Þúsund og ein nótt/Soldáninn, vitringurinn og yfirklerkurinn
„Einu sinni var mahómedanskur konungur, sem lét heimta skatta af hinum kristnu þegnum í einu af skattlöndum sínum. Stefndu þá kristnir menn munkum sínum og prestum á fund, til þess að spyrja þá, hvað úr skyldi ráða.
Þar var þá staddur yfirklerkur einn, vitur og velborinn, og sagði: „Sendið þið mig til hirðar soldáns, ég ætla að stinga upp á nokkru við hann. Ég ætla að segja við séum reiðubúnir að gjalda skattinn, ef hann eða vezírar hans geti leyst úr einni spurningu, sem ég ætla að bera upp fyrir þá.“
Þetta leizt öllum hinum kristnu óskaráð og fór yfirklerkurinn af stað með stóran poka, sem skatturinn var í, og þar að auki með gjafir til soldánsins. Fékk hann honum þær með lotningu í nafni skattlandsins og mælti: „Drottinn minn og herra! Vér lofum að greiða yðar hátign skattinn með því skilyrði, að vitringar yðar og vezírar leysi úr einni spurningu, sem ég ætla að leggja fyrir þá.“
„Svo skal vera,“ svaraði konungur, „margir fræðimenn og spekingar eru í hirð minni og spurning þín er þá sérlega þungskilin, ef enginn þeirra getur leyst úr henni.“
Síðan kallaði hann á vezírana og vitringana og sagði við yfirklerkinn: „Kristni maður, hver er spurning þín?“
Þá gekk yfirklerkurinn fram fyrir þá, rétti upp höndina og hélt lófanum fyrir augun; síðan rétti hann hana beint niður að gólfinu og mælti: „Segið mér: hvað þýðir þetta? Það er spurning mín.“
„Ég vil fyrir mitt leyti ekki fást við þetta,“ svaraði konungurinn, „ég játa að ég skil ekkert í því, og satt að segja, finnst mér því ekki svo auðsvarað.“
Fóru nú allir vezírarnir og vitringarnir að brjóta heilann, en hvernig sem þeir rifjuðu upp fyrir sér þýðingar kóransins, þá datt þeim samt ekkert í hug, sem þeir gætu svarað yfirklerkinum. Þögðu þeir lengi vel og fyrirurðu sig, þangað til einum þeirra gramdist að sjá svo mörgum þjóðkunnum mönnum verða orðfall fyrir einum heiðingja; gaf hann sig því fram og mælti við soldán:
„Herra! Það var óþarfi, að stefna mönnum á svo mikla samkomu út af öðru eins lítilræði. Yfirklerkurinn má bera upp spurningu sína fyrir mig og skal ég leysa úr henni.“
Rétti þá yfirklerkurinn upp fingurna eins og áður framan í vitringinn, en hann reiddi upp hnefann framan í hann, og var það svarið. Síðan rétti yfirklerkurinn höndina beint niður, og svaraði vitringurinn því svo, að hann opnaði höndina og rétti fingurna upp. Dró þá sendiboði hinna kristnu pokann fram undan skikkju sinni, lagði hann fyrir fætur soldáns og gekk á burt.
Þá spurði soldán vitring sinn, hvað handaburður þeirra hefði átt að merkja.
„Herra!“ svaraði hann, „þegar heiðinginn hélt lófanum framan í mig, þá átti það að þýða: „Ég ætla að reka þér utan undir.“
Ég bauð honum undir eins hnefann, til þess að láta hann skilja, hvers hann mætti vænta af mér fyrir kinnhestinn.
En er hann hélt hendinni niður, átti það að þýða: „Ef þú gefur mér hnefahögg, mun ég troða þig undir fótum mér og merja þig sundur eins og orm.“
Þá svaraði ég honum með því að rétta upp fingurna, og benti honum til þess, að ef hann dirfðist að gera slíkt, skyldi ég þeyta honum svo hátt í loft upp, að fuglar himinsins ætu hann upp áður en hann kæmi niður á jörðina. Svona töluðum við saman með bendingum, konungur, og misskildi hvorugur annan.“
Í sama bili og vitringurinn sleppti orðinu, gall öll samkoman við og lauk lofsorði á úrlausn hans. Hældu allir vezírarnir skarpsýni hans, og vitringarnir játuðu, að hann væri vitrastur þeirra allra, og sárnaði þeim þó undir niðri að hafa ekki skilið handaburð yfirklerksins.
En konungurinn sjálfur var samt ánægðastur allra og undraðist mest; hélt hann að vitringurinn ætti engan sinn jafningja. Lét hann það ekki heldur sitja við lofræður einar, heldur tók hann hundrað gullpeninga úr pokanum, sem yfirklerkurinn hafði fengið honum, og gaf vitringnum svo mælandi: „Taktu við þessu, vitringur! Fyrst það er þér að þakka, að hinir kristnu guldu skattinn, þá er það sanngjarnt, að ég láti eitthvað af hendi rakna.“
Fór nú soldán til drottningar sinnar og sagði henni frá; var hann í bezta skapi. Drottning hans var skýrleiks kona og kom upp fyrir henni óstöðvandi hlátur, er hún heyrði sögu soldáns.
„Það grunaði mig allténd, að þér mundi þykja þetta skrítið,“ mælti soldán, en drottningin svaraði:
„En langskrímast er það, að vitringurinn hefur leikið á þig.“
„Það er ómögulegt,“ greip soldán fram í, en drottningin sagði honum, að láta undir eins leita upp yfirklerkinn, og leiða hann á þeirra fund; kvaðst hún sjálf ekki eyða að því fleiri orðum fyrst um sinn.
Sendi þá soldán einn af þjónum sínum til að leita upp yfirklerkinn. Var hann um það leyti að leggja af stað heimleiðis, þegar hann fannst og var boðaður á fund soldáns og drottningar.
„Kristni maður,“ talaði drottning til hans, „vitringurinn okkar hefur að sönnu skilið spurningu þína og leyst úr henni, en það er ósk okkar, að þú útskýrir það fyrir okkur einu sinni enn þá.“
Þá svaraði hann: „Þegar ég rétti upp höndina, átti það að merkja þessar spurningar: Eru hinar fimm bænir, sem átrúendur Mahómets tíðka, innsettar af guði? Vitringurinn ykkar sýndi mér krepptan hnefann og sagði með því:
„Já, ég er reiðubúinn að verja það með handalögmáli.“
En þegar ég rétti hönd mína niður til jarðar, spurði ég, hvers vegna regn félli á jörð, og svaraði vitringurinn mér af andagift sinni með því að rétta upp fingurna, að regnið væri til þess, að gras gæti vaxið og allt gróið, sem jörðin gefur af sér, og stendur svar þetta einnig í ritningu yðvarri.“
En er yfirklerkurinn hafði sagt þetta, gekk hann á burt, en drottningin skellti upp yfir sig að nýju. Sá nú konungur, að hún hafði rétt fyrir sér, og kvaðst nú ekki framar skyldu leggja trúnað á orð vitringa sinna né vezíra, eða spekingskap þeirra.“
Herra!“ mælti Kansade drottning enn fremur: „Þessi saga ætti að verða þér að varnaði við hinum marklausu fortölum vezíra þinna. Láttu þá ekki gera þér villuljós og stöðva hefndarhönd þína, sem ég hef snúið móti syni þínum, af framsýni minni og einlægri umhyggju fyrir þér; hefur hann og helzt til miklar sakir.“
Á þessa leið var hin heiptrækna drottning að telja um fyrir Sindbað konungi, þangað til hann lofaði henni, að næsti dagur skyldi verða dauðadagur Núrgehans.
En er konungur kom á ráðstefnu höfðingja sinna morguninn eftir og hafði skipað að taka son sinn af lífi, kastaði sjöundi vezírinn sér fram fyrir fótskör hásætis hans og beiddi honum líknar, að minnsta kosti þann dag. „Ég hef heitið drottningunni því,“ svaraði konungur reiðilega, „og mun hún álasa mér með réttu, ef ég læt eftir bæn þinni,“ en vezírinn tók einarðlega til orða og mælti:
„Herra! Ætli þú mættir þó ekki gruna drottningu þessa um græsku? Guð gæfi að ást hennar til þín væri eins einlæg og þú hyggur; en konur eru ekki annað en fláræðið sjálft, og hvergi er þeirra getið að öðru en svikum og prettum. Skal ég segja eina sögu, ef yðar hátign leyfir, sem sýnir, hvílík heimska það er af karlmönnum, að treysta þeim.“
„Látum oss heyra,“ mælti Sindbað konungur.