Þúsund og ein nótt/Páfagaukur konungur

34. nótt breyta

„Konungur nokkur á Indlandi hafði numið töfraþulu af munki einum; gat hann fyrir kraft hennar farið úr líkama sínum og brugðizt í dýra líkami. Hafði hann reynt fjölkynngi þessa margsinnis og einu sinni, þegar hann var á veiðum með einum vezíra sinna, vildi hann sýna honum kunnáttu sína, las þuluna, og fór í dauðan hjört. Varð vezírinn hlessa, að sjá líkama konungs hníga niður, og hjörtinn fá líf aftur og stökkva með fullu fjöri.

Þegar konungur hafði breytzt aftur í sína náttúrlegu mynd, beiddi vezírinn hann fyrir alla muni að kenna sér þessa ágætu þulu, og varð konunginum það glappæði, að kenna vezírnum hana.

Nokkru síðar benti vezírinn konungi á dauðan páfagauk, sem lá undir tré einu, spottakorn frá höllinni; spurði hann konung um leið, hvort maður gæti líka brugðizt í fugls ham fyrir kraft töfraþulunnar. Kvað konungur já við, og því til sönnunar lífgaði hann páfagaukinn og flaug upp í tré.

En óðara neytti vezírinn fjölkynnginnar, fór í líkama konungs, sem hann hafði skilið við, en í sinn líkama setti hann sál úr þræl nokkrum. Má nærri geta, hvort konungi hefur ekki orðið gramt í geði, þegar hann sá hvernig vezírinn hafði leikið á sig. Flaug hann því þaðan burt, en vezírinn gekk í stað konungs, bæði í hásætinu og kvennabúrinu og hvarvetna annarsstaðar.

Var nú konungur lengi á flakki í páfagauks haminum, þangað til hann einu sinni flaug inn í hús til garðyrkjumanns nokkurs, lét handsama sig viljandi, og loka inn í búr; var hann síðan borinn til markaðar og boðinn til kaups. Hafði hann svo liðugt tungutak og var svo hnyttinn í svörum, að allir stórundruðust og hækkaði hann þangað til í verði, að enginn gat keypt, nema drottning. Lét hún þá kaupa hann og var farið með hann í kvennabúrið, og var hann settur í svefnherbergi drottningar. Ískraði oft í honum reiðin, þegar hann sá úr búrinu, hvernig drottinssvikarinn gekk út og inn um herbergi drottningar í líki hans.

Einn morgun var vezírinn að ræða við drottninguna um fjölkynngi, og kvaðst geta brugðizt í hvaða dýrshræ sem væri. Drottning sagði sig dauðlangaði til að horfa á slík hambrigði, og beiddi hann að sýna sér það til skemmtunar. Lét þá vezírinn sækja dauða gæs, fór úr líkama konungs og lífgaði gæsina. Þá sá konungur sig ekki úr færi, heldur fór hann úr páfagauknum, og hvarf aftur í sinn eigin líkama, þreif um hálsinn á gæsinni og rotaði hana við vegginn.

Varð drottning hrædd og spurði, því hann reiddist svo, en því verður ekki með orðum lýst, hvað hún furðaði sig og fyrirvarð, þegar hún heyrði konung sjálfan segja frá óláni sínu og hennar.

„En þú,“ mælti Kansade að lyktum, „ættir að sjá af þessu, hvað vezírunum er treystandi.“

Herjaði hún á konung, þangað til hann lofaði henni statt og stöðugt, að láta taka son sinn af lífi daginn eftir.“


35. nótt breyta

„Herra!“ tók drottning til máls, um það leyti sem nótt var á enda, „þegar Sindbað konungur ætlaði að drepa Núrgehan morguninn eftir, fékk einn af vezírunum hann til að veita áheyrn orðum sínum um kvennasvik, og jafnvel leyfi til að segja honum þessa sögu eins og dæmi: