Þúsund og ein nótt/Sagan af viðarhöggvaranum og konu hans

33. nótt breyta

„Einu sinni var viðhöggvari í Bagdad, sem Amed hét; höfðu forlög hans ekki látið sér nægja að gera hann bláfátækan, heldur höfðu þau þar á ofan gefið honum konu þrálynda, ágjarna og þrætugjarna. Sat hún aldrei á sáttshöfði við hann og hafði allt af hugann á því, að ná frá honum verkkaupinu, þó lítið væri.

Einu sinni sá hún að hann lét nokkra skildinga á afvikinn stað - hann ætlaði að kaupa sér létta fyrir þá - sagði hún þá við hann:

„Svei, óhræsið þitt! Þessa peninga ætlar þú víst einhverri dækjunni, en bíddu við, ég skal halda í hemilinn á þér; þú skalt héðan af ekki fara eitt fet út fyrir húsdyr, nema ég sé með þér.“

Hafði Amed áður verið óhultur fyrir konu sinni, meðan hann var við vinnu sína í skóginum, en daginn eftir fór hún á bak asna og reið þangað á eftir honum.

„Nú skal ég sjá, hverju þú ber í vænginn,“ mælti hún, „þegar þú svíkst um.“

Sá nú mannskepnan ekkert úrræði til þess að sleppa hjá þessum félagsskap; en allt í einu datt honum þó gott ráð í hug. „Heillin mín!“ mælti hann, „úr því þú ert komin hingað, þá geturðu hjálpað mér til með nokkuð, sem ég allt til þessa hef látið ógert af tortryggni við aðra. Það eru stór auðæfi þarna niðri í gamla uppþornaða brunninum, og ég hef vitað af þeim lengi. Ég ætla að bregða um mig þessum kaðli og getur þú látið mig síga ofan.“

„Nei, hugsaðu ekki til þess,“ svaraði konan og var óðlát, „láttu mig síga ofan; ég get eins vel gert það og þú, því líklega drægirðu allan fundinn undir þig.“

Fór þetta öldungis eins og maðurinn ætlaðist til: Hann brá kaðlinum utan um konu sína, og lét hana síga ofan í brunninn, og er hún var komin niður, sleppti hann kaðlinum og kallaði: „Nú verð ég þó líklega í friði fyrir þér, heillin góð! þangað til mér lízt að draga þig upp aftur; en þú verður að bíða stundarkorn.“

Fór hann síðan til vinnu sinnar og lét hana hamast og heitast eins og hana lysti. Lét hann nú líða góða stund, og er hann hélt að farinn væri úr henni mesti ofsinn, renndi hann kaðli niður í brunninn og kallaði til hennar: „Nú skaltu bregða um þig kaðlinum, ég ætla að draga þig upp aftur.“

Fór hann nú að draga, en þá var eitthvað svo þungt fyrir, að hann gat með hörkubrögðum togað það upp; sá hann þá að þetta var andi, sem upp kom.

„Þér á ég mikið að þakka,“ mælti hann, „ég er einn af öndum þeim, sem ekki hafa megn til að hefja sig í loft upp, og bjó ég í brunni þessum. Einhver af óvinum mínum hefur snögglega hleypt til mín þeim versta kvenskratta á guðs grænni jörð, og hefur hún kvalið mig án afláts síðan hún kom niður. Ég veit ekki, hvernig ég á að þakka þér þenna mikla velgjörning, að þú losaðir mig við hana, en ekki skal hann samt verða ólaunaður. Heyrðu nú, hvað ég get gert fyrir þig. Ég veit að Indlands konungur á yndislega dóttur; mun ég þjóta í hana og gera hana óða. Leitar þá konungur allra lækna og fær enginn að gert, en ég skal gefa þér grös nokkur; skaltu væta þau í vatni, og þarf þá kóngsdóttir ekki annað til að verða alheil en að núa þeim í andlit sér.“

Þakkaði nú viðhöggvarinn andanum fyrir og fór af stað til aðseturs Indverjakonungs. Þegar hann kom þangað, heyrði hann getið um æði kóngsdóttur og hafði konungur lofað að gefa hana þeim, sem læknaði hana. Fór Amed þá til hans og bauðst til þess. Vætti hann grösin og neri framan í kóngsdóttur og varð hún á augabragði alheil meina sinna. Gifti konungur Amed hana og fór brúðkaup þeirra fram með mestu viðhöfn.

Eftir að andinn var útrekinn, fór hann í kóngsdótturina á Kínlandi, því hann hafði ástarhug til hennar. Frétti faðir hennar, hversu undursamlega kóngsdóttirin á Indlandi hafði verið læknuð, og gerði því út sendiboða, til að bjóða Amed til hirðar sinnar og biðja hann að lækna dóttur sína. Var Amed fús til þess, en hnykkti heldur við, er hann sá, að hann átti að fást við sama andann, sem hann dró upp úr brunninum.

„Ert þú þar, Amed, og getur verið svona vanþakklátur,“ mælti andinn. „Eigðu ekki undir því, að reka mig út úr kóngsdóttur, sem ég elska. Ef þú neyðir mig til að yfirgefa hana, þá hverf ég óðara til Indlands og drep konu þína.“

Varð Amed þá svo hræddur, að við sjálft lá, að hann segði konungi, að hann gæti ekki að staðið, en þá datt honum bragð í hug.

„Ljúfurinn minn!“ segir hann við andann, „ég kom hingað ekki til að lækna kóngsdótturina, heldur til að biðja þíns fulltingis. Manstu eftir konunni, sem ætlaði að gera út af við þig í brunninum? Það var konan mín. Hefur einhver dregið hana upp aftur, og er hún nú allt af í hælunum á mér. Hún kemur víst hingað bráðum og því ætla ég að biðja þig að hjálpa mér.“

„Mig að hjálpa þér!“ anzaði andinn, „guð varðveiti mig frá því, að koma oftar nærri annarri eins konu. Nei, Amed, góðurinn minn, þar megna ég ekkert. Hjálpa þú þér sjálfur eins og þú bezt getur, ég ætla að forða mér.“

Og í sama vetfangi flýði andinn úr kóngsdótturinni og varð hún heil heilsu. Varð faðir hennar næsta glaður og gaf Amed ágætar gjafir, og sæmdi hann í öllu; fór hann síðan heim til konu sinnar á Indlandi.“

„Herra!“ mælti vezírinn enn fremur, „þetta sýnir, hvílík vonzka býr í konum, að jafnvel andar skuli hræðast þær. Hvernig eiga þá mennskir menn að vera óhultir fyrir þeim? Vezírar þínir, höfðingjar ríkisins og öll þjóðin hafa verið í uppnámi nokkra daga, og er allt sprottið af hrekkvísi einnar konu. Varaðu þig á svikræðum þessum og láttu ekki spana þig upp til að rasa svo fyrir ráð fram, að þú líflátir Núrgehan.“

Lét þá konungur fara með Núrgehan aftur í dýblissuna, fór síðan á veiðar, og var um kvöldið hjá drottningu sinni. Herti hún að honum að láta nú verða úr aftöku Núrgehans, sem hann hafði lofað svo lengi, og sagði honum sögu þessa: