Þúsund og ein nótt/Sagan af öðrum karlinum og báðum svörtu hundunum

„Þú skalt þá vita, mikli höfðingi andanna, að báðir þessir svörtu hundar eru bræður mínir. Faðir okkar lét hverjum okkar eitthvað þúsund sekkínur eftir sig. Völdum við okkur allir sama atvinnuveg og gerðumst kaupmenn. Undir eins og ég hafði opnað sölubúð mína, réði eldri bróðir minn, annar hundurinn þarna, það af, að ferðast til annarra landa í verzlunarerindum. Keypti hann fyrir aleigu sína þann varning, sem honum var hentastur, og lagði af stað.

Þegar liðið var heilt ár frá því hann fór, var það einn dag, að þurfamaður nálægði sig sölubúð minni og virtist biðja ölmusu.

Sagði ég þá við hann: „Guð blessi þig!“ og svaraði hann:

„Guð blessi þig líka! hvernig stendur á því, að þú kannast ekki við mig?“

Virti ég hann þá betur fyrir mér og kannaðist við hann; „bróðir minn!“ kallaði ég upp og hljóp um háls honum, „hvernig átti ég að þekkja þig, þegar þú varst svona til fara?“

Fór ég síðan með hann í hús mitt og spurði, hvernig honum liði og hvernig honum hefði heppnazt. „Æ, vertu ekki að spyrja að því“, segir hann, „þú þarft ekki annað en að líta á mig, þá veiztu allt. Það væri ekki til annars en að ýfa upp raunir mínar, ætti ég að rekja upp öll þau slys, sem mig hafa hent á þessu ári, og komið mér í það ástand, sem ég er í núna.“

Lét ég jafnskjótt loka búðinni, og gleymdi öllu öðru en bágindum hans; fylgdi ég honum til laugar og gaf honum beztu fötin mín. Síðan tók ég verzlunarbækur mínar og reiknaði út gróða minn á hinu umliðna ári. Sá ég þá, að fjármunir mínir höfðu vaxið um helming, og að ég átti tvö þúsund sekkínur.

Gaf ég honum þá helminginn og sagði: „Bróðir minn! með þessu geturðu unnið upp tjón þitt.“

Hann tók fegins hendi við sekkínunum, byrjaði aftur að verzla og vorum við saman eins og áður. Nokkru eftir þetta tók hinn bróðir minn upp á því að selja eign sína, og var okkur lífs ómögulegt að telja hann af því. Fyrir peninga þá, sem honum guldust fyrir hana, keypti hann sér vörur til að verzla með erlendis, því hann ætlaði sér að stunda þess konar verzlun, og fór hann af stað með kaupmanna lest einni.

Að ári liðnu kom hann aftur, eins til reika og eldri bróðir minn. Lét ég þá líka klæða hann, og hafði ég grætt aðrar þúsund sekkínur, og gaf honum. Fékk hann sér þá aftur sölubúð og hélt áfram að verzla.

Það var einn dag, að báðir bræður mínir komu til mín og slógu upp á því við mig, að ég færi með þeim í kaupferð. Í fyrstunni tók ég því fjarri.

„Þið hafið ferðazt,“ sagði ég, „og hvað hafið þið grætt? Hver ábyrgist mér að ég fari betri för?“

Var það ekki til neins, að þeir voru að leiða mér fyrir sjónir það sem þeir héldu, að helzt gæti glapið mig og ginnt til að eiga undir heppninni; ég skoraðist undan allri hlutdeild í fyrirætlun þeirra. En þeir nauðuðu svo óaflátanlega á mér, og linntu ekki látum fyrr en ég lét til leiðast, og hafði þá hafnað ráði þeirra í fimm ár. En er við vorum ferðbúnir, og kaupa átti varning þann, er þörf var fyrir, þá kom það upp úr kafinu, að hvorugur átti nú neitt eftir af þúsund sekkínunum, sem ég hafði gefið hvorum þeirra.

Veitti ég þeim samt engar átölur fyrir þetta, en þá átti ég sex þúsundir sekkína; tók ég helminginn af þeim, og gaf þeim hverjum sinn part, svo mælandi: „Bræður mínir! meiru en þessum þremur þúsundum sekkína megum við ekki hætta, en hinar þrjár þúsundirnar verðum við að fela á vísum stað, svo við megum huggast og taka upp vora fyrri iðn, ef þessi ferð fer ekki betur en ykkar fór.“

Fékk ég þeim þá, hvorum um sig eina þúsund sekkína, en hinar þrjár þúsundirnar gróf ég niður í skúmaskoti einu í húsi mínu. Því næst keyptum við vörur og tókum skip á leigu undir þær, og sigldum burt þegar byr gaf......


7. nótt

breyta

Þegar við höfðum verið mánuð á leiðinni, komumst við farsællega til hafnar; fórum við þar á land og flaug varningur okkar út. Einkum gekk svo vel út hjá mér að ég græddi tíu á einum. Keyptum við þarlendar afurðir í staðinn, til að flytja heim og verzla með þar.

En er við vorum tilbúnir að stíga á skipsfjöl og sigla heim, mætti ég á ströndinni konu einni, sem var næsta fagursköpuð, en mjög fátæklega til fara. Hún ávarpaði mig, kyssti á hönd mína og sárbændi mig, að eiga sig, og taka sig út á skipið. Taldi ég tormerki á því, en hún talaði svo mikið um fyrir mér, til þess að sannfæra mig um, að ég mætti ekki hneykslast á örbirgð sinni, og að ég mundi verða ánægður með hegðun hennar, svo að ég lét til leiðast. Lét ég gera handa henni sæmileg klæði, og er hún var orðin kona mín eftir löglegum kaupmála, létum við í haf.

Á leiðinni komst ég að raun um, að kona mín var svo ágætum mannkostum búin, að elska mín til hennar fór dagvaxandi. En báðir bræður mínir ólu hatur til mín, því þeir sáu ofsjónum yfir heppni minni. Kvað svo rammt að þessari blindni þeirra, að þeir sátu um líf mitt, og eina nótt, er við hjónin sváfum, tóku þeir okkur bæði og fleygðu okkur í sjóinn.

Undir eins og kona mín vaknaði, hristi hún sig og brást í álfkonu; megið þið af því vita fyrir víst, að hún drukknaði ekki. Ég hefði fortakslaust týnzt, en í sömu svipan og ég féll í sjóinn, tók hún mig upp, fór með mig til eyjar einnar og hvarf.

En er lýsti af degi, kom hún aftur og mælti: „Sjáðu nú, elskan mín, að ég hef ekki launað illa velgjörðir þínar, þar sem ég bjargaði lífi þínu. Skaltu vita að ég er álfkona, og fyrst þegar ég sá þig á sjávarströndinni, hneigðist hugur minn frá guði til þín, því ég er líka rétttrúuð. Kom ég til þín í dularbúningnum, eins og þú manst, til þess að freista hjartagæzku þinnar. Hefur þér farizt drengilega við mig, og er ég fegin að geta sýnt þér þakklátssemi mína. En ég er afarreið við bræður þína, og getur ekkert fullnægt mér nema líflát þeirra.“

Þegar ég heyrði þetta undraðist ég stórlega, og þakkaði álfkonunni, sem ég bezt gat, fyrir hinn mikla velgjörning, er hún hafði auðsýnt mér; en þessu bætti ég við: „Ég verð að biðja þig að fyrirgefa bræðrum mínum. Svo miklar orsakir, sem ég hef til að kvarta undan þeim, er ég þó ekki svo grimmur, að óska þeim líftjóns.“

Því næst sagði ég henni frá, hversu ég hefði greitt fyrir þeim, en það var ekki til annars en að æsa reiði hennar. „Ég verð að leita upp þessa vanþakklátu bófa,“ mælti hún, „þessa svikara, og hefna á þeim tafarlaust. Ég skal sökkva skipinu undir þeim og steypa þeim sjálfum niður á hafsbotn.“

„Nei, mín elskulega,“ mælti ég í móti, „gerðu það ekki fyrir guðs sakir, stilltu reiði þína. Það eru bræður mínir, og minnstu þess, að oss ber að launa illt með góðu.“

Lét álfkonan sér þetta segjast, en þá svipti hún mér í einu vetfangi frá eynni, og setti mig niður á hið flata þak á húsi mínu og hvarf aftur. Fór ég þá ofan, lauk upp dyrunum, og gróf upp aftur hinar þrjár þúsundir sekkína, sem ég hafði fólgið. Að því búnu fór ég að heimsækja nágranna mína; samfögnuðu þeir mér vegna heimkomu minnar; keypti ég því næst vörur, hóf aftur verzlun og opnaði sölubúð mína. En þegar ég kom heim um kvöldið, voru þar fyrir báðir svörtu hundarnir þarna, og komu á móti mér með auðmýktar látum.

Vissi ég ekki, hvað þetta átti að þýða, og furðaði mig á því, en ég varð þess skjótt vísari því álfkonan kom og sagði: „Undrastu ekki, þessir tveir hundar, sem hér eru komnir, það eru báðir bræður þínir.“

Varð ég óttasleginn við þessi orð, og spurði, fyrir hvern kraft þeir væru komnir í þetta ástand.

„Ég hef gert það,“ anzaði hún, „eður öllu fremur systir mín, sem ég fól það á hendur; sökkti hún skipi þeirra um leið. Þú misstir líka varning þinn, sem þar var á, en ég skal sjá svo um að þú verðir skaðlaus. En bræður þína hef ég lagt það á, að þeir verði í þessum álögum í tíu ár; eru þeir helzt til maklegir þessarar refsingar, vegna níðingsskapar síns.“

Þegar hún hafði enn fremur sagt mér til, hvar ég seinna meir gæti frétt til hennar, hvarf hún. Eru nú liðin tíu ár síðan, og er ég á leið til álfkonunnar. En þegar ég fór hér um, hitti ég kaupmanninn og hinn æruverðuga öldung þarna með hindina, og staldraði við hjá þeim. Veizt þú nú sögu mína, höfðingi andanna?“

Þannig lauk karlinn með svörtu hundana sögu sinni: „Þykir þér hún ekki vera einhver hin fáheyrilegasta?“

„Það er sannarlega undarleg saga“, svaraði andinn, „og afsala ég mér fyrir hana einum þriðjungi af lífi þessa kaupmanns.“

Tók þá þriðji karlinn jafnskjótt til máls og lagði að andanum með hina sömu bæn sem hinir fyrri, að hann gæfi kaupmanni upp þann þriðjung saka hans, sem eftir væri, ef sagan, sem hann ætlaði að segja honum, reyndist enn þá undarlegri en báðar hinar fyrri. Andinn lofaði því, og byrjaði karlinn á sögunni, og mælti: