Þegar drottningin á Englandi fór í orlof sitt

Þegar drottningin á Englandi fór í orlof sitt
Höfundur: Jónas Hallgrímsson

Einu sinni á dögunum þegar drottningin á Englandi var að borða litla skattinn - því hún borðar ævinlega litla skatt - þá kom maðurinn hennar út í skemmu að bjóða góðan dag.

„Guð gefi þér góðan dag, heillin!“ sagði drottningin; „hvernig er veðrið?“

Maðurinn drottningarinnar hneigði sig og sagði: „Hann var regnlegur í morgun, en nú birtir upp; ég lét taka saman, og svo má binda þó þú farir - ætlarðu yfrum í dag, gæska.“

„Já,“ sagði drottningin.

Hann hneigði sig þá aftur og sagði: „Ég verð þá að flýta mér og láta fara að sækja hestana.“

„Gerðu það,“ sagði hún. -

Nú fór drottningin að búa sig; því hún ætlaði í orlof sitt yfir á Frakkland að finna kóng og drottningu og fleiri kunningja. Hún var með gullskó, í silfursokkum og silfurbryddu gullpilsi, með gullsvuntu; og að ofan í gull-lagðri silfurtreyju, með silfurhúfu og gullskúf í. - En þetta gull og silfur er allt eins og ormavefur og léttara en fis og þó hlýtt. Þjónusturnar voru líka vel búnar, því þær fóru með eins og vant er þegar drottningin ferðast.

Þegar drottningin var komin út á hlað var allt tilbúið, hestarnir og fylgdarmennirnir og ráðgjafarnir og orlofsgjafirnar - á 6 hestum í silfurkoffortum - og teymdi sinn kammerherra hvern hest; þar voru líka í ferðinni barúnar og kaupmenn og margt kvenfólk, fyrir utan þjónusturnar, og nógir meðreiðarmenn og lestamenn, og allt var vel búið. Drottningin reið Gulltoppu - það er gullfextur færleikur, og silkibleikur á lit og hefur verið sóttur suður í heim, en maðurinn hennar reið rauðum gæðingi sem hann á sjálfur.

„Fáðu mér keyrið mitt, gæska!“ sagði drottningin, og maðurinn hennar hneigði sig og fékk henni keyrið; það var gullkeyri með silfurhólkum og lýsigullshnúð á endanum; og svo var farið af stað.

Drottningin var alltaf á undan - því enginn hestur jafnaðist á við Gulltoppu - og þegar komið var ofan að sjónum var sett fram drottningarskipið; það er með silkisegli og fílabeinsmastri sem allt er skrúfað saman og gullneglt, allt úr horni og pödduskel og besta gangskip.

Þegar komið var út úr landsteinunum og búið að snúa við kallaði drottningin þrisvar á land og bað gá vel að heyjunum og öllu meðan hún væri fyrir handan; svo settist hún undir stýri að gamni sínu; en það er silfurstýri og leikur í hendi manns.

Kóngurinn í Frakklandi býr á bestu jörðinni, norður við sjó. Túnið er eins stórt og Hólmurinn í Skagafirði, rennslétt og fagurt eins og spegill - svo kvenfólkið sem rakar verður að ganga með stuttbuxur innan undir - og silfurtúngarður allt um kring. Fólkið var allt úti við heyið nema drottning og kóngur sem eru gömul; hann sat hjá með kórónu sína, og voru þau að tala um ríkisreikningana og allan búskapinn. Þá kom inn einn af fólkinu (en það eru allt kóngssynir og kóngsdætur eða jarlar og kammerherrar og biskupadætur).

„Séra Filippus!“ segir hann (því kóngurinn heitir séra Filippus), „það er skip á sundinu, og við höldum það sé drottningarskipið að handan; seglið er blátt og rautt.“

„Heyrirðu það, kona,“ sagði kóngurinn: „Þú átt von á gestum; ég geng sjálfur on'að sjó, en sjáðu um á meðan að verði sópað og heitt kaffi, og svo verðurðu eitthvað að hugsa fyrir miðdeginu.“

„Ég er öldungis hlessa,“ sagði drottningin. „Marmier minn!“ (því það var Marmier, sem inn kom; hann er nú orðinn jarl), „farðu“, segir hún „út og láttu hann Guðmund litla hlaupa á næsta bæ eftir rjóma.“

„Hvar er hann Guizot?“ sagði kóngurinn, þegar hann kom út; „ég ætlaði að láta hann verða mér samferða. - Guizot, Guizot! Hver þremillinn er orðinn af manninum?“ En Guizot heyrði ekkert - hann lá sunnanundir vegg og var að lesa 7 ára gamlan Skírni sem félagsdeildin á Íslandi var nýbúin að senda honum.

Þegar skipið kom að landi renndi það upp að bryggjunni - því þar er bryggja eins og í kaupstað - og drottningin úr Englandi sté í land. Kóngurinn gekk á móti henni og tók ofan kórónuna og hneigði sig, en hún kyssti á hönd sína og brosti, og svo föðmuðust þau, og maðurinn drottningarinnar og allt fólkið stóð hjá og horfði á hvernig þau fóru að heilsast.

„Heilsaðu kónginum, gæska,“ sagði drottningin; „ég tók manninn minn með mér, séra Filippus! Það er skemmtilegra að hafa hann með.“ „Gaman og óvænt æra,“ sagði séra Filippus; „en komið þið nú heim að fá ykkur einhverja hressingu.“ Svo var gengið heim, og kóngurinn leiddi drottninguna, og maðurinn drottningarinnar og allt fólkið gekk með og horfði á hvernig þau fóru að leiðast og ganga.

Þegar kom heim á völlinn hafði enginn munað eftir að hann var fagur eins og spegill; en fötin drottningarinnar voru svo síð að ekkert bar á, en hitt kvenfólkið gekk allt hokið og beygði sig í hnjánum, og sumar settust niður og létust vera að gera við skóinn sinn. Kóngurinn tók fyrst eftir þessu og skipaði að bera ösku á völlinn svo kvenfólkið gæti gengið heim; svo var borin aska á völlinn, og svo gengu allir heim.