Þúsund og ein nótt/Sagan af fiskimanninum og andanum

„Einu sinni, herra! var fiskimaður, aldraður og örsnauður; gat hann varla haft ofan af fyrir sér og sínum, og voru þó ekki á heimilinu, nema kona hans og þrjú börn. Allt fyrir það gerði hann sér að reglu, að kasta ekki út netinu oftar en fjórum sinnum á dag.

Það var einhverju sinni að hann fór ofan að sjávarströnd árdegis, eins og hann var vanur, og var þá tunglskin; fór hann þar úr fötunum og varpaði út neti sínu. En er hann síðan ætlaði að draga það á land, fann hann að það var heljarþungt og orkaði ekki að toga það upp úr sjónum. Rak hann því hæl niður í jörðina og batt við netstrenginn; síðan kafaði hann til grunns allt umhverfis netið, og dró það smám saman og ýtti undir, gat hann loks með herkjum komið því upp á ströndina. Var hann nú ekki lengi á sér að kanna aflann, en í stað fiska var þar ekki nema hræ eitt af asna.

En er hann sá það barst hann aumlega af, og mælti: „Tarna er hjákátleg veiði; hvergi er vald né máttur, nema hjá guði, hinum mikla og háleita,“ og hafði hann vísu þessa á munni:

„Þú, sem húmi og hættum í
hörðu sætir, láttu af því;
fyrir strit þér fær og raun
forsjón engin verkalaun!“

9. nótt breyta

Herra! Fiskimaðurinn, sem var sár og gramur út af því, hvað illa veiddist, tók nú úr netinu og bætti það, því víða hafði það slitnað af asna-hræinu, síðan kallaði hann: „Í guðs nafni!“ og kastaði út netinu.

Beið hann þangað til það var sokkið til botns og sjórinn kyrrðist aftur í kringum það; en er hann ætlaði að draga það upp aftur, fann hann að það var enn þyngra og rígfastara en í fyrra skiptið. Hélt hann nú fyrir víst, að það væri fullt af fiski. En þegar hann loksins hafði komið því upp á ströndina með mestu fyrirhöfn, sá hann ekkert í því, nema einn stóran vandlaup, fullan af sandi og leðju.

Við sjón þessa varð honum enn skapþyngra, og hafði hann þessar vísur skáldsins yfir í öngum sínum:

Heiptug forlög hættið mér svo hart að þjaka,
eða virðist ögn til slaka.
Hvorki stoðar heppni grand, né handa minna
að neinu gagni verður vinna.
Örðug varð mér aflaferð og engin notin,
lindin mín var þurr og þrotin.
Hví skal heimskra seggja sægur sólar njóta,
en vitrir dvöl í húmi hljóta

„Ég hef engan annan bjargræðis veg“, sagði veslimgs fiskimaðurinn, „og þrátt fyrir alla kostgæfni mína, get ég varla fullnægt hinum allra tilfinnanlegustu þörfum mínum og minna. En ég á engan rétt á að bera mig upp undan þér! Þú hefur gaman af að misþyrma hinum ráðvöndu og fela mikla menn í myrkrunum, en þú dregur taum hinna vondu og upphefur þá, sem enga verðleika hafa.“

Með þessum möglunaryrðum þeytti hann vandlaupnum til hliðar, og þvoði netið vandlega. Síðan bað hann guð fyrirgefa sér óþolinmæði sína, og kastaði netinu út í þriðja sinn. En er það var sokkið til botns og sjórinn orðinn lásléttur, dró hann það upp, og fann ekkert í því nema skeljar, steina og óþverra. Við það örvinglaðist hann, svo að hann var nærri genginn af vitinu.

En er ljóma tók af degi, lét hann samt ekki hjá líða, að gera bæn sína, eins og sannur múselmaður, og mælti enn fremur: „Drottinn! Þú veizt, að ég kasta ekki út neti mínu oftar en fjórum sinnum á dag. Nú hef ég gert það þrisvar, og hafa erfiðismunir mínir engan ávöxt borið. Nú er eftir í seinasta skipti, því bið ég þig: láttu hafið snúast mér í hag, eins og það snerist Móses í hag fyrrum.“

Því næst kastaði hann í guðs nafni netinu út hið fjórða sinn. Þegar honum þótti tími til kominn að taka það upp, fannst honum það þyngra en nokkurn tíma áður. Loksins tókst honum það með mestu aflraun, en þá var heldur enginn fiskur í því, heldur messingar flaska ein; var ólíklegt að hún væri tóm, því hún var þung. Var blýi rennt yfir stútinn og hafði verið sett fyrir innsigli.

Var nú fiskimaðurinn fundi sínum feginn og ásetti sér að selja hann málmvöru mangara einum, og kaupa sér einn mæli korns fyrir andvirðið. Var hann lengi að virða flöskuna fyrir sér, og hristi hana, til að vita, hvort ekki gutlaði á, en heyrði ekkert. Réði hann nú, bæði af þessu og blýinnsiglinu, að eitthvað mundi vera fémætt í flöskunni. Tók hann upp hníf sinn, til að vita þetta, og krotaði frá blýið, hélt síðan stútnum niður. En ekkert kom úr flöskunni, og gekk það yfir hann. Setti hann hana þá fyrir framan sig, og horfði á hana með eftirtekt; sá hann þá að upp úr henni lagði þykka gufu, svo hann varð að hopa undan nokkur fet.

En gufan reis upp til skýjanna og færðist yfir sjóinn og ströndina, eins og þykk þoka, svo að hann rak í rogastanz. En er öll gufan var rokin úr flöskunni, dró hún sig saman og þéttist og tók á sig líki anda; bar höfuðið við skýin, en fæturnir stóðu á jörðinni. Fætur hans voru sem siglutré, hausinn eins og stöpulkúpa, munnurinn sem hellisskúti, augun sem skriðljós, en hárið úfið og úlfgrátt. Varð fiskimaðurinn að gjalti, er hann sá þenna óvætt; hann ætlaði að flýja, en var svo lamaður af hræðslu-ofboðinu, að hann gat ekki hrært sig úr stað.

En það heyrði þó fiskimaður, að andinn, í því er hann sá hann, kallaði hárri rödd og sagði: „Enginn er guð nema einn guð; Salómon er spámaður drottins. Miskunna mér, miskunna mér, mikli spámaður! Ég skal aldrei framar sýna þér mótþróa, heldur hlýðnast öllum boðum þínum.“

10. nótt breyta

Jafnskjótt sem fiskimaðurinn hafði heyrt orð andans, herti hann upp hugann og mælti: „Hvað sagðirðu ofdrambsfulli andi? Það eru meira en átta aldir síðan Salómon dó, og sígur fyrir oss á seinni hlutann. Seg mér sögu þína og hvers vegna þú varst byrgður í flöskunni þeirri arna.“

Við þetta ávarp horfði andinn drembilega niður á fiskimanninn og mælti: „Talaðu kurteislega við mig, mér þykir þú furðu djarfur, að kalla mig ofdrambsfullan anda.“

„Ætli það væri kurteislegra,“ anzaði fiskimaðurinn, „að kalla þig greppatrýni forlaganna?“

Þá mælti andinn: „Talaðu kurteislegar, segi ég, áður en ég drep þig grimmilegum dauðdaga.“

„Því viltu drepa mig?“ spurði fiskimaðurinn, „þú værir þá þess maklegur, að almáttugur guð sleppti af þér verndarhendi sinni. Hef ég ekki dregið þig upp frá mararbotni og leyst þig úr flöskunni? Ertu undir eins búinn að gleyma því?“

„Nei, vel man ég það,“ svaraði andinn, „en ekki aftrar það mér frá að drepa þig. Einungis eina ívilnun veiti ég þér.“

„Og hver er hún?“ spurði fiskimaðurinn. „Að þú mátt kjósa um, hvernig ég ræð þig af dögum,“ segir andinn.

„Hvað hef ég þá gert á hluta þinn,“ segir fiskimaðurinn, „ætlarðu að launa mér svona það, sem ég hef gert þér gott?“

„Ég get ekki farið öðruvísi með þig,“ anzaði andinn, „svo þér skiljist það, skaltu heyra sögu mína:

Ég er einn af hinum uppreisnargjörnu öndum, sem stóðu í móti guðs vilja. Allir andar lutu hinum mikla Salómon, og gengu honum til handa, nema ég og andinn Sakar; vildum við ekki lítillækka okkur svo. Þá lagði hinn voldugi konungur verk það fyrir vezírinn Assaf, son Barkhíya, að handtaka mig. Það varð svo. Assaf fékk höndlað mig, og fór með mig fyrir hásæti herra síns, svo nauðugur sem ég var. Salómon, sonur Davíðs, bauð mér að breyta líferni mínu, kannast við vald sitt, og gefa mig undir stjórn sína. En ég harðneitaði, að veita honum hlýðni, og þótti mér betra, að láta alla heipt hans lenda á mér, en að vinna honum trúnaðar- og hollustueiða.

Í hegningarskyni fyrir það lét hann mig í þetta messingar ílát og setti á blýlokið innsigli sitt, með nafni guðs á, svo að ég ekki skyldi geta sprengt fangelsi mitt. Síðan fékk hann flöskuna einum af sínum þjónustusömu öndum, og skipaði honum, að kasta henni í sjóinn; gerði hann svo, mér til stórrar skapraunar.

Á fyrstu öldinni, sem ég var í fangelsinu, sór ég, að gera þann stórríkan, bæði lífs og látinn, sem leysti mig þegar öldin væri liðin. En svo leið sú öld, að enginn gerði mér þenna mikla velgjörning. En á hinni næstu öld sór ég, að uppljúka allri auðlegð jarðarinnar fyrir frelsisgjafa mínum; en ekki fór þá betur. Á þriðju öldinni hét ég að gera hann að voldugum konungi, vera honum ætíð nálægur, og uppfylla þrjár óskir hans á degi hverjum, hvers konar sem væru. En þessi öldin leið eins og báðar hinar fyrri, og varð ég að sæta sömu kjörum. Varð ég loksins óhuggandi eða réttara sagt sárreiður út af því, að vera svona lengi í prísundinni, svo ég vann þess eið, að drepa þann, sem frelsaði mig, þrátt fyrir allar bænir, og sýna honum enga góðvild aðra en þá, að kjósa um dauðdaga sinn. Þú hefur nú frelsað mig í dag, segðu því til, hvernig ég eigi að drepa þig.“

Við þessi orð hryggðist fiskimaðurinn mikillega: „Mér til óhamingju er ég hingað kominn, til að gera þeim mikinn velgjörning, sem er vanþakklátur. Hyggðu að rangsleitni þinni og taktu aftur þenna óskynsamlega eið. Fyrirgefðu mér, og mun þá guð einnig fyrirgefa þér; ef þú ert svo drenglyndur, að gefa mér líf, mun hann og gæta þín fyrir öllum svikum óvina þinna.“

„Nei, þér er dauðinn vís,“ segir andinn, „segðu einungis til, hverjum dauða þú vilt deyja.“

Þegar fiskimaðurinn sá að andinn var staðráðinn í að drepa hann, varð hann yfirkominn af dauðans angist, og þó ekki svo mjög sjálfs sín vegna, sem þriggja barna sinna, því fyrir þeim lá mesta eymd og volæði, ef hans missti við.

Gerði hann því ennþá eina atreiðina til að mýkja andann og mælti: „Miskunna mér samt vegna þess, sem ég hef gert fyrir þig.“

„Ég er búinn að segja þér,“ anzaði andinn, „að það er einmitt það, sem skyldar mig til að drepa þig.“

„Það er merkilegt,“ segir fiskimaðurinn, „að þú endilega vilt launa gott með illu, en ekki lýgur máltækið, sem segir: Gott höfum vér gert þeim, og þeir launuðu oss með illu, og svo breytir í sannleika sá guðlausi. Fyrir þeim, sem auðsýnir ómaklegum góðvild, fer eins og þeim, sem hjálpaði hýenunni.

Ég játa það, að allt til þessa hefur mér þótt það ranghermt, en nú sé ég af sárbeittri eigin reynslu að það er helzt til satt.“

„Eyðum ekki tímanum til ónýtis,“ greip andinn fram í, „þú telur mér ekki hughvarf með orðum þínum. Segðu fljótt til, hvernig þú vilt ég drepi þig.“

Neyðin kennir naktri konu að spinna; fiskimaður hugsaði upp bragð. „Þetta er andi,“ segir hann við sjálfan sig, „og ég er maður. Guð hefur gætt mig heilbrigðri skynsemi og því ætla ég að reyna að steypa honum í glötunina með hyggindum og slægð, eins og hann beitti svikum og lævísi við mig.“

Sagði hann þá við andann: „Þú hefur fastráðið dauða minn.“

„Já,“ var svarið.

„Gott og vel,“ segir fiskimaður, „þá gef ég mig undir guðs vilja. En áður en ég kýs dauðdaga minn, særi ég þig fyrir hið mikla nafn drottins á innsigli Salómons, að segja mér satt og samvizkusamlega einn hlut, sem ég ætla að spyrja þig um.“

Þegar andinn heyrði, að hann var svo kröftuglega spurður, að hann varð að veita skýrt og skýlaust andsvar, skelfdist hann og mælti: „Spurðu um það, sem þú vilt vita, og vertu stuttorður.“

Þá sást ljóma af degi og hætti Sjerasade að segja söguna.

11. nótt breyta

Nóttin var því nær liðin á enda, sem hinar undanförnu; kallaði þá Dínarsade til systur sinnar og beiddi hana að segja framhald sögunnar af fiskimanninum og andanum.

„Ég skal gjarna,“ segir hún, „láta eftir þér, ef soldáninn leyfir,“ og tók þegar til frásagna:

„Þegar andinn hafði lofað að segja sannleikann, sagði fiskimaðurinn: „Mér þætti gaman að vita, hvort þú í raun og veru hefur verið í flöskunni þeirri arna; viltu sverja það við nafn hins mikla guðs?“

„Já,“ segir andinn, „ég sver við það, að ég var í henni.“ „Satt að segja,“ mælti fiskimaðurinn, „get ég ekki trúað því. Þú kemst með hvorugan fótinn í flöskuna, og þú skyldir hafa komizt í hana allur?“

„Ég sver þér það,“ anzaði andinn, „að ég var í henni slíkur, sem þú sér mig núna. Trúirðu ekki orðum mínum, þegar ég hef unnið svo dýran eið?“

Og jafnskjótt hristi andinn sig, en líkami hans þandist út og þynntist, og varð að þoku, sem lagði fyrst upp til himins, en dróst síðan saman og skrapp niður í háls flöskunnar, þangað til allt hvarf gjörsamlega.

Þá var sagt innan í flöskunni: „Lítiltrúaði fiskimaður! Nú er ég í flöskunni; ertu nú genginn úr skugga um það?“

Í stað þess að anza honum, brá fiskimaðurinn sem fljótast blýlokinu yfir flöskuna og mælti: „Andi! Nú kemur til þinna kasta, að biðja mig miskunnar, og kjósa um, hvernig ég eigi að fyrirkoma þér. Nei, nei, það er bezt ég kasti þér hérna út í sjóinn á sama hátt sem ég dró þig. Ég læt þá gera mér kofa hérna, til að vera í, og vara alla fiskimenn við, sem hér kasta út netjum sínum, að slæða upp þann anda, sem er svo vondur, að hann hefur svarið, að verða þess manns bani, sem frelsar hann.“

Þegar andinn heyrði storkunaryrði þessi, neytti hann allrar orku, til að komast upp úr flöskunni, en innsigli Salómons stóð fyrir. Sá hann þá, að hann var í valdi fiskimanns, bældi því niður reiði sína og mælti blíðlega: „Varaðu þig, fiskimaður, á því að gera það, sem þú ert að tala um; þetta, sem ég átti við þig, var aldrei nema gaman, og þú mátt ekki taka það svona í fullri alvöru.“

„Andi minn!“ svaraði fiskimaðurinn, „þú, sem fyrir svipstundu varst allra anda mestur, og nú ert allra minnstur, hér dugar engin flærð né fals, þú verður að fara ofan í sjóinn aftur. Úr því þú ert búinn að kúra þar svo lengi, sem þú sagðir mér, þá held ég þú getir setið þar þangað til á dómsdegi. Ég bað þig fyrir guðs sakir að gefa mér líf, en þú þversynjaðir mér; nú geld ég líku líkt.“

Leitaði nú andinn allra ráða til að blíðka fiskimanninn. „Ljúktu upp flöskunni,“ sagði hann, „ég sárbæni þig, gefðu mér frelsi; ég lofa að verða þér að skapi.“

„Þú ert svikari,“ anzaði fiskimaðurinn, „ég væri dauða verður, ef ég væri það flón að trúa þér. Þú færir vafalaust með mig eins og konungur einn á Grikklandi fór með Dúban, lækni sinn. Ég ætla að segja þér þá sögu, taktu eftir.