Þúsund og ein nótt/Mamúð soldán og vezír hans

Einu sinni kom munkur til Khas-Ayas, sem var vezír Mamúðs soldáns og réði miklu, og beiddi hann að útvega sér féstyrk hjá soldáni. Vezírinn kvaðst fús á það, en setti honum þann kost, að hann yrði að lofa soldáninum því, að kenna sér, vezírnum, að skilja fuglamál. Munkurinn lofaði soldáninum þessu, líklega með því skilyrði að efna það, þegar hann sjálfur skildi fuglamál, og gaf soldán honum þá þrjú hundruð gullpeninga í laun á mánuði.

En er nokkur tími var liðinn, mundi soldán eftir þessu á veiðum, kallaði á vezírinn og spurði, hvort hann væri búinn að nema svo mikið af munkinum, að hann gæti sagt sér, hvað tvær uglur væru að tala um, sem sátu á tveimur trjám þar hjá. Og er vezírinn sagði svo vera, skipaði hann honum að hlusta á fuglana og segja sér svo, hvað hann hefði heyrt.

Vezírinn gekk undir trén, var þar dálitla stund og hlýddi á með athygli. Síðan kom hann aftur til soldáns áhyggjufullur í yfirbragði og mælti: „Herra! Ég hef heyrt nokkuð af samtali þessara fugla, en ég bið yður fyrir alla muni að hlífa mér við að segja frá því.“

„Því viltu ekki segja mér það?“ spurði soldán.

„Herra! Uglurnar voru að tala um yðar hátign,“ anzaði vezírinn.

Soldáninn varð því forvitnari, sem von var, og mælti: „Hvað gátu þær sagt um mig? Ég skipa þér, segðu mér orð fyrir orð hvað þú hefur heyrt.“

„Herra! Ég heyri og hlýði,“ segir Khas-Ayas. „Uglurnar voru að tala um börn sín, son og dóttur, sem þær ætluðu að láta eigast.

„Mér líkar ráðahagurinn vel,“ sagði faðir sonarins við föður dótturinnar, ef þú lætur fimm hundruð eydda staði fylgja brúðurinni í heimanmund.“

„Biðurðu ekki um meira?“ anzaði faðir dótturinnar, „ég skyldi gjarnan gefa henni þúsund í staðinn fyrir þau fimm hundruð, sem þú heimtar. Guð gefi Mamúð soldáni langa og farsæla lífdaga. Meðan hann er konungur í Persíu verður varla ekla á eyðistöðum.“

Soldán skildi fljótt, hvað þessi viturlega dæmisaga ætti að þýða, sem vezírinn sagði honum. Upp frá því hafði hann allan hugann á að byggja upp eydda staði og lét sér um ekkert annað hugað en að gera þegna sína farsæla. Hafa orðstír og ágætisverk konungs þessa verið uppi síðan, lofuð og vegsömuð, sem þau eru enn í dag.“

„Vertu því ekki lengur á báðum áttum,“ mælti Kansade enn fremur, „því hverflyndið hlýtur aldrei sæmd, og ég hef fært þér nægilegar sönnur á, að taka verður son þinn af lífi.“

Soldán lofaði, að það skyldi gert verða morguninn eftir.

Daginn eftir kom Sindbað soldán í áheyrnarsalinn og skipaði böðlinum og mælti: „Sæktu son minn undir eins og höggðu af honum höfuðið.“

„Ó, þú konungur veraldarinnar,“ kallaði þá upp fjórði vezírinn og fleygði sér niður fyrir fótskör hásætisins, „allir vezírar þínir, þínir tryggu þjónar særa þig, að fresta aftöku sonar þíns þangað til þú ert búinn að heyra söguna af spekingnum Padmanaba. Yðar hátign kynni að snúast hugur, ef yður þóknaðist að hlýða á hana með athygli.“

„Ég leyfi þér að segja hana,“ anzaði soldán, „en allt fyrir það mun ég á síðan láta drepa son minn“....