Þúsund og ein nótt/Sagan af kóngssyninum frá Karisme og kóngsdótturinni frá Georgíu
25. nótt
breyta„Einu sinni var konungur í Karisme, hann var barnlaus og leitaði guðs hjálpræðis án afláts með heitum og fórnfæringum, að hann mætti barn geta. Hinn háleiti drottinn meðtók fórnir hans og gaf honum son, sem var eins fagur og dagurinn er bjartur.
Var fæðing hans vegsömuð með dýrðlegasta hátíðahaldi.
Konungurinn veitti embætti og mannvirðingar og allir
þegnarnir nutu einhvers góðs af fögnuði hans. Lét hann ekki
hjá líða að kalla saman alla stjörnuspámenn í ríki sínu og
skipaði þeim að taka eftir fæðingarstjörnum sveinsins. En
ekki urðu spár þeirra gleðilegar fyrir konung. Sögðu þeir að
fram að þrítugs aldri lægju ótal slysfarir fyrir syni hans,
og guð einn vissi, hverjar þær væru.
Drógu spár þessar mikið úr fögnuði konungs, og gerðist hann
næsta hugsjúkur. Hafði hann varla augun af syni sínum í
uppeldinu, og lét hann allar varúðarreglur við hafa, sem
hugsazt gátu, til að gæta hans, og var sem hann ætlaði sér að
yfirbuga hin illu áhrif stjarnanna.
Heppnaðist honum þetta þangað til kóngsson var orðinn
eitthvað fimmtán ára, og hafði honum ekkert hrakfall viljað
til, svo að ekki rættust stjörnuspárnar. En hér sannaðist
það, að: „enginn má sköpum renna,“ og einu sinni bar svo til,
að kóngsson var að ríða út sér til skemmtunar, og hafði þeyst
ofan á sjávarströnd. Langaði hann þá til að fara dálitla
sjóferð. Lét hann því búa skip eitt til siglingar og fór út á
það með fjörutíu mönnum af föruneyti sínu.
En óðar en þeir voru komnir út á rúmsjó, réðust á þá víkingar
frá Norðurálfu. Vörðust þeir vel, en víkingar höfðu ofurefli
og hruðu skipið og sigldu með það til Samsara eyjar, og seldu
það þar. Samsarar þessir voru ofboðslegar mannætur, voru á
þeim hundshausar, en kroppurinn sem á manni.
Læstu þeir kóngssoninn frá Karisme og félaga hans í hús og
ólu þá nokkrar vikur á möndlum og rúsínum. En á degi hverjum
var farið með einn þeirra í eldhúsið Samsara-konungsins; var
hann þá brytjaður niður og kjötið steikt, og smakkaðist
konungi það vel.
En er hinir fjörutíu förunautar kóngssonarins voru uppétnir,
bjóst hann við, að nú mundi til sín tekið, enda hafði hann
verið geymdur þangað til seinast, eins og annað sælgæti.
Þegar hann nú átti þessi hryllilegu afdrif fyrir höndum,
hugsaði hann með sér: „Ég veit, að ég get ekki umflúið
dauðann, en því skyldi ég láta slátra mér eins og blauð geit?
Er ekki betra að ég selji þeim líf mitt dýru verði? Já, ég
skal verjast með hreysti, og mun þá örvænting mín verða
einhverjum skæð af þessum blóðsólgnu óvættum.“
Í því kóngsson var að ráðgera þetta með sjálfum sér, komu
Samsararnir. Lét hann þá fara með sig til matgerðarhúss
konungs og sýndi engan mótþróa. En er þangað var komið, sá
hann hvar lá á borði stóra saxið, sem átti að slátra honum
með. Þá herti hann upp hugann, svipti sundur handfjötrunum,
greip saxið í skyndi og ruddist á Samsarana, sem höfðu farið
þangað með hann. Drap hann þar hvern á fætur öðrum. Síðan óð
hann fram í eldhússdyrnar og stóð þar fyrir, og átti hver
vísan bana undir höggum hans, sem að þorði. Komst höllin í
uppnám af þessu og glumdi undir af emjan og óhljóðum.
Varð konungur hissa, er hann heyrði, að einn maður hefði
varizt svo mörgum, og kom hann sjálfur fram í eldhúsið og
mælti: „Ungi maður, ég dáist að hugprýði þinni og gef þér
líf. Berstu ekki lengur við þegna mína, því þau málalok munu
verða, að þú strádrepur þá, þó við ógrynni og ofurefli sé að
eiga. Segðu mér, hver er faðir þinn?"
En er kóngsson hafði sagt honum, að hann var sonur konungsins
í Karisme, mælti konungur Samsaranna: „Þú ert nú svo reyndur
að vaskleik, að nægar sönnur eru fyrir því, að þú sért
stórættaður. Kvíð þú nú engu, hirð mín skal upp frá þessu
vera þér gleðivist. Þú skalt verða mestur lánsmaður í heimi,
því ég kýs þig dóttur minni til handa, og er það vilji minn,
að þú eigir hana þegar í stað. Er það hin ástúðlegasta mey og
hafa allir prinsar við hirð mína slíkan ástarhug á henni, að
þeim horfir til vandræða, en þú einn ert hennar verður.“
Þetta var kóngssyni lítið fagnaðar boð og svaraði hann: „Yðar
hátign sýnir mér of mikla sæmd. En ég hélt, að samsariskur
prins ætti betur við skap dóttur yðar en ég.“
„Nei, nei!" sagði konungurinn með ákefð, „ég krefst þess, að
þú eigir hana; það er vilji minn. Stattu ekki lengur í gegn
boði mínu, þig kynni að iðra þess.“
26. nótt
breytaKóngssonurinn frá Karisme hugsaði með sér, að ef hann veitti afsvör um að eiga kóngsdótturina, mundi konungurinn á eynni verða æfareiður og ugglaust drepa sig; lét hann þá tilleiðast að eiga hana. Gekk hann þá að eiga kóngsdótturina og hafði hún fallegastan hundshaus á allri eynni. En samt var honum ómögulegt að venjast henni og hafði hann hreinan viðbjóð á henni. Því betur sem hún lét að honum, því andstyggilegri þótti honum hún vera, og hefði frábitni þessi getað orðið hættuleg kóngssyninum.
En engill dauðans kom í veg fyrir það og birtist við hvílu
kóngsdótturinnar; dó hún fám dögum eftir brúðkaupið. Varð
kóngsson guðsfeginn að losna við svo hvimleiða konu, en þá
heyrði hann, að það væri siður á þessari ey eins og Sereneb
(eynni Seylon), að kviksetja manninn með líki konunnar, og
ekkjuna með líki mannsins; væru jafnvel konungar ekki
undanþegnir þessum skelfilegu lögum, en Samsarar væru orðnir
því svo alvanir, að þeim óaði alls ekki fyrir útfarardegi
sínum; þætti þeim það fremur gleðidagur en sorgardagur, því
allir, karlar og konur, sem viðstödd væru við slíka greftrun,
dönsuðu og syngju kvæði, sem heldur væru til yndis en
hryggðar.
Kóngssonurinn frá Karisme varð yfirkominn af harmi út af
þessum tíðindum, en hlaut samt að láta undan nauðsyninni.
Voru þau hjónin borin á líkbörum þangað sem bæði áttu að
jarðast; var hvoru þeirra um sig látið fylgja brauð og
vatnskrukka. Hafði verið grafin djúp og víð gröf þar á
mörkinni handa þeim.
Fyrst var kóngsdóttir látin síga niður á strengjum og börunum
sökkt niður í gröfina, en að því búnu skiptist öll líkfylgdin
í tvær raðir til söngs og dansleika. Öðrumegin stóðu
unglingarnir og unnustur þeirra, en hinumegin nýgiftu hjónin.
Elskendurnir tókust í hendur og slógu hring utan um einn
ungling og dönsuðu, en hann stóð í miðjum hringnum og söng
þessar persnesku vísur:
- Elskunnar yndisböndin
- um eilífð binda hér,
- þá hjúskaps engilhöndin
- við heitmey tengir ver:
- Eiðfast er ástarríki
- eilífrar tryggðar gjöf,
- því brúðar loks með líki
- við leggjumst niðrí gröf.
En nýgiftu hjónin dönsuðu, tvö og tvö saman, maður og kona, og söng hver kona, þegar að henni kom að stíga dansinn, þessa vísu:
- Minn eiginn ver, ef ægir ei þér
- mitt andargrand og þitt ei mér,
- þá elskumst stöðugt, eg og þú,
- með óbilandi hjartans trú,
- svo hvorugt lysti lífið sitt
- að lengja, þegar sálast hitt.
Þegar lokið var söngnum og dansleiknum, sem kóngsson hafði lítið gaman af, var hann látinn síga ofan til konu sinnar, og gröfin aftur lokin með stóreflis hellu.
Þegar kóngsson var kominn niður í hið skelfilega djúp,
kallaði hann upp: „Guð minn! Hvílíkar dauðans nauðir hefur þú
látið mig rata í; læturðu þetta verða afdrif kóngssonarins,
sem rækti boðorð kóransins af öllum hug? Bænheyrðirðu föður
minn einungis til þess að láta mig bíða grimman bana?"
Að svo mæltu tók hann að gráta beisklega. En þó hann væri
vonlaus um að sleppa úr þessum hræðilega stað, hafði hann þó
undir eins risið upp af líkbörunum og farið að þreifa um
múrinn, sem fyrir stóð. Og er hann hafði gengið eitthvað tíu
faðmslengdir, sá hann allt í einu hvar ljós logaði fram undan
honum. Greikkaði hann þá sporið og sá að þetta var kona, sem
gekk með logandi kerti. Gekk hann þá nær og nær, en þegar
konan heyrði hann koma, slökkti hún ljósið"....
27. nótt
breyta„Þegar kóngssonurinn sá að aftur varð niðamyrkur í kringum sig, mælti hann: „Guð minn, voru það missýningar, sá ég þá ekkert ljós; var það ekki annað en draumórar minna sturluðu skapsmuna? Það hefur ekki verið nema ímyndun. Ólánsami kóngsson, hugsaðu ekki til að sjá sólina framar. Svona ertu þá stiginn niður í myrkur hinnar eilífu nætur áður en þitt náttúrlega skapadægur bar að hendi. Ó, þú konungur í Karisme, veslings faðir minn, vonastu ekki eftir mér heim! Ó vei, sonur þinn mun ekki verða stoð elli þinnar, heldur mun hann deyja hér hryllilegum dauða.“
Í því hann mælti þetta, heyrði hann rödd, sem sagði:
„Huggastu, kóngsson; sértu sonur konungsins í Karisme, skaltu
ekki láta líf þitt hér; ég skal bjarga þér, ef þú lofar mér
því fyrirfram að eiga mig.“
„Lafði mín!" anzaði kóngsson, „það er að vísu hryggilegt
hlutskipti, að vera kviksettur á fimmtánda aldurs ári, en það
kýs ég heldur, þó hart sé aðgöngu en að gefa þér heitorð
þetta, ef þú ert lík konunni minni sælu. Ef það er hundshaus
á þér líka, get ég með engu móti fellt ástarhug til þín?"
„Herra, ég er ekki af Samsarakyni,“ anzaði konan, „þar til er
ég ekki nema fjórtán ára og ég vona að þú þurfir ekki að
fælast andlit mitt.“
Því næst tendraði hún aftur ljósið með kveik, sem hún hafði
hjá sér, og lét kóngsson líta ásjónu sína; varð hann
hugfanginn af fríðleik hennar.
Hann hrópaði frá sér numinn: „Hvílíkur yndisleikur, ekkert
jafnast við það, sem ég nú sé. Seg mér, sjónfagra vera, hver
þú ert. Þú hlýtur að vera álfkona, fyrst þú segist geta
frelsað mig úr þessu dauðans djúpi.“
„Nei, herra!" svaraði yngiskonan, „ég er ekki álfkona, heldur
er ég dóttir konungsins í Georgíu og er nafn mitt Dílaram (þ.
e. hjartafró). Skal ég lofa þér að heyra ævisögu mína í annað
skipti, en nú segi ég þér í stuttu máli, að ofviðri hröktu
mig til þessarar ósælu eyjar; varð ég að giftast hér einum
samsariskum höfðingja. Hann dó í gær eftir þunga legu, og var
ég grafin með einu brauði og vatnskrukku, eins og hér er
landssiður. En áður hafði ég falið á mér innanklæða,
eldsvirki, kveik og kerti. Undir eins og ég var látin hér
niður og gröfin var byrgð að ofan, reis ég upp úr kistu minni
og kveikti á ljósinu. Kom ekki eins mikil hræðsla og ofboð
yfir mig, sem við mátti búast á þessum hryllilega stað. Guði
hefur þóknazt að varðveita mig, og hann blés mér áræði í
brjóst, svo ég hughreystist, og vissi ég ekki sjálf, hvaðan
mér kom það.
Kom ég þá að göngum, fjarska þröngum, og gekk ég eftir þeim
bæði til að umflýja allar þær skelfingar, sem ógnuðu augum
mínum, og líka til hins, að vita, hvort hvergi yrði út
komizt. Þegar ég hafði gengið svo sem svaraði hundrað fetum,
kom ég auga á eitthvað hvítt. Það var stóra marmarahellan
þarna fyrir framan okkur. Gekk ég þangað og varð ég hreint
forviða, þegar ég sá nafn mitt nefnt í letrinu, sem á henni
stendur. Komdu nær, kóngsson, og lestu letrið; það mun koma
þér eins óvart og mér.“
Að svo mæltu rétti hún kóngssyni kertið; gekk hann þá að
steininum og las þetta: „Þegar kóngssonurinn frá Karisme og
kóngsdóttirin frá Georgíu koma hingað, munu þau geta lyft
þessum steini og gengið ofan eftir stiga þeim, sem þar er
undir.“
„Og við eigum að geta lyft þessu heljarbjargi?" sagði
kóngsson, „það veitir ekki af hundrað mönnum til þess.“
„Þá er engu til spillt þó reynt sé,“ svaraði kóngsdóttirin;
„hér hefur einhver hönd í tafli, sem fróður er, og svo segir
mér hugur um, að við munum sleppa héðan heil á húfi.“
Kóngsson fékk Dílaram kertið aftur og fór að hreyfa við
hellunni. Þurfti þá ekki stórrar aflraunar, því óðara en hann
kom við hana, fór hún undan sjálfkrafa og lá stiginn niður í
steinsfarinu. Fóru þau þar ofan og komu niður í annað
jarðhús; þaðan komust þau eftir þröngum göngum út um helli,
sem högginn var í hamrabelti undir fjalli einu; var þaðan
utangengt og komu þau loksins að fljótsbakka.
Jafnskjótt og þau voru komin undir heiðan himin, gerðu þau
bæn sína, eins og sannir átrúendur Mahómets, og eftir að þau
höfðu borið fram fyrir drottinn þökk og lofgjörð, svo sem
skylt var, sáu þau við bakkann dálitla ferju, sem þau höfðu
ekki tekið eftir fyrr. Efuðu þau ekki, að það væri nýtt
stórmerki guðs miskunnar og urðu nú hálfu glaðari en fyrr, og
þó að hvorki væri stýri né árar á bátnum, fóru þau samt
hughraust út í, og kóngsson mælti:
„Þenna bát leiðir víst einhver verndarengill; mun hann flytja
okkur til einhverra byggða. Látum okkur berast með straumnum
í fljótinu og hvergi hræðast.“
Þau gerðu líka svo. En því lengra, sem skipið bar ofan eftir,
því flughraðara varð straumfallið; mjókkaði farvegurinn
smámsaman, þangað til fljótið þrengdist milli tveggja fjalla;
náðu tindar þeirra saman efst uppi í geysistórri hvelfingu,
sem skútti yfir; var þar kolniðamyrkur, svo að hvorki sást
himinn né jörð. Keyrðist báturinn af slíku afli inn í
svartnætti hvelfingar þessarar, að kóngsson og kóngsdóttir
sáu ekki annað fyrir en opinn dauðann. Þau tóku að óttast, að
guð hefði ekki borið svo mikla umhyggju fyrir lífi þeirra,
sem þau héldu. Ýmist fundu þau að bylgjurnar riðu undir
bátinn, svo að hann hófst upp að klettarjáfrinu, eða þær
soguðu hann niður í undirdjúpin.
Meðan á þessum ósköpum gekk, báðust þau fyrir, og guð
bænheyrði þau. Bátnum skolaði aftur út undan fjöllunum, og
rak straumaldan hann að bakkanum. Stigu þau þegar á land og
hughreystust á ný. Lituðust þau nú um á alla vegu, hvort
hvergi sæist hús þar sem þau gætu fengið hressingu. Sáu þau
þá hvar stórt musteri með hvolfþaki stóð á fjallsgnípu; var
það líkt einu, sem Kubbay Khiramant heitir.
Þangað héldu þau, og er þau komu nær, sáu þau að það stóð
mitt i glæsilegri höll; var helgiskurðarletur á hallarhliðinu
svolátandi: „Það skalt þú vita, sem komast vilt inn í þessa
glæsilegu höll, að þú fær ekki inngöngu nema þú fórnfærir
áttfættu dýri við dys hennar.“
„Þá bregzt mér illa vonin,“ mælti Dílaram, „ég var farin að
hlakka til að sjá höllina að innan.“
„Mér var líka forvitni á því,“ anzaði kóngsson "en okkur er
ómögulegt að seðja hana, því að það væri þarflaus aflraun, ef
við reyndum að ljúka upp dyrunum. Myndirnar á þeim eru
verndargripir, sem tálma því.“
„Jæja,“ segir Dílaram, „við skulum þá hvíla okkur ofurlítið á
jörðinni hérna og tala um, hvað við eigum að taka til
bragðs.“
„Kóngsdóttir,“ svaraði kóngsson, „segðu mér heldur sögu þína;
ég er órór af því, hvað mig langar til að heyra hana.“
„Herra,“ mælti kóngsdóttir, „ég skal þá segja þér hana í
stuttu máli....
28. nótt
breytaFaðir minn, konungurinn í Georgíu, lét uppala mig í höll sinni með slíkri umhyggju, sem ástúðlegur faðir getur framast borið fyrir börnum sínum. Einn ungur kóngsson var í ætt við okkur og hafði hann öðru hverju færi á að sjá mig; tók hann að leggja á mig ástarhug svo mikinn að hann gerðist hugsjúkur. Hann elskaði mig og var þegar farinn að verða mér vel að skapi, en þá kom vezír frá einum nágrannakonungi til hirðarinnar í Georgíu, og beiddi mín fyrir hönd herra síns.
Líkaði föður mínum sá ráðahagur vel og gaf hann samþykki
sitt; hlaut ég að taka því, sem að höndum bar og fara með
vezírnum. Burtför mín fékk hinum unga kóngssyni svo mikillar
hryggðar, að hann sprakk af harmi í því hann kvaddi mig. Grét
ég dauða hans svo, að hver hefði mátt sjá, að mér mundi ekki
hafa orðið kalt til hans um ævina. En af því ég hafði það orð
á mér, að ég væri næsta elsk að föður mínum, þá misskildu
menn tár mín og héldu að ég væri miklu ástríkari dóttir en ég
var.
Fór ég síðan af stað með vezírnum. Stigum við á lítið skip
til þess að fara yfir fjörð nokkurn, sem var á leið okkar. En
á leiðinni brast á geysilegt ofviðri, svo að skipverjum
féllust hendur; rak skipið undan landi í hafganginum og
hröktumst við að ey Samsaranna. En er koma vor spurðist,
þustu þessar ókindur ofan á ströndina og handtóku alla
skipshöfnina, og hryllir mig við að segja þér hvað eftir fór.
Þeir átu vezírinn og allt föruneyti okkar.
En af mér er það að segja, að ég hugnaðist vel einum gömlum
samsarískum höfðingja; sagði hann mér að ég gæti umflúið
vísan dauða, ef ég vildi verða konan hans. Er satt bezt að
segja, að mig óaði svo við að verða uppétin, að ég kaus þann
kost heldur að eiga hann, og kom þó hrollur yfir mig í hvert
skipti sem ég horfði á hundshausinn á honum. Tveimur dögum
eftir brúðkaup okkar varð hann veikur. Þjáðist hann lengi, en
í gær tók dauðinn"....
Þarna greip kóngsson fram í orð kóngsdótturinnar og kallaði
upp: „Varaðu þig, þarna skríður tarantúla
(Nokkurskonar kónguló og á heima í löndum þeim er liggja að Miðjarðarhafi; er bit hennar álitið háskalegt. Hafa menn þá trú, að það læknist, ef sá, sem bitinn er, heyrir fagran söng, en sé ella ólæknandi.) á klæðum þínum.“
Spratt þá Dílaram upp á augabragði og hljóðaði upp yfir sig
og hristi hana af sér, því hún vissi hvað háskaleg þessi
kvikindi eru. Datt þá tarantúlan á jörðina og marði kóngsson
hana undir fætinum.
Í sama bili heyrðu þau að glumdi undir í höllinni og sáu að
dyrnar hrukku allt í einu upp af sjálfu sér. Urðu þau
steinhissa á þessum kynlegu tilbrigðum og horfðu þegjandi
hvort á annað. Loksins datt þeim í hug að tarantúlan er
áttfætt, og mundi hún vera fórnardýrið, sem heimtað var í
letrinu á hallarhliðinu.
Voru þau frá sér numin af fögnuði yfir ævintýri þessu og
gengu inn í höllina, sem nú stóð opin, og komu þau fyrst inn
í stóran garð; voru þar allar trjátegundir heimsins, sem
hugsazt gátu. Sýndust greinarnar hlaðnar alþroskuðum ávöxtum,
en er kóngsson ætlaði að neyta þeirra til að seðja hungur
sitt, sá hann að þeir voru gull eitt.
Lækur einn rann eftir miðjum garðinum, með hreinum og tærum
straumi, og sást ógrynni gimsteina glampa á botninum. Þegar
þau höfðu nú skoðað sig um í garðinum, sem vert var, sneru
þau að musterinu, sem þeim varð svo starsýnt á, þegar þau
stigu á land úr bátnum. Var það allt saman gert af
fjallakristali. Fóru þau þar inn og gengu um mörg herbergi,
sem ljómuðu af gulli, demöntum og roðasteinum, en ekki mættu
þau nokkrum manni.
Loksins bar þau að silfurdyrum; luku þau þeim upp og komu inn
í glæsilegt herbergi, þar sáu þau fjörgamlan öldung sitja í
legubekk með smaragðskórónu á höfði. Hann hafði snjóhvítt
skegg og tók það niður á gólf, en neglurnar á fingrum hans
voru alin á lengd, fyrir víst.
Þessi æruverðugi öldungur horfði á kóngsson og kóngsdóttur og
mælti: „Hverra manna er yngisfólk þetta?"
Kóngsson varð fyrir svörum og mælti: „Herra, ég er sonur
konungsins í Karisme, en konungurinn í Georgíu er faðir
þessarar konu. Skulum við segja yður frá ævintýrum okkar,
þegar yður þóknast. Ég tel það víst, að þér munið kenna í
brjósti um okkur, og er vongóður um, að þér reynist svo
veglyndur, að skjóta yfir okkur skjólshúsi.“
„Já, kóngsson!" svaraði öldungurinn, „það skal ég veita
ykkur, og verið bæði velkomin á minn fund. Fyrst þið eruð
konungabörn og báruð hamingju til að komast inn í þessa höll,
þá er einungis undir ykkur sjálfum komið, hvort þið viljið
hljóta sömu sælu og ég. Verið þið hjá mér; þið skuluð njóta
hér óaflátanlegs fagnaðar. Dauðinn sjálfur, sem öllum kemur á
kné, mun hlífa ykkur hér.
Ég var fyrrum konungur Kínlands. Megið þið marka af nöglum
mínum að ég er farinn að eldast. Ég varð að flýja lönd mín
sökum stjórnarbyltingar; komst ég þá út á eyðimörk þessa og
lét marga anda gera höll þessa, því ég er kabbalisti og
drottna yfir þeim. Hef ég nú dvalið í höllinni um þúsund ár,
og hef fastráðið að lifa hér að eilífu, því ég á
vizkusteininn og er ódauðlegur.
Skal ég kenna ykkur hina undarlegu leyndardóma hans, þegar
þið eruð búin að vera hjá mér nokkra áratugi. Ég sé að þið
fallið í stafi af orðum mínum, en þetta er sannleikur.
Hverjum manni, sem fær vizkusteininn á vald sitt, getur ekki
náttúrlegur dauði grandað. Að vísu má drepa hann, það játa
ég; leyndardómar hans varðveita ekki fyrir voveiflegum
dauðdaga. En til þess að sneiða fyrir allar slíkar hættur,
þarf hann ekki annað en að taka sér bólfestu undir jörðinni,
eða láta reisa sér höll á eyðimörku eins og ég.
Hér er ég óhultur; öfund og ofbeldi sakar mig ekki grand.
Verndarletrið, sem þið sáuð á hliðinu, er með slíkum hætti
samansett, að ræningjar og illmenni geta ekki komizt inn, þó
þeir fórnuðu þúsund áttfættum dýrum, því hliðin ljúkast
aldrei upp, nema þegar góður maður færir fórnina.“
Svo mælti Kínlands konungur og bauð kóngssyni og kóngsdóttur
vináttu sína, og ásettu þau sér bæði að vera þar hjá honum í
höllinni. Síðan spurði hann þau, hvort þau þyrftu ekki að fá
sér hressingu, og er þau kváðu já við, benti hann þeim með
fingrinum á tvo lystihvera, sem gusu upp úr tveimur
gullskálum. Annar gaus upp dýrindis víni, en hinn nýmjólk,
sem varð að ljúffengasta hlaupi, þegar hún kom niður.
Því næst kallaði hinn gamli konungur á þrjá anda og bauð þeim að leggja á borð. Bjuggu þeir þá til borðs handa þremur og báru fram mjólkurhlaup í þremur gullskálum. Neyttu þau kóngsson og kóngsdóttir af því, og þótti það vera mesta hnossgæti, en öðru hverju báru andarnir þeim vín í kristallskerum. Konungurinn gat ekki neytt handanna, er hann borðaði, fyrir lengdinni á nöglunum; opnaði hann því munninn og lét einn andann mata sig og drykkja sér eins og barni.
En er borið var af borði, beiddi hinn góði öldungur gesti
sína að segja sér ævisögu sína; urðu þau við tilmælum hans,
bæði af góðvilja sínum og svo vegna þess að gistivináttan
hélt þeim til þess.
En er þau höfðu sagt honum öll ævintýri sín, tók hann til
orða og mælti: „Huggizt og setjið ekki fyrir ykkur það, sem á
dagana hefur drifið; þið eruð bæði ung og elskuverð, og ef
þið heitið hvort öðru ástartryggðum, skal ég hér fyrirbúa
ykkur hina sælustu vist.“
Kóngsson og kóngsdóttir höfðu áður svarið hvort öðru eilífar
ástir, og endurnýjuðu þau nú eið sinn og giftu sig sjálf
hvort öðru í viðurvist hinnar kínversku hátignar, og kvöddu
hana til vitnis að því. Mundu hin ástfangnu hjón fegin hafa
helgað ástinni hverja stund, en til þess að gera hinum gamla
konungi að skapi, sátu þau jafnan nokkurn hluta dagsins á
tali við hann, honum til skemmtunar; þreyttist hann aldrei að
segja þeim sögu sína, né þau að hlýða á.
Meðan á þessu stóð, fór kóngsdóttir ekki ein saman og ól hún
tvíbura, tvo sveina, fagra eins og tungl í fyllingu. Hafði
hún þá á brjósti, og er aldur og þroski leyfði, kenndi einn
andinn þeim mörg undursamleg fræði.
Voru þeir orðnir sex ára; þá var það einhvern dag, að
kóngsdóttirin, móðir þeirra, sagði við mann sinn: „Ástkæri
eiginmaður, það verð ég að segja þér, að ég uni mér ekki
lengur í höllinni þeirri arna. Allt það sjóngaman er mér eins
og ekkert, sem hún hefur að veita, og svo mörg undur og
furðuverk, sem hér eru, má ég þó ekkert yndi af þeim hafa, úr
því ég neyðist til að vera hér um aldur og ævi.
Hvernig sem Kínlandskonungurinn segist ábyrgjast okkur, að
dauðinn nái okkur ekki, þá er mér engin þægð í því.
Leyndardómur hans afstýrir ekki ellinni og það er vansæla
öllu heldur en sæla, að verða örvasa. Þar á ofan langar mig
til að finna hann föður minn, ef sorgin og söknuðurinn eftir
mig hefur ekki riðið honum að fullu.“
„Drottning mín!" svaraði kóngsson, „þar sem okkur var heitið
ódauðleika, hafði ég enga sælu fyrir augum aðra en þá, að
njóta þín um eilífð. Viti það guð á himnum, að mig hefur oft
sárlangað til að sjá konunginn, hann föður minn, og má ég
varla hugsa til hans ógrátandi. En hverja leið eigum við að
fara, svo við komumst til Georgíu?"
„Herra!" anzaði kóngsdóttirin Dílaram, „báturinn okkar liggur
við fljótsbakkann, þar sem straumurinn bar hann að. Felum
okkur forlögunum á vald einu sinni enn þá. Við skulum láta
straum ráða stefnu, hver veit nema hann flytji okkur þangað,
sem við finnum leið til hallarinnar hans föður míns, eða til
þinnar fósturjarðar?"
„Ég fellst á tillögur þínar elskulega kona!" mælti kóngsson,
„mér er það fyrir öllu, að gera þinn vilja. Við skulum segja
skilið við þessa höll, fyrst þar sækir á þig óyndi, og skulum
við fara út í bátinn með sonu okkar. En eftir á að hyggja,
hvílík skapraun mun það verða Kínlands konunginum, ef við
förum burt! Hann elskar okkur eins og börn, og kemur honum
víst ekki til hugar, að við munum yfirgefa sig; hann verður
óhuggandi, ef við skiljum við hann.“
„Við skulum tala við hann,“ mælti kóngsdóttir, „og af
vorkunnsemi láta eins og við munum ekki skilja við hann fyrir
fullt og allt.“
Nú sem þau höfðu talað sig saman um þetta, fóru þau til gamla
konungsins og leiddu honum fyrir sjónir, að þau þreyðu
foreldra sína svo ákaft, að þau eirðu sér ekki fyrir óyndi.
Beiddu þau hann því orlofs, að vitja átthaga sinna og lofuðu
statt og stöðugt, að þau skyldu koma að nokkurra ára fresti.
Þegar hinn gamli konungur heyrði þetta, kom upp fyrir honum
mikill grátur. „Á ég þá að missa ykkur, börnin mín?" sagði
hann, „æ, ég veit að við sjáumst aldrei framar.“
„Herra,“ mælti kóngsson, „lofið okkur þangað, sem ást og
ætterni dregur okkur, en síðan vitjum við aftur þessarar
eyðimarkar, til þess að njóta með yður ódauðlegrar sælu.“
Sama sagði kóngsdóttirin, en það var til lítils að þau
marglofuðu að koma aftur, því konungurinn kunni fræðina
Mekasjefa og las í hjörtu þeim, að þau ætluðu sér ekki að
efna heitið.
Honum varð lífið óbærilegt fyrir hryggðar sakir, að eiga nú
að sjá þeim á bak, sem hann elskaði svo innilega. Kallaði
hann því á engil dauðans, sem hann hafði haldið svo lengi
burtu, fyrir kraft kunnáttu sinnar; var hann nú afhuga allri
umhyggju fyrir lífi sínu og andaðist svo sjálfviljugur....
29. nótt
breytaJafnskjótt sem hinn gamli konungur frá Kínlandi hafði gefið upp öndina, komu þrír andar og báru hann þaðan; höllin var horfin, kóngsson, kóngsdóttir og börn þeirra stóðu allt í einu á víðavangi. Þau gátu ekki að sér gert að gráta, af því þau hefðu verið orsök í dauða konungsins; en sorgin rættist skjótt af þeim, og urðu þau vongóð um, að þau mundu finna aftur foreldra sína, og hugsuðu þau nú ekki um annað en að komast áleiðis.
Þau lásu nokkur aldin og báru út í bátinn; það var eins og
náttúran hefði látið þau vaxa þarna af miskunnsemi sinni
handa þeim, því hvergi var stingandi strá allt umhverfis.
Báturinn var bundinn við hælinn enn þá, og eins á sig kominn
og þegar þau skildu við hann. Leystu þau festina og fóru öll
saman fjögur út í, og létu berast af straumnum í fljótinu, og
að lítilli stundu liðinni voru þau komin fram í fljótsmynnið.
Þar var víkingaskip að slaga fyrir framan, og sáu þeir
bátinn; kallaði foringinn til þeirra og sagði kóngssyni að
gefast upp, ef þeir ættu ekki að drepa hann. Kóngsson var
vopnlaus, enda hefði honum verið til lítils að berjast við
fjölda vopnaðra manna. Sleppti hann því allri vörn, úr því
hún var til einskis, og gaf sig á náðir foringjans, en særði
hann um leið við allt, sem heilagt er, að hlífa sóma konu
sinnar og lífi sona sinna.
Þegar víkingarnir höfðu komið bandingjunum innanborðs, sigldu
þeir til eyjar einnar, og settu kóngssoninn frá Karisme þar á
land. Því næst létu þeir í haf með kóngsdótturina frá Georgíu
og báða sonu hennar.
Því verður ekki með orðum lýst, hversu hjónin hryggðust,
þegar þau voru skilin svona. Þau grétu hástöfum og bárust
aumlega af. Meðan víkingaskipið var í augsýn kallaði kóngsson
eftir því til fyrirliðans. „Níðingurinn þinn,“ sagði hann,
„hugsaðu ekki, að guð láti illvirki þitt óhegnt. Hvar sem þú
felur þig í veröldinni, sleppurðu ekki hjá refsingunni, sem
vofir yfir þér í hendi réttlætisins.“
Því næst leit hann augum sínum til himins og mælti: „Og þú,
sem ávallt hefur tekið mig undir varðveizlu þína, réttláti
drottinn! hefur þú yfirgefið mig? Gaztu látið það viðgangast,
að þeir rændu mig konu minni og börnum? Ef þú sýnir ekki nýtt
stórmerki og gefur mér aftur það, sem mér er kærast, þá er
þín fyrri líknsemd mér til meiri hryggðar en gleði. Því
hefurðu frelsað mig úr svo mörgum hættum? Frestaðirðu dauða
mínum, til þess að ég skyldi reyna alla þá sorg, sem
hjúskaparást og föðurelska geta fyrir orðið?"
Meðan kóngssonurinn frá Karisme var að bera upp þessa
kveinstafi, sá hann drífa að sér úa og grúa af mönnum, sem
honum virtust harðla undarlegir. Höfðu þeir að vísu mannlegan
líkama, en voru höfuðlausir og höfðu í þess stað eitt auga á
hvorri öxl, og víðan kjaft á brjóstinu.
Illþýði þetta tók hann höndum og fór með hann til konungs
síns og sagði við hann: „Herra! Þarna fundum við einn
útlending heldur ófrýnilegan á ströndinni: gæti vel verið, að
hann kynni að bera oss nokkra njósn af fjandmönnum vorum.“
„Gott og vel", svaraði konungur, „hlaðið upp bálköstinn og
varpið honum á bálið, þegar ég hef spurt hann úr spjörunum.“
Síðan sneri hann sér að kóngssyninum og mælti: „Ungi maður,
hver ert þú? Hvaðan ber þig hingað og hvernig ertu kominn til
þessarar eyjar?"
Kóngsson sagði honum þá hreinskilnislega ætt sína og
ævintýri, allt út í hörgul. Undraðist konungur mikillega og
mælti: „Kóngsson! Ég sé það, að sérleg guðs handleiðsla er
yfir þér, því þó ég ekki léti sannfærast af sögu þinni, sem
einstök er og undrunarverð, þá tekur það af allan efa, að guð
snýr nú hjarta mínu til samhryggðar og meðaumkvunar með þér.
Ég læt þessa tilfinningu ráða; þú skalt hafa líf. Skalt þú
hafa frjálsa hirðvist hjá mér, og vona ég þú verðir mér til
nota í stríði því, sem ég á við konung einn á
nágrannaeyjunum.
Skal ég nú segja þér þrætuefnið. Hann og þegnar hans eru ekki
höfuðleysingjar eins og vér, heldur eru á þeim fuglshausar og
þegar þeir tala, þá er rödd þeirra áþekk fuglagargi, svo
þegar einhvern þeirra ber að eynni hérna, tökum vér hann
fyrir sjófugl og leggjum oss til munns. Þetta líkar konungi
þeirra stórilla; gerir hann því öðru hverju út flota í
hefndar skyni og veitir landgöngur hér. Hefur hann reynt það
oftar en einu sinni og aldrei tekizt. En aldrei verður hann
því afhuga að gjöreyða oss, og vér verðum heldur aldrei
vonlausir um að éta upp hann og þegna hans.
Svona er nú mál með vexti; vér erum varir um oss, því vér búumst sífellt við árásum; höfum vér ávallt til þessa borið hærra hlut.“
Kóngssonurinn frá Karisme bauð þá hjálp sína, og tók konungur
hann til hershöfðingja yfir liðið. Lá kóngsson heldur ekki á
liði sínu og sýndi það í öllu, að honum var fulltreystandi.
Leið ekki á löngu áður fjöldi skipa sást af eynni. Var þar
kominn floti Fuglshausa-konungsins, með einvalalið, og ætlaði
að veita landgöngu á ný. Lét kóngssonurinn frá Karisme hann
skjóta liði sínu á land upp í góðu næði, en veitti honum
síðan snarpa atgöngu; riðlaðist þá lið Fuglshausa-konungsins
og varð að flýja aftur út á skipin. Féll þar ógrynni og
fjöldi drukknaði, og varð Fuglshausa-konungurinn að snúa
aftur með það sem af komst.
Hafði her Höfuðleysingjanna aldrei unnið slíkan sigur, og
hlaut kóngssonurinn frá Karisme allan heiðurinn. Sögðu
liðsmenn það, að þeir hefðu aldrei haft jafngóðan fyrirliða
og hefðu beztu foringjar þeirra aldrei sýnt slíkan viturleik.
Gladdist hinn nýi hershöfðingi af slíkum lofstír og vildi
afla sér enn meiri frægðar; stakk hann upp á því við konung,
að hann skyldi búa flota og hefja herskjöld í landi óvinanna
og gera þeim klaksárt. Lét hann þá smíða hundrað skip, búa
þau og skipa liði. Var kóngsson settur yfir þennan ógurlega
flota, og sigldi nú til Fuglshausa-eyjarinnar. Gekk hann þar
á land með lið sitt á náttarþeli, og fylkti því sem
hljóðlegast.
En með morgunsárinu sótti hann að borg þeirra; - voru
borgarbúar óviðbúnir áhlaupinu og kom heldur flatt upp á þá.
Var þar allt höggið niður, sem vörn sýndi, og konungur
handtekinn; fór kóngsson sigri hrósandi heim aftur til
Höfuðleysingja-konungsins. Tóku eyjarbúar þeir, sem eftir
höfðu orðið, við honum með fagnaðar ópi, og var hátíð haldin,
sem stóð í heilan mánuð.
Var hinum herteknu útbýtt meðal Höfuðleysingjanna og voru
þeir étnir með samkyns ídýfu og höfð er með sjófugli. Varð
konungurinn sjálfur að deyja þessum dauðdaga og var hann
framvborinn í veizlu einni fyrir konungshyski
Höfuðleysingjanna.
Eftir stórvirki þetta, sem útkljáði stríðið gjörsamlega, fór
nú kóngssonurinn frá Karisme að eiga náðugt. Var hann níu ár
við hirð höfuðlausa konungsins og komst í svo mikla kærleika
hjá honum, að hann sagði einu sinni við hann: „Kóngsson minn!
Ég er nú farinn að eldast og á enga sonu; vil ég arfleiða þig
að kórónu minni með því skilyrði, að þú eigir dóttur mína. Að
vísu er sköpulag þitt herfilega aflægislegt, en ég vil samt
feginn eiga þig fyrir tengdason.“
Kóngsson eyddi nú þessu fyrst í stað með kænlegri
undanfærslu; en konungur sat við sinn keip og vakti iðulega
máls á því. En er hann varð þess vísari, að kóngsson var
ráðahag þessum frábitinn, kom í hann annað hljóð, og mælti
hann reiðilega:
„Kóngsson! Það situr helzt á þér að hafna sæmd þeirri, sem ég
hef ætlað þér, en svo mikið sem þú hefur gert fyrir mig,
stendur það mér alls ekki fyrir, að ég láti þig kenna á allri
reiði minni, ef þú færist lengur undan að hlýða mér. Taktu nú
eftir: Þú verður að eiga dóttur mína á morgun, eða ég læt
höggva af þér þessa skringilegu ómyndarkúlu, sem rær og iðar
milli axla þér.“
Þetta mælti hann með slíkum svip að kóngsson sá það í hendi
sér, að annaðhvort væri að gera, að taka kvonfanginu eða láta
lífið. Þegar hann var nú í þessum kröggum, segir hann hryggur
við sjálfan sig: „Óláns stjarna, sem ég er borinn undir,
verður þú þá aldrei uppnæm að sýna mér illvilja þinn? Er það
ekki nóg að hafa átt eina konu með hundshaus, á þá að neyða
upp á mig annarri ókindinni til? Dílaram, yndislega Dílaram!
Svo sárs saknaðar fær mér minning þín, að engin tímalengd
getur eytt honum. Hvernig ætti sá kóngsson, sem geymir þína
elskulegu mynd í hjarta sínu, að búa saman við konu, sem
hefur augun á öxlunum og kjaft á brjóstinu, og sem líklegri
er til að gleypa mann en kyssa.“
Svo mikinn viðbjóð, sem hann hafði á þessum kosti, réði hann
það samt af, að taka honum. Var brúðkaupið haldið með slíkri
viðhöfn, sem hæfði tign og ættgöfgi beggja hjónaefnanna.
Nóttina eftir brúðkaupið var kóngsson leiddur inn í
brúðarhúsið; var hún þar fyrir og urðu þau þar tvö ein. Hún
kom fyrst til hans og skalf hann þá af hrolli og viðbjóði,
því hann vissi ekki annað en að hún mundi ganga hart eftir
skyldum brúðgumans.
En þetta fór á aðra leið, og henni fórust svo orð, að
kóngsson sá, að sér hafði skjátlazt, og fór af honum allur
kvíði. „Herra,“ tók hún til máls, „ég veit það, að þú hlýtur
að hata þá konu, sem eins er sköpuð og ég, og marka ég það á
mér sjálfri, því slíka andstyggð hef ég á þér, að þín getur
ekki verið meiri. Þér sýnist ég vera ófreskja og þú mér, og
bæði börmum við okkur yfir því, að vera neydd til
hjónabandsins; þú til þess að umflýja dauðann, og ég til þess
að hlýða föður mínum. Samt skaltu vita það, að ég get gert
þig að lánsmanni, ef þú sýnir mér kurteislega nærgætni og
afsalar þér því, sem er tilkall hvers kvongaðs manns.“
„Kóngsdóttir!" svaraði kóngssonurinn frá Karisme, „ég afsala
mér því af öllu hjarta, fyrst að þú krefst þess; en segðu mér
fyrir alla muni; geturðu gert mig að lánsmanni?"
„Heyrðu þá,“ tók kóngsdóttirin höfuðlausa til orða, „ég elska
anda nokkurn og hef ég kveikt í honum brennandi ást til mín.
Verði hann þess vís, að faðir minn hafi gift mig, mun hann
koma og nema mig burt. Skal ég þá biðja hann að flytja þig
til átthaga þinna, og það skal ég ábyrgjast þér, að hann
verður svo feginn, þegar hann veit að þú hefur virt sóma
minn, að hann gerir allt, sem þú biður hann um.“
„Það skal þá svo vera, fagra kóngsdóttir,“ anzaði kóngsson
frá sér numinn af voninni, „ég samþykki þetta, og eftirlæt
hinum sæla anda brúðfangið, með öllum þess gögnum og gæðum.
Honmm er það guðvelkomið fyrir mér.“
Að svo mæltu lagðist hann niður í legubekk einn og eins gerði
kóngsdóttirin. En um nóttina kom andinn, unnusti
kóngsdótturinnar, tók þau bæði sofandi og bar þau undir
hendinni til eyjar einnar, sem þar var nálægt. Þar lagði hann
kóngssoninn frá Karisme niður á jörðina, en með unnustu sína
fór hann niður í jarðhús, sem hann hafði gert handa henni.
Þegar kóngsson vaknaði, varð honum hverft við að vera kominn
á ókunna ey. Honum datt raunar í hug, að andinn, unnusti
höfuðlausu kóngsdótturinnar, hefði flutt hann þangað sofandi,
en ekki þótti honum hann hafa reynzt eins þakklátur og
kóngsdóttirin gerði ráð fyrir, þar sem hann hafði flutt hann
á þessa ey, sem líklegt var að eins viðbjóðslegar ókindur
byggðu, og Samsararnir voru, í stað þess að koma honum til
fósturjarðar sinnar.
Meðan hann var að hugleiða þetta í öngum sínum, sá hann hvar
gamalmenni stóð í sjávarmálinu og var að þvo sér. Kóngsson
hljóp á augabragði til hans og spurði, hvort hann tryði á
Mahómet.
Játaði öldungurinn því og mælti: „En hver ert þú? Þú munt
ekki vera af lágum stigum, því þú ert tígulegur í sjón og
stórmannlegur.“
„Þá áttu kollgátuna,“ anzaði kóngsson, „því faðir minn var
konungur.“
„Og hvers sonur ertu?" spurði karlinn, „segðu mér allt, ég
sver þér það við vorn mikla spámann, að engin svik búa undir
orðum mínum. Mér er miklu meira um það hugað, að gera þér
gagn en skaða; segðu mér það og dragðu ekki dulur á neitt.“
„Fyrst þig fýsir að vita það,“ svaraði kóngsson, „þá skal þig
þess ekki dylja, að ég er sonur konungsins í Karisme.“
„Guð minn,“ greip gamli maðurinn fram í, „ert þú hinn
ólánsami kóngson, sem víkingar frá Norðurálfu hertóku?"
„Hver hefur getað frætt þig um þann atburð?" spurði kóngsson.
„Það mætti mér vera kunnugast um,“ anzaði gamalmennið, „því
ég var einn af spámönnum þeim, sem settir voru til að taka
eftir stjörnunum við fæðingu þína. Þau tíðindi skal ég segja
þér, sem þig skipta mestu, að missir þinn fékk konunginum
föður þínum, svo mikillar sorgar, að hann andaðist nokkrum
dögum síðar. Grét landslýðurinn hann lengi, því hann hafði
verið hvers manns hugljúfi, og er örvænt þótti, að þú mundir
aftur koma, var einn af frændum þínum til konungs tekinn.
Stefndi þessi nýi konungur öllum stjörnuspámönnum saman og
skipaði þeim að spyrja stjörnurnar, hvernig stjórn hans mundi
fara. En honum líkuðu illa spár vorar, og lét oss gjalda
óhamingju þeirrar, sem yfir honum vofði á himnum, og ætlaði
því að drepa okkur alla. En vér komumst að áformi hans fyrir
leyndardóma kunnáttu vorrar, og flýðum úr landi.
Fór hver þangað sem honum leizt, og hef ég víða farið um
veröldina áður en ég kom í ey þessa. Ræður yfir henni
drottning ein svo stórvitur, að engin þjóð er farsælli til en
þegnar hennar.“
Meðan stjörnuspámaðurinn var að mæla þetta, útjós kóngsson
beiskum tárum. Féll honum svo nærri að frétta lát föður síns,
að gamalmennið varð að hætta sögu sinni til að hugga hann.
„Herra!" mælti hann, „hafi ég sagt þér sorgarfrétt, þá get ég
líka sagt þér gleðitíðindi. Ég man enn þá glöggt eftir
stjörnufarinu við fæðing þína. Það spáði þér láni allt frá
þrítugasta aldursári. Nú hefur þú einn um þrítugt og öll
ólánsárin að baki. Komdu nú með mér, ég skal fylgja þér á
fund stórvezírsins, sem er mesta valmenni. Hann skal leiða
þig fyrir drottninguna; mun hún fagna þér eins og tign þinni
sæmir, þegar hún heyrir, hverra manna þú ert.“
Kóngsson fór með stjörnuspámanninum til stórvezírsins, og
óðara en hann heyrði nafn kóngssonar varð hann forviða og
mælti: „Guð minn! Þú einn getur gert slík stórmerki"....
30. nótt
breytaÞegar vezírinn, sem stjörnuspámaðurinn fylgdi kóngssyninum til, hafði látið undrun sína í ljósi, mælti hann ennfremur: „Herra! Komið með mér til drottningarinnar, þá skuluð þér verða þess vísari, hvað veldur undrun minni.“
Svo mælti hann, og fór með kóngsson til hallarinnar, og bað
hann að bíða stundarkorn í salnum drottningarinnar, því bezt
væri að láta hana vita af því nokkru áður, og búa hana undir,
að taka við manni, sem var henni jafntiginn.
Var vezírinn æði lengi inni hjá drottningunni. Loksins kom
hún inn til kóngssonar, horfði í andlit honum og kannaðist
við hann. „Elskulegi maður minn!" kallaði hún upp og breiddi
faðminn á móti honum, „er nokkur gleði til í heiminum önnur
eins og mín yfir því að sjá þig aftur?"
Horfði kóngsson að sínu leyti eins á hana, og er hann
kannaðist við yfirbragð Dílaram konu sinnar, svaraði hann
gagntekinn af undrun, elsku og fögnuði: „Ó, þú drottning mín!
Á ég að trúa því, að ég hafi fundið þig aftur? Svo mikla
hrakninga og raunir, sem guð hefur látið mig rata í, játa ég
samt, að miskunnsemi hans er miklu meiri en mótlætið, þar sem
hann gefur þig aftur elsku minni.“
Því næst föðmuðust þau hvað eftir annað með slíkri ástúð og
einlægni, sem hægra er að ímynda sér en að skýra frá. Síðan
spurði kóngsson eftir sonum sínum.
„Þú skalt sjá þá bráðum,“ mælti kóngsdóttir, „þegar þeir koma
heim af veiðunum.“
„En hvernig ertu orðin drottning hérna á eynni, elskan mín!"
spurði kóngsson enn fremur.
„Það skal ég fljótt segja þér,“ svaraði Dílaram, „hvernig ég
komst í hásæti þetta, sem ég mun segja skilið við á morgun og
fara burt með þér, ef þegnar mínir ekki samþykkja, að þú
setjist í hásætið með mér.
Þegar víkingarnir höfðu skotið þér á land í eynni, létu þeir
aftur í haf. En þegar við vorum komin nokkrar vikur sjóar
undan landi, hljóp á hvínandi rokviðri; voru góðir sjómenn á
skipinu og neyttu allrar orku, en það kom fyrir ekki, því
stormurinn keyrði skipið svo hart upp í sjávarhamra á ey
þessari, að það brotnaði í spón.
Björguðust nokkrir farmenn á sundi, en hinir drukknuðu, og
var fyrirliði víkinganna í þeirra tölu. Þótti mér þá líf mitt
svo lítilsvert og ólánsamt, að ég bað ekki til guðs, að ég
mætti af komast, heldur tók ég sonu mína í fang mér og ætlaði
að deyja með þeim.
En rétt í því að holskeflurnar ætluðu að soga okkur í sig,
komu nokkrir eyjarmenn á bátum til að bjarga okkur, því þeir
höfðu séð þegar skipið fórst. Vorum við dregin hálfdauð upp
úr sjónum, og þegar þeir sáu að lífsmark var með okkur, fóru
þeir með okkur heim til sín og lifnuðum við þar á ný.
En er konungur eyjarinnar heyrði, hverju óláni við höfðum
orðið fyrir, varð honum forvitni á að sjá okkur. Hann var þá
níræður og unnu honum þegnar hans eins og vert var. Leyndi ég
hann engu, heldur sagði honum ætt mína og allt sem á dagana
hafði drifið. Komst hann við að heyra raunir mínar og
táraðist með mér, því oft gat ég ekki að mér gert að gráta,
meðan ég var að segja honum ævisögu mína.
Þegar hann hafði hlýtt á mig með athygli, tók hann þannig til
máls: „Dóttir mín, við eigum að bera andstreymið með
stöðuglyndi. Guð sendir það til að reyna dyggð okkar. Ef við
berum þrautirnar með þolinmæði, lætur hann gleðina ætíð koma
á eftir. Vertu hjá mér, ég skal annast þig og sonu þína.“
Hefði honum ekki getað farizt það betur, þó þeir hefðu verið
skilgetnir synir hans, og mér sýndi hann frábæra kurteisi og
virðingu. Hann lét sér ekki nægja að gera mér sæmd á sæmd
ofan, heldur spurði hann mig einnig ráða í landsstjórn sinni.
Lét hann mig eiga sæti á ráðstefnum og geturðu skilið af því,
hvað honum þótti til mín koma; hældi hann mér fyrir hvað
eina, sem ég sagði, eins og það væri heilög speki, þó það
væri ekki talað nema af meðalgreind.
Svo liðu fimm ár, en þegar þau voru liðin, sagði hann einu
sinni við mig: „Kóngsdóttir! Það er tími til kominn, að ég
segi þér frá áformi einu, er ég hef í hyggju. Það er ósk mín,
að þú setjist í hásæti mitt, þegar ég er látinn, en til þess
að eiga það víst, verður þú að giftast mér. Þegnum mínum
þykir mikið til verðleika þinna koma, og munu þeir klappa lof
í lófa og þakka mér fyrir, að ég arfleiði þig að ríkinu.“
Tók ég þessum ráðahag, mest vegna sona minna; fór brúðkaup okkar vel fram, þegnum mínum til gleði og ánægju. Var fögnuðurinn ekki minni skömmu síðar eftir andlát konungsins, þegar það spurðist, að hann hefði skipað þeim að veita mér hollustu eins og drottningu sinni. Hef ég stjórnað þeim síðan, og læt ég mér einungis um það hugað, að stjórn mín verði þeim til farsældar.“
Í sama bili og kóngsdóttir mælti þetta, sá hún sonu sína koma
af veiðum og kallaði til þeirra: „Komið þið, drengir, komið
þið og faðmið hann föður ykkar, sem guð hefur varðveitt fyrir
okkur.“
En þá var eins og þeim rynni blóðið til skyldunnar og efuðust
þeir alls ekki um þetta undur. Þeir hlupu í fang
kóngssonarins frá Karisme og faðmaði hann þá að sér og kyssti
á þeim augun, hvorum eftir annan. Þarna stóðu þau fjögur,
gagntekin af hinum viðkvæmustu tilfinningum náttúrunnar, með
gleðilátum og ástaratlotum.
Því næst stefndi stórvezírinn eyjarbúum saman til þings,
eftir skipun drottningarinnar. Sagði hann þeim sögu
kóngssonarins frá Karisme og skoraði á þá, að taka hann til
konungs. Gerðu menn góðan róm að máli hans og tóku
kóngssoninn frá Karisme til konungs í einu hljóði. Stýrði
hann þar landi með kóngsdótturinni lengi og farsællega.“
„Herra!" mælti enn fremur hinn sjötti vezír Sindbaðs konungs,
„ég ætlaði einungis að benda yðar hátign á það með sögu
þessari, að börn konunganna eru undirorpin illsvitandi
stjörnum eins og hver annar. Meðan óhamingjustjarnan hefur
áhrif á oss, mundi gullið verða að svartri mold í höndum
vorum, og heilsudrykkir vorir að eitri. Núrgehan sonur yðar á
við sama ólán að stríða. Hann á allrar óhamingju von; hver
hönd er upp á móti honum og faðir hans er orðinn fjandmaður
hans. Herra! Kennið í brjósti um hann og varizt að láta deyða
hann fyrr en ólánstími hans er á enda.“
Saga þessi, og þó einkum það, að vezírinn heimfærði hana
svona, kom Sindbað konungi til að fresta lífláti Núrgehans,
þó hann hefði lofað því. Hlaut hann því harðar átölur um
kvöldið af Kansade drottningu. Sagði hann henni þá, að
stjörnufróðir menn fullyrtu, að hann mundi iðrast seinna
meir, ef hann léti drepa son sinn áður en hinir fjörutíu
dagar væru liðnir, og að einn vezírinn hefði sagt sér sögu,
sem fengi sér mikils kvíða, að hann mundi baka sér með því
guðs reiði.
En drottning svaraði: „Herra! Þú trúir á vezírana þína eins
og þeir væru spekingar og lætur glepjast af mælgi þeirra. Það
fer eins fyrir þér og mahómedanska konunginum og vitringnum
við hirð hans. Skal ég segja þér frá því, ef þú leyfir.“
Sindbað konungur lét sér það líka og hélt því drottning
áfram: