við bróður sinn, svo að hann hefði tíma
til að taka laugar og skipta um klæði; en er Sjasenan var
búinn að því, fór hann til hans aftur. Settust þeir þá í
legubekk, en hirðmennirnir stóðu álengdar með lotningu; ræddu
konungarnir þá margt, sem verða má, þegar tveir bræður, sem
alúðarvinir eru, hittast eftir langvinnar fjarvistir. En er
tími var kominn til kvöldverðar, borðuðu þeir saman og sátu á
tali langt fram á nótt, þangað til Sjarjar fór, svo bróðir
hans gæti hvílt sig.
Hafi nú harmur Sjasenans sefazt nokkuð við samfundi og viðurtal þeirra bræðranna, þá er hitt víst, að hann ýfðist á ný. Honum kom ekki dúr á auga þó hann legðist fyrir, því í stað svefnsins stríddu á hann beisklegar hugleiðingar út af ótryggð drottningarinnar. En er hann gat ekki sofnað, reis hann upp aftur og gaf nú hryggð sinni svo algerlega tauminn, að soldáni gat ekki dulizt um morguninn, hvað raunalegur og bleikur hann var í yfirbragði. Fór hann að velta fyrir sér, hvað valda mundi þessari hugsýki, og með því að hann gat ekki ásakað sjálfan sig um neitt, hvernig hann hefði tekið Samarkands-konunginum og farið með hann, þá hélt hann það kæmi til af fjarveru hans úr ríkjum sínum. Lét hann því daginn eftir fá honum nokkuð af gjöfum þeim, er honum voru ætlaðar og valdar voru af því, sem Indland á til dýrast og sjaldgæfast, svo að hann gæti farið heim til Samarkands, þegar honum litist. En allt fyrir það leitaðist hann við að hafa af fyrir honum með nýjum skemmtunum á degi hverjum.
Soldán sat nú á sér nokkra stund og stillti sig um að spyrja
bróður sinn, hvað að honum gengi, þangað til hann segir einn
dag: „Ég sé það, bróðir, hvað þú ert sárhryggur og bliknar
upp dag frá degi.“ -
„Ég bý yfir stórri hugraun“, svarar hann, en skýrði soldáni
ekkert frá því, sem hann hafði áskynja orðið um níðingsskap
drottningar sinnar.
Soldán hafði efnt til stórkostlegrar veiðifarar og bauð
bróður sínum til hennar, en hann barði við heilsulasleik
sínum og gekk soldán ekki frekara á hann um það, heldur lét
hann gera sem honum líkaði. Fór því Sjarjar einn með hirð
sinni að skemmta sér við veiðarnar, og sem hann var farinn,
gekk Sjasenan til herbergis nokkurs, sem vissi út að
aldingarðinum, og settist þar við glugga. Var hvergi huggunar
von, ef ekki væri þar, því garðurinn var inndælisfagur og
kvað við af kliði ótölulegs fuglagrúa í laufi og forsælu
trjánna og runnanna. En hann leit varla við garðinum, heldur
mændi augum til himins, biðjandi huggunar í raunum sínum.
Svo sturlaður sem hann var af harminum, þá duldist honum samt
ekki eitt atvik og vakti það fljótt athygli hans; það lukust
semsé skyndilega upp leynidyr á höll bróður hans og gengu þar
út tuttugu konur og drottningin mitt á meðal þeirra; var hún
auðþekkt á limaburði sínum. Hélt hún að konungurinn frá
Samarkand hefði farið á veiðarnar líka, gekk því hvergi smeik
inn undir gluggana, þar sem hann sat og var að horfa á
alltsaman óséður. Sá hann þá að fylgidrósir drottningar, til
þess að allt væri sem frjálslegast, tóku af sér
andlitsblæjurnar og fóru úr hinum síðu klæðum, sem voru utan
yfir stuttklæðunum og drógust á eftir. En hreint varð hann
hissa, er hann sá tíu kolsvarta þræla í þessum söfnuði, þar
sem hann hélt að væru tómar konur.
Hver þræll kaus sér lagskonu og drottningin sat ekki heldur
hjá; hún skellti saman lófunum og kallaði: „Masúð! Masúð!“ og
í sama vetfangi stökk svertingi einn ofan úr tré, hljóp í
fangið á drottningu og vafði hana að sér með flýruskap. Eins
gerði hitt fólkið hvað eftir annað og var þar með kjassi og
blíðulátum fram á miðnætti; því næst baðaði það sig í stórri
laugardæld, sem var einhver hin mesta prýði aldingarðsins,
fór aftur í fötin og svo inn í höllina um leynidyrnar. En
Masúð var kominn að utan yfir garðsvegginn og fór sama veg
burt.
Af því nú að konungurinn frá Samarkand sá þetta með eigin augum, varð hann næsta hugsandi. „Það veit Allah“, segir hann við sjálfan sig, „að það var rangt af mér, að gera svo mikið úr óláni mínu; þetta liggur svo fyrir öllum einhvern tíma, fyrst soldáninn hann bróðir minn kemst ekki hjá því, sem er voldugastur konungur í heimi. En hvílíkur aumingjaháttur er það, að láta þetta ganga svo nærri sér? Ég skal ekki gera mér lífið svo þungbært fyrir þetta slys, sem er svo almennt.“
Hann setti það ekki heldur stundu lengur fyrir sig, og lét nú
bera á borð fyrir sig, því ekki vildi hann eta kvöldverð
meðan að fram fór leikurinn fyrir utan gluggann hjá honum.
Borðaði hann nú með betri lyst en nokkurn tíma fyrr, síðan
hann fór frá Samarkand, og hlýddi jafnvel með ánægju á
sönginn og hljóðfærasláttinn yfir borðum. Var hann í bezta
skapi næstu dagana eftir þetta, og er hann heyrði, að soldán
væri heim kominn, gekk hann á móti honum með glöðu yfirbragði
og heilsaði honum.
Sjarjar tók ekki í fyrstu eftir þessum umskiptum og ætlaði að
eins að kvarta yfir því við bróður sinn í allri vinsemd, að
hann hefði ekki farið með sér á veiðarnar, lét hann því ekki
ná að tala, en fór að segja honum, hvílíkan fjölda hann hefði
drepið, bæði af hjörtum og öðrum dýrum og hvað vel hann hefði
skemmt sér. Sjasenan hlýddi á með athygli og tók svo loksins
sjálfur til máls; voru honum nú ekki skapþyngslin að meini og
sagði hann margt kýmilegt og skrítið, því hann var vel
fyrirkallaður.
Hafði soldán búizt við að hitta hann í sama skapi og þegar
þeir kvöddust og varð sárfeginn að sjá hann svo glaðan.
„Bróðir minn!“ segir hann, „þegar við skildum, varstu bleikur
í andliti, en nú hefurðu fengið fullkominn heilbrigðislit.
Guði sé lof fyrir þessa breytingu, sem orðið hefur í fjarveru
minni. En einnar bænar verð ég að biðja þig og ég særi þig að
veita mér hana.“
„Hvers ætti ég að synja þér“, segir konungurinn frá
Samarkand, „þú átt yfir Sjasenan að segja; seg þú til, mér er
ótt um að heyra bæn þína.“
„Alltaf meðan þú hefur dvalið hér við hirðina“, segir
Sjarjar, „hefurðu verið þjáður af megnu þunglyndi og
leitaðist ég við að hafa það af þér með allskonar skemmtunum.
Ég gerði mér í grun, að þér félli þungt að dvelja fjarvistum
úr landi þínu og jafnframt mundu ástir valda nokkru og það
væri aðalorsök trega þíns, að þú saknaðir drottningarinnar í
Samarkand, því þú munt hafa kosið þér hana afbragðs fríða.
Veit ég að vísu ekki, hvort ég á kollgátuna, en því hef ég
ekki viljað ganga á þig, að ég var hræddur um að þér kynni að
þykja fyrir. En nú sé ég, nýkominn heim frá veiðunum, að þú
leikur við hvern þinn fingur og hef ég þó ekkert stuðlað til
þess. Ég ætla því að biðja þig að segja mér, hvers vegna þú
varst svo hryggur og ert það nú ekki framar.“
Konungurinn frá Samarkand þagði nokkra stund hugsandi, eins
og hann vissi ekki, hverju svara skyldi; loksins tók hann
þannig til orða: „Þú ert soldán minn og herra, en hlífðu mér
við að gera grein fyrir þessu.“
„Nei, bróðir minn!“ svarar soldán, „þú verður að gera það nú
þegar, það er ósk mín, þú mátt ekki neita mér um hana.“
„Jæja þá,“ segir Sjasenan, sem gat nú ekki lengur staðið af
sér beiðni bróður síns; „verði þá þinn vilji!“
Því næst sagði hann honum frá ótryggð drottningarinnar í
Samarkand og lauk svo sögunni: „Þetta olli þunglyndi mínu;
var mér láandi þó ég bugaðist af því?“
„Skelfileg saga er þetta, bróðir minn!“ kallaði soldán upp og
var auðheyrt að hann samhryggðist af hjarta. „Ég lofa þig
fyrir refsinguna á þeim, sem glæpinn drýgðu og misgerðu svo
stórlega við þig. Það ætti enginn að lá þér; það var aldrei
nema maklegt og hefði ég líklega haft minni stillingu í þínum
sporum; ég hefði ekki látið mér nægja líf einnar konu, og
hefði ég ef til vill drepið þúsund til hefndar. Nú þykir mér
engin furða þó illa lægi á þér, fyrst tildrögin voru svona
sárgrætileg. Drottinn minn, hvílík forlög! ég trúi því ekki,
að neinum hafi viljað slíkt ólán til, nema þér. En lofaður
veri guð, að hann hefur sent þér huggun; mun hún víst af
einhverju góðu getin og ætla ég að biðja þig að trúa mér
fyrir því líka.“
Var Sjasenan tregur til þess, því bróður hans var málið
skylt, en varð þó að láta eftir þrábeiðni hans. „Ég hlýði,
fyrst það er eindreginn vilji þinn,“ sagði hann, „en hræddur
er ég um að auðsveipni mín geri þér enn meiri skapraun en mín
var. En þú verður að eiga það upp á sjálfan þig, fyrst þú
neyðir mig til að koma því upp, sem ég ella mundi leynt hafa
með eilífri þagmælsku.“
„Þú gerir ekki annað en æsa forvitni mína,“ greip Sjarjar fram í, „segðu mér sem fljótast þetta launungarmál, hvernig svo sem það er.“
Konungurinn frá Samarkand gat nú ekki færzt lengur undan og
sagði honum allt út í hörgul, sem hann hafði séð til
svertingjanna dulklæddu og drottningarinnar og hans Masúðs í
aldingarðinum og lauk hann sögunni með þessum orðum: „Þegar
ég hafði verið sjónarvottur að þessari svívirðingu,
sannfærðist ég um það, að allar konur hafa þessa tilhneigingu
af náttúrunni og geta ekki staðið á móti henni. Fannst mér þá
heimska að láta hugarró sína vera komna undir trúleika
þeirra. Hugsaði ég mál þetta enn betur og varð sú
niðurstaðan, að ég sá ekki annað vænna en að huggast; það var
reyndar ekki tekið út með sældinni, en samt heppnaðist mér
það og vildi ég að þú gerðir að mínu dæmi.“
Ekki leizt soldáni á heilræði þetta, heldur varð hann
hamslaus og mælti: „Drottningin á Indlandi gat þá haft svo
fúlan níðingsskap í frammi; nei, bróðir minn! ég trúi því
ekki nema ég sjái það með mínum eigin augum; þér hefur
missýnzt og þetta er svo mikið vandamál, að ég verð að ganga
úr öllum skugga um það.“
„Hægast er það,“ segir Sjasenan, „þú þarft ekki annað en að
búast til nýrrar veiðiferðar og þegar við erum komnir út úr
borginni með hirð okkar og fylgdarliði, látum við fyrirberast
í tjöldum okkar, förum svo þegar nátta tekur einsamlir til
herbergja minna í höllinni, og skal ég ábyrgjast, að þú næsta
dag sér það, sem ég sá.“
Soldán féllst á vélræðið og bauð mönnum að búast til nýrrar
veiðifarar; var á tilteknum tíma búið að tjalda á
fyrirskipuðum tjaldstað. Daginn eftir fóru báðir konungarnir
þangað út úr borginni með föruneyti sínu og voru þar um
nóttina. Kallaði Sjarjar á stórvezírinn og bauð honum að vera
í sinn stað, meðan hann væri í burtu, og sleppa engum manni
úr tjöldunum, hvað sem fyrir væri borið, en ekkert lét hann
uppi við hann um áform sitt. Stigu síðan báðir konungarnir á
bak og riðu innan um tjöldin í dularbúningi heim í borgina.
Fóru þeir síðan til hallarinnar, sem Sjasenan hafði til
íbúðar, og lögðust þar til svefns; um morguninn lá vel á þeim
og settust þeir við gluggann, þar sem Sjasenan hafði séð
aðfarirnar í aldingarðinum. Sátu þeir þar góða stund í
morgunkælunni og ræddust við; varð þeim oft litið á meðan til
leynidyranna á höllinni.
Loksins lukust þær upp, og gekk út drottningin með ambáttum
sínum og tíu svertingjum dulklæddum, rétt eins og í fyrra
skiptið. Hún kallaði á Masúð og er óþarfi að orðlengja það
frekara, að soldán sá meira en nóg til þess, að hann
sannfærðist um svívirðingu sína og ólán.
„Guð minn!“ kallaði hann upp, „hvílíkur níðingsskapur, hvílík
andstyggð. Að drottning slíks konungs, sem ég er, skuli geta
haft sig til slíkrar endemis óhæfu! Hver konungur getur talið
sig fullsælan, þegar annað eins hefur drifið á daga hans?
Bróðir minn, segjum skilið við veröldina, því öll æra og trú
er þaðan horfin. Smjaðri hún á brjóst, þá svíkur hún á bak.
Fyrirlátum ríki og konungdóm, köstum okkur á bak öllum
hégóma, sem við lifum í, og förum í önnur lönd til þess að
leyna sjálfum okkur og óláni okkar.“
Sjasenan geðjaðist reyndar ekki að áformi þessu, en þorði
ekki í móti að mæla; svo var bróðir hans óður. „Ég veit engan
vilja annan en þinn, bróðir!“ anzaði hann soldáninum, „og ég
er reiðubúinn að fylgja þér í öllu. En lofaðu mér því að snúa
heim á leið aftur, þegar við finnum einn, sem ólánssamari er
en við.“
„Því lofa ég,“ segir soldán, „ég efast um að það heppnist.“
„Þá er ég annarrar trúar,“ segir konungurinn frá Samarkand,
„og þurfum við, ef til vill, ekki að fara svo langt.“
Fóru þeir nú úr höllinni með leynd og voru að tala um þetta
og fóru aðra leið en þeir voru komnir. Héldu þeir áfram meðan
bjart var, og voru fyrstu nóttina undir trjám nokkrum. Stóðu
þeir upp í aftureldingu og fóru eftir sama vegi, þangað til
þeir komu á fagurt engi fram með sjávarströnd; stóðu þar
stöku tré mikil og þéttlaufguð. Settust þeir niður undir einu
þeirra og voru að tala saman um ótryggð drottninga sinna.
Höfðu þeir þar skamma stund setið, þegar þeir heyrðu af hafi,
ekki allfjarri, óttalega skruðninga og hræðilegt öskur, og
urðu þeir við það mjög felmtsfullir. Sjórinn klofnaði í
sundur og reis þar upp ógurlega stór strókur kolsvartur, og
svo hár, að hann tók til himins. Við sjón þessa brá þeim enn
meira og spruttu þeir þá upp og klifruðust upp í trétoppinn;
leizt þeim þar vera bezt fylgsni. Varla voru þeir komnir upp
þangað, þegar þeir sáu, að strókurinn færðist inn að landi
eftir sjónum; gátu þeir ennþá ekki skynjað, hvers kyns var,
en urðu þess brátt vísari, því þar var kominn einn af öndum
þeim, sem fullir eru af ergi og skelmisskap, og eru svarnir
óvinir mannanna. Var hann í líki óskaplegs risa, svartur og
afskræmislegur og bar á höfðinu stóra glerkistu læsta með
fjórum stállásum. Fór hann með hana upp á engið og lagði hana
niður við tréð, sem báðir konungarnir höfðu falið sig í;
þóttust þeir nú sjá sér opinn dauðann vísan.
Andinn settist hjá glerkistunni og er hann hafði lokið henni upp með fjórum lyklum, sem héngu við belti hans, þá kom upp úr henni hlaðbúin kona tignarleg í vexti og forkunnar fríð. Setti óvætturinn hana við hlið sér og tók til orða: „Ó, þú hin algjörvasta meðal allra kvenna, sem aðdáanlegar þykja fyrir fríðleiks sakir, yndislega vera, þig strauk ég með á heiðursdegi þínum og hef síðan trúlega elskað; viltu lofa mér að sofa hjá þér ofurlitla stund?“
Að því mæltu drap andinn sínum tröllslega hausi niður í
kjöltu konunnar og teygði úr sér sem hann var langur til, svo
að fæturnir tóku ofan í sjávarmál, og rétt samstundis tók
hann að hrjóta svo gríðarlega að allt ætlaði ofan að keyra.
Þá vildi svo til að konan fagra leit upp fyrir sig, og óðara
en hún varð vör við báða bræðurna uppi í trénu, gerði hún
þeim bendingu, að þeir mættu koma ofan, en skyldu fara sem
hljóðlegast. Datt þeim heldur en ekki ketill í eld, er þeir
sáu sig fundna; bentu því með bænarsvip, að þeir mættu vera
kyrrir í fylgsninu.
En konan lagði höfuðið á andanum varlega niður á jörðina,
stóð upp og mælti í hljóði, en þó reiðilega: „Komið þið ofan
til mín; ekki er annað vænna.“
Þeir gerðu henni hræðslu sína skiljanlega með bendingum, en
það hjálpaði ekki hót.
„Komið þið,“ sagði hún enn á ný, „og ef þið ekki gegnið þegar
í stað, þá skal ég vekja hann sjálf og láta hann drepa
ykkur.“
Þegar bræðurnir heyrðu þessi ógnunaryrði, þorðu þeir ekki annað en hlýða og renndu sér ofan sem gætilegast, svo andinn skyldi ekki vakna. En er þeir voru komnir ofan, leiddi konan þá við hönd sér á einn afvikinn stað undir trjánum; þar bauð hún þeim ástaratlot sín með blíðu, en er þeir vildu ekki til leiðast, hótaði hún þeim á ný; sáu þeir ekki annað sýnna en að gefa sig.
Þegar góð stund var liðin og hún ætlaði til andans aftur,
heimtaði hún innsiglishringana af konungunum, sem þeir höfðu
á hendinni, og er hún hafði tekið við þeim, tók hún upp úr
skríni sínu snúru eina alsetta margvíslegum hringum og sýndi
þeim og spurði, hvort þeir vissu, hvað hringarnir ættu að
þýða.
„Nei,“ sögðu bræðurnir, „þú munt bezt geta leyst úr því
sjálf.“
Þá mælti hún: „Allir þessir hringar eru af karlmönnum, sem
hafa hjálpað mér til að leika á gætni og varhyggð þessa
viðbjóðslega anda. Ég geymi hringana til menja og hérna eru
þeir níutíu og átta, og bað ég um hringana ykkar til að fylla
hundraðið. Svona hefur mér tekizt að hafa samfarir við
hundrað karlmenn og andinn ekki fengið aðgert. Má hann upp á
það að gera, læsa mig niður í glerkistuna eins og honum líkar
og hylja mig á mararbotni; aldrei hætti ég að fara í kringum
hann. Af þessu getið þið séð fram á, að enginn kvongaður
maður eða elskhugi þarf að hugsa til að tálma því, sem
kvenmaður hefur tekið í sig. Karlmönnunum væri nær að gefa
kvenfólkinu lausari tauminn; þá kynni það heldur að lagast.“
Að svo mæltu smeygði konan hringunum upp á snúruna, settist í
sitt fyrra sæti og hóf upp í kjöltu sína höfuðið á andanum,
sem hraut í fasta svefni, en konungunum benti hún að hafa sig
á burt.
Þeir fóru nú sama veg og þeir voru komnir, og er andinn og
fallega konan voru komin í hvarf, mælti Sjarjar: „Nú, nú,
bróðir! hvernig lízt þér á ævintýrið að tarna? Er hún ekki
einstakt tryggðablóð, konan andans þess arna? Geturðu borið á
móti því, að ekkert kemst til jafns við kvennavélar?“
„Það er nú mála sannast, bróðir minn!“ anzaði konungurinn frá Samarkand. „Þú verður líka að vera mér samdóma um það,“ mælti soldán ennfremur, „að andinn er enn þá verr farinn og brjóstumkennanlegri en við. Höfum við nú fundið það, sem við leituðum að; látum okkur því halda heim í lönd okkar og þessa reynslu ekki aftra okkur frá nýju kvonfangi. Ég veit fyrir mig, hvernig ég skal fara að koma í veg fyrir tryggðarof við mig. Skal ég ekki eyða að því fleirum orðum, en þú munt spyrja það einhvern tíma og skal ég ábyrgjast, að þú gerir að mínu dæmi.“
Héldu þeir nú báðir heimleiðis og komu aftur á tjaldstaðinn
að áliðinni nótt hins þriðja dags, síðan þeir fóru. En er
koma soldáns spurðist, gengu hirðmennirnir fyrir tjald hans
með morgunsárinu. Hann bauð þeim inn að ganga, fagnaði þeim
venju betur og sæmdi alla gjöfum. En er hann hafði kunngjört,
að hann ætlaði ekki lengra að fara, bauð hann mönnum að stíga
á bak, og hvarf í skyndi til hallar sinnar.
Þegar þangað var komið, flýtti hann sér til herbergis
drottningarinnar, lét setja hana í fjötra og binda fyrir augu
henni, fékk hana síðan vezírnum og skipaði honum að láta
kyrkja hana. Hlýddi vezírinn því og spurði ekki að, hvað hún
hefði misgert; en soldán var svo óður, að hann lét sér ekki
þetta nægja, heldur hjó hann sjálfur höfuðið af öllum
hirðmeyjum drottningarinnar.
Af því hann nú þóttist sannfærður um, að engin kona væri
skírlíf til, þá ásetti hann sér eftir þessa grimmilegu
refsingu að kvongast þaðan í frá einungis til einnar nætur og
koma í veg fyrir allan ótrúleik með því að láta kyrkja hverja
konu morguninn eftir brúðkaupið. Hann sór þess dýran eið, að
láta lög þessi ganga í gildi þegar kóngurinn frá Samarkand
væri farinn; var þess ekki langt að bíða, að hann fór heim
sæmdur hinum dýrustu gjöfum.
En er hann var farinn, bauð Sjarjar stórvezírnum að færa sér
dóttur einhvers herforingja sinna, og skyldi hún verða kona
hans. Vezírinn hlýddi.
Morguninn eftir skilaði soldán honum henni aftur og skipaði
honum að lífláta hana og leita upp aðra konu handa sér til
næstu nætur. Hvað mikið sem vezírinn hryllti við að framkvæma
slíkt boð, var honum samt nauðugur einn kostur að hlýða, því
hann var soldáninum herra sínum um blinda hlýðni skyldugur.
Færði hann honum því dóttur eins af hinum óæðri
embættismönnum og hlaut hún sömuleiðis að deyja morguninn
eftir. Því næst kom dóttir eins borgara, og hver dagurinn sá
eina nýgifta og eina líflátna.
Þegar þessi guðlausa grimmd spurðist um höfuðborgina, urðu allir dauðhræddir og heyrðust ekki nema hljóð og harmalæti. Ýmist harmaði einhver faðirinn missi dóttur sinnar, eða ástrík móðir stundi af kvíða, að sama lægi fyrir dóttur sinni. Og þar kom, að allir þegnar soldáns bölvuðu honum, sem áður hafði hlotið tóma sæmd og sigur.
Nú átti stórvezírinn, sem var nauðugt verkfæri í hendi
óréttvísinnar, tvær dætur; hét hin eldri Sjerasade, en hin
yngri Dínarsade. Hafði hin yngri að vísu marga góða kosti til
að bera, en hin var gædd þeirri hugprýði, sem fágæt er með
konum, frábærum vitsmunum og aðdáanlegri dómgreind. Hafði hún
lesið margs konar bækur, fullar af sögum fyrri konunga og
kynslóða og dregið að sér eitthvað þúsund bindi af þess kyns
ritum og kvæðabókum. Hún orti betri vísur en þjóðfrægustu
skáld á hennar tíma, hafði hún og stundað heimspeki og
lækningar og heppnazt vel. Auk þess var hún stálminninug og
gleymdi engu, sem hún hafði lesið einu sinni; en óbifandi
kvendyggð var eins og kóróna allra hennar afbragðs kosta.
Vezírinn unni þessari ágætu dóttur sinni hugástum. Það var
einhverju sinni að hún sat á tali við hann og sagði: „Hvað
kemur til þess, faðir minn, að þú ert orðinn svo umbreyttur,
svo gugginn og sorgbitinn? Svo segir þó eitt af skáldunum
okkar:
- „Hugga þann sem hryggðin sker,
- hún ei stendur lengi;
- kvíðinn hverfull allt eins er,
- og ánægjunnar gengi.“
Þá sagði vezírinn henni upp alla söguna af viðskiptum þeirra
soldáns, en hún mælti:
„Faðir minn, ég ætla í allri auðmýkt að biðja þig, að veita
mér mildilegast eina bæn.“
„Ég skal ekki synja þér hennar,“ segir vezírinn, en rétt og
skynsamleg verður hún sjálfsagt að vera.“
„Hana þá, faðir minn“, segir hún, „gefðu mig soldáninum til
eiginkonu; verð ég þá eitt af tvennu líflátin og frelsa svo
að minnsta kosti dóttur einhvers rétttrúaðs manns frá dauða,
eða mér verður lífs auðið og tekst að leysa allar aðrar undan
grimmd hans.“
Vezírinn greip fram í óttasleginn: „Guð hjálpi mér, þú ert
gengin frá vitinu barn! getur þú beðið mig að stofna þér í
slíkan háska, þegar þú veizt, að soldáninn hefur svarið, að
hafa enga konu nóttu lengur, heldur láta drepa þær að morgni
í hvert skipti? Hefurðu gleymt því, hvað leitt getur af svo
fjarskalegu flasi?“
„Faðir minn!“ anzaði hin veglynda mær, ekki er ég í neinum
vafa um háskann, en hitt er það, að ég hræðist hann ekki.
Deyi ég, þá dey ég við sæmd, og hafi ég mitt fram, þá geri ég
landi voru mikinn velgjörning.“
„Nei, nei,“ mælti vezírinn, „hvernig sem þú leitast við að fá
mig til að fallast á það, að þú hleypir þér út í slíkan voða,
þá er það ekki til neins, ég samþykki það aldrei. Ef soldán
skipaði mér að reka hnífinn í hjarta þitt, yrði ég að hlýða.
Hvílíkt skelfilegt verk er annað eins fyrir þann, sem er
faðir! Þó þú sjálf ekki hræðist dauða þinn, þá hlífstu samt
við að gera mér þá dauðans skapraun að flekka hendur mínar á
blóði þínu.“
Allt fyrir þetta ítrekaði Sjerasade bæn sína og mælti þá
vezírinn: „Þú egnir mig til reiði með þrái þínu. Því viltu
hrapa viljandi í ógæfuna? Sá, sem ekki sér fyrir endann á
háskalegri fyrirtekt, hann má vara sig, að hún verði honum
ekki um megn. Ég er hræddur um, að það fari fyrir þér eins og
asnanum, sem átti góða daga, en þoldi það ekki.“
„Og hvaða slys henti asnann? spurði Sjerasade.
„Nú skaltu heyra“, mælti vezírinn og sagði eftirfylgjandi
dæmisögu: