Þorleifs þáttur jarlaskálds

Þorleifs þáttur jarlaskálds

1. kafli

breyta

Nú skal segja þann ævintýr er gerðist á ofanverðum dögum Hákonar Hlaðajarls, í hverjum kynstrum, göldrum og gerningum hann varð forsmáður og mjög að verðugu, því að hans mannillska og guðníðingskapur varð mörgum manni til mikils þunga og óbætilegs skaða andar og líkama. Varð honum það sem margan tímir að þá er hegningartíminn er kominn er eigi hægt undan að komast því að það er óvinarins náttúra að þann manninn sem hann þykist fullkomið vald á eiga og önga von á til guðs blekkir hann fyrst og blygðar með krókóttum kyndugskap sinna bölvaðra slægða í framleiðslu hans ljótu lífsdaga en að þrotnum hans stundlegum lífstíma verður hann drekktur í dökkri dýflissu dálegra kvala með eymd og ánauð utan enda.

2. kafli

breyta

Þá bjó Ásgeir rauðfeldur á Brekku í Svarfaðardal. Hann var ríkur maður og stórættaður. Þórhildur hét kona hans. Hún var vitur kona og vinsæl og skörungur mikill. Þau áttu þrjá syni og voru allir efnilegir. Ólafur hét son þeirra hinn elsti og var kallaður völubrjótur, annar Helgi hinn frækni og koma þeir báðir meir við aðrar sögur en þessa.

Þorleifur hét hinn yngsti son þeirra. Hann var snemma gildur og gervilegur og hinn mesti atgervimaður um íþróttir. Hann var skáld gott. Hann var á fóstri með Miðfjarðar-Skeggja móðurbróður sínum að Reykjum í Miðfirði þar til er hann var átján vetra gamall. Skeggi unni mikið Þorleifi og lagði við hann ástfóstur. Það töluðu menn að Skeggi mundi fleira kenna Þorleifi í fræðum fornlegum en aðrir mundu vita.

Þá fór Þorleifur heim til föður síns. Hann vó Klaufa böggva með fulltingi Ólafs bróður síns en til eftirmáls eftir Klaufa var Karl hinn rauði og gekk svo fast að að Þorleifur varð útlægur og ger í burt úr Svarfaðardal. Ljótólfur goði hafði fylgt Yngvildi fagurkinn systur Þorleifs. Hann kom Þorleifi í skip á Gáseyri. Þorleifur varð afturreka. Hann var um veturinn á laun ýmist með Ljótólfi goða eða Ásgeiri föður sínum. Nam hann þá að föður sínum marga fornfræði því að hann var sagður margkunnandi. Var þá Þorleifur nítján vetra. Karl leitaði fast eftir um Þorleif og urðu þar um veturinn margir atburðir, þeir er frásagnar eru verðir sem segir í Svarfdæla sögu.

Um vorið eftir fór Þorleifur vestur til Skeggja fóstra síns og frænda og biður hann ásjá og umráða með sér um þessi mál. Og með styrk og ráðum Miðfjarðar-Skeggja og Ljótólfs goða fer Þorleifur og kaupir sér skip að kaupmönnum er uppi stóð í Blönduósi og ræður háseta til og fór síðan heim á Brekku og hitti föður sinn og móður og beiddist af þeim fararefna og fékk svo mikinn fjárhlut sem honum þótti sér þarfa og að vordögum lét hann varning sinn til skips binda og fór í brott af Brekku alfari og bað vel fyrir föður sínum og móður og Miðfjarðar-Skeggja fóstra sínum.

3. kafli

breyta

Nú lætur Þorleifur í haf og byrjar honum vel og kemur skipi sínu í Vík austur. Hákon Hlaðajarl var þá í Víkinni. Þorleifur gekk á land og lét ryðja skip sitt. Hann hitti jarlinn og kvaddi hann. Jarl tók honum vel og spurði hann að nafni, ætt og kynferði en Þorleifur sagði honum. Jarl spurði og margra tíðinda af Íslandi en Þorleifur sagði honum ofléttlega.

Þá sagði jarl: „Svo er orðið Þorleifur að vér viljum hafa sölur af þér og hásetum þínum.“

Þorleifur svarar: „Vér höfum lítinn varninginn herra en oss eru þó aðrir kaupunautar hentugri og munuð þér láta oss sjálfráða vera að selja þeim góss vort og peninga sem oss líkar.“

Jarli þótti hann þykklega svara og mislíkaði orð hans mjög og skildu við svo búið.

Þorleifur fór nú til manna sinna og svaf af um nóttina og um morguninn rís hann upp og fer í kaupstaðinn og fréttist fyrir um góða kaupunauta og kaupslagar við þá um daginn.

Og er jarl spurði það fór hann með fjölmenni til skips Þorleifs og lét taka þar menn alla og binda. Síðan rændi hann þar fjárhlut öllum og kastaði á sinni eign en lét brenna skipið að köldum kolum. Og eftir þetta lét hann skjóta ásum milli búðanna og lét þar hengja við alla förunauta Þorleifs. Síðan fór jarl í brott og hans menn og tók að sér varning þann er Þorleifur hafði átt og skipti upp með sínum mönnum.

En um kveldið er Þorleifur kom heim og ætlaði að vitja manna sinna sem hann gerði sá hann vegsummerki hversu við hans félaga hafði farið verið og þóttist vita að Hákon jarl mundi þessu vonda verki valdið hafa og spyr nú eftir þessum tíðindum glögglega.

Og er hann hafði þessi tíðindi sannlega spurt þá kvað hann vísu:

Hrollir hugr minn illa.
Hefir drengr skaða fengið
sé eg á sléttri eyri,
svarri, báts og knarrar.
Hinn er upp réð brenna
öldu fíl fyrir skaldi,
hver veit nema kol knarrar
köld fýsi mig gjalda.

4. kafli

breyta

Svo er sagt að eftir þenna atburð kom Þorleifur sér í skip með kaupmönnum og sigldu suður til Danmerkur og fór hann á fund Sveins konungs og var með honum um veturinn.

En er hann hafði þar eigi lengi verið var það einn dag að Þorleifur gekk fyrir konung og beiddi hann hlýða kvæði því er hann hafði ort um hann. Konungur spurði hvort hann væri skáld.

Þorleifur svarar: „Það er eftir því sem þér viljið dæmt hafa herra er þér heyrið.“

Konungur bað hann þá fram flytja. Þorleifur kvað þá fertuga drápu og er þetta stef í:

Oft með ærnri giftu
öðlings himins röðla
Jóta gramr hinn ítri
Englandi roðið branda.

Konungur lofaði mjög kvæðið og allir þeir er heyrðu og sögðu bæði vel kveðið og skörulega fram flutt. Konungur gaf Þorleifi að kvæðislaunum hring þann er stóð mörk og það sverð er til kom hálf mörk gulls og bað hann lengi með sér vera. Þorleifur gekk til sætis og þakkaði vel konungi.

Og leið svo fram nokkura hríð og ekki lengi áður en Þorleifur ógladdist svo mjög að hann gáði varla undir drykkjuborð að ganga eða samsætis við sína bekkjunauta.

Finnur konungur þetta bráðlega og lætur kalla Þorleif fyrir sig og mælti: „Hvað veldur ógleði þinni er þú gáir varla að halda háttum við oss?“

Þorleifur svarar: „Það munuð þér heyrt hafa herra að sá er skyldur að leysa annars vandræði er að spyr.“

„Segðu fyrst,“ segir konungur.

Þorleifur svarar: „Eg hefi kveðið vísur nokkurar í vetur er eg kalla Konurvísur er eg hefi ort um Hákon jarl því að jarl er kona kenndur í skáldskap. Nú ógleður mig það herra ef eg fæ eigi orlof af yður að fara til Noregs og færa jarli kvæðið.“

„Þú skalt að vísu fá orlof,“ segir konungur, „og skaltu þó heita oss áður að koma aftur til vor það fljótasta sem þú getur því að vér viljum þín ekki missa sakir íþrótta þinna.“

Þorleifur hét því og fékk sér nú farning og fór norður í Noreg og linnir eigi fyrr en hann kemur í Þrándheim. Þá sat Hákon jarl á Hlöðum.

Þorleifur býr sér nú stafkarls gervi og bindur sér geitarskegg og tók sér eina stóra hít og lét koma undir stafkarls gervina og bjó svo um að öllum skyldi sýnast sem hann æti þann kost er hann kastaði í hítina því að gíman hennar var uppi við munn honum undir geitarskegginu. Síðan tekur hann hækjur tvær og var broddur niður úr hvorri, fer nú þar til er hann kemur á Hlaðir.

Það var aðfangskveld jóla í þann tíma er jarl var kominn í sæti og mart stórmenni er jarl hafði að sér boðið til jólaveislunnar. Karl gengur greiðlega inn í höllina en er hann kemur inn stumrar hann geysimjög og fellur fast á hækjurnar og snýr til annarra stafkarla og sest niður utarlega í hálminn. Hann var nokkuð bæginn við stafkarla og heldur harðleikinn en þeir þoldu illa er hann lét ganga á þeim stafina. Hrukku þeir undan og varð af þessu hark og háreysti svo að heyrði um alla höllina. En er jarl verður þessa var spyr hann hvað valdi óhljóði þessu. Honum er sagt að stafkarl einn sé sá þar kominn að svo sé illur og úrigur að ekki láti ógert. Jarl bað kalla hann fyrir sig og svo var og gert. En er karl kom fyrir jarl hafði hann mjög stutt um kvaðningar. Jarl spurði hann að nafni, ætt og óðali.

„Óvant er nafn mitt herra að eg heiti Níðungur Gjallandason og kynjaður úr Syrgisdölum af Svíþjóð hinni köldu. Er eg kallaður Níðungur hinn nákvæmi. Hefi eg víða farið og marga höfðingja heim sótt. Gerist eg nú gamall mjög svo að trautt má eg aldur minn segja sakir elli og óminnis. Hefi eg mikla spurn af höfðingskap yðrum og harðfengi, visku og vinsældum, lagasetning og lítillæti, örleik og allri atgervi.“

„Hví ertu svo harðúðigur og illur viðskiptis frá því sem aðrir stafkarlar?“

Hann svarar: „Hvað er örvænt um þann sem alls gengur andvana nema víls og vesaldar og ekki hefir það er þarf og lengi legið úti á mörkum og skógum þó að sá verði æfur við ellina og allt saman en vanur áður sæmd og sællífi af hinum dýrstum höfðingjum en vera nú hataður af hverjum þorpara lítils verðum.“

Jarl mælti: „Ertu nokkur íþróttamaður karl er þú segist þó með höfðingjum verið hafa?“

Karl svarar það megi vera þó að nokkuð hafi til þess haft verið „þá er eg var á ungum aldri. Komi að því sem mælt er, að hverjum karli kemur að örverpi. Er það og talað að seigt er svöngum að skruma. Mun eg og ekki við yður skruma herra nema þér látið gefa mér að eta því að svo dregur að mér af elli, svengd og þorsta að víst eigi fæ eg staðið uppi lengur. Er slíkt harðla óhöfðinglegt að spyrja ókunna menn í hvern heim en hugsa eigi hvað mönnum hentar því að allir eru með því eðli skapaðir að bæði þurfa át og drykkju.“

Jarl skipaði að honum skyldi gefa kost sæmilega sem honum þarfaði. Var og svo gert. En er karl kom undir borð tekur hann greiðlega til matar og ryður diska þá alla er næstir honum voru og hann náði til svo að þjónustumenn urðu að sækja kost í annan tíma. Tók karl nú öngu ófreklegar til matar en fyrr. Sýndist öllum sem hann æti en hann kastaði reyndar í hítina þá er fyrr var getið. Hlógu menn nú fast að karli þessum. Þjónustumenn töluðu að bæði væri að hann væri mikill og miðdigur enda gæti hann mikið etið. Karl gaf sér ekki að því og gerði sem áður.

5. kafli

breyta

En er ofan voru drykkjuborð gekk Níðungur karl fyrir jarl og mælti: „Hafið þér nú þökk fyrir herra en þó eigið þér illa þjónustumenn er allt gera verr en þér segið fyrir. En nú vildi eg að þér sýnduð mér lítillæti herra og hlýdduð kvæði því er eg hefi ort um yður.“

Jarl mælti: „Hefir þú nokkuð fyrr kvæði ort um höfðingja?“

„Satt er það herra,“ kvað hann.

Jarl mælti: „Búið þar komi að gömlum orðskvið, að það er oft gott er gamlir kveða, og flyttu fram kvæðið karl en vér munum til hlýða.“

Þá hefur karl upp kvæðið og kveður framan til miðs og þykir jarli lof í hverri vísu og finnur að þar er getið og í framaverka Eiríks sonar hans. En er á leið kvæðið þá bregður jarli nokkuð undarlega við að óværi og kláði hleypur svo mikill um allan búkinn á honum og einna mest um þjóin að hann mátti hvergi kyrr þola og svo mikil býsn fylgdi þessum óværa að hann lét hrífa sér með kömbum þar sem þeim kom að. En þar sem þeim kom eigi að lét hann taka strigadúk og ríða á þrjá knúta og draga tvo menn milli þjóanna á sér.

Nú tók jarli illa að geðjast kvæðið og mælti: „Kann þinn heljarkarl ekki betur að kveða því að mér þykir þetta eigi síður heita mega níð en lof og lát þú um batna ella tekur þú gjöld fyrir.“

Karl hét góðu um og hóf þá upp vísur og heita Þokuvísur og standa í miðju Jarlsníði og er þetta upphaf að:

Þoku dregr upp hið ytra,
él festist hið vestra,
mökkr mun náms, af nökkvi,
naðrbings kominn hingað.

En er hann hafði úti Þokuvísur þá var myrkt í höllinni. Og er myrkt er orðið í höllinni tekur hann aftur til Jarlsníðs. Og er hann kvað hinn efsta og síðasta þriðjung þá var hvert járn á gangi það er í var höllinni án manna völdum og varð það margra manna bani. Jarl féll þá í óvit en karl hvarf þá í brott að luktum dyrum og óloknum lásum.

En eftir afliðið kvæðið minnkaði myrkrið og gerði bjart í höllinni. Jarl raknaði við og fann að honum hafði nær gengið níðið. Sá þá og vegsummerki að af var rotnað skegg allt af jarli og hárið öðrum megin reikar og kom aldrei upp síðan. Nú lætur jarl ræsta höllina og eru hinu dauðu út bornir. Þykist hann nú vita að þetta mun Þorleifur verið hafa en karl engi annar og mun launað þykjast hafa honum mannalát og fjártjón. Liggur jarl nú í þessum meinlætum allan þenna vetur og mikið af sumrinu.

6. kafli

breyta

Það er af Þorleifi að segja að hann snýst til ferðar suður til Danmerkur og hefir það til leiðarnests sér sem hann ginnti af þeim í höllinni. En hversu lengi sem hann hefir á leið verið þá létti hann eigi sinni ferð fyrr en hann kom á fund Sveins konungs og tók hann við honum fegins hendi og spurði hann að ferðum sínum en Þorleifur sagði allt sem farið hafði.

Konungur svarar: „Nú mun eg lengja nafn þitt og kalla þig Þorleif jarlaskáld.“

Þá kvað konungur vísu:

Grenndi Þorleifr Þrænda
þengils hróðr fyr drengjum,
hafa ólítið ýtar
jarls níð borið víða.
Njörðr réð vestan virðum
vellstæri brag færa
brot lands galt gæti
grálega leóns báru.

Þorleifur sagði konungi að hann fýstist út til Íslands og beiddi konung orlofs að fara þegar að vori.

En konungur sagði svo vera skyldu „vil eg gefa þér skip í nafnfesti með mönnum og reiða og þvílíkri áhöfn sem þér þarfast.“

Nú er Þorleifur þar um veturinn í góðu yfirlæti en að vordögum býr hann skip sitt og lét í haf og byrjaði vel og kom skipi sínu við Ísland í á þá er Þjórsá heitir.

Það segja menn að Þorleifur kvæntist um haustið og fengi þeirrar konu er Auður hét og væri Þórðar dóttir er bjó í Skógum undir Eyjafjöllum, gilds bónda og stórauðigs, kominn af ætt Þrasa hins gamla. Auður var kvenskörungur mikill. Þorleifur sat um veturinn í Skógum en um vorið eftir keypti hann land að Höfðabrekku í Mýdal og bjó þar síðan.

7. kafli

breyta

En nú er þar til að taka er Hákon jarl er, að honum batnaði hins mesta meinlætis en það segja sumir menn að hann yrði aldrei samur maður og áður og vildi jarl nú gjarna hefna Þorleifi þessar smánar ef hann gæti, heitir nú á fulltrúa sína, Þorgerði Hörgabrúði og Irpu systur hennar, að reka þann galdur út til Íslands að Þorleifi ynni að fullu og færir þeim miklar fórnir og gekk til fréttar. En er hann fékk þá frétt er honum líkaði lét hann taka einn rekabút og gera úr trémann og með fjölkynngi og atkvæðum jarls en tröllskap og fítonsanda þeirra systra lét hann drepa einn mann og taka úr hjartað og láta í þenna trémann og færðu síðan í föt og gáfu nafn og kölluðu Þorgarð og mögnuðu hann með svo miklum fjandans krafti að hann gekk og mælti við menn, komu honum síðan í skip og sendu hann út til Íslands þess erindis að drepa Þorleif jarlaskáld. Gyrti Hákon hann atgeir þeim er hann hafði tekið úr hofi þeirra systra og Hörgi hafði átt.

Þorgarður kom út til Íslands í þann tíma er menn voru á alþingi. Þorleifur jarlaskáld var á þingi.

Það var einn dag að Þorleifur gekk frá búð sinni er hann sá að maður gekk vestan yfir Öxará. Sá var mikill vexti og illslegur í bragði. Þorleifur spyr þenna mann að heiti. Hann nefndist Þorgarður og kastaði þegar kaldyrðum að Þorleifi en er Þorleifur heyrði það ætlaði hann að bregða sverðinu konungsnaut er hann var gyrður með en í þessu bili lagði Þorgarður atgeirnum á Þorleifi miðjum og í gegnum hann. En er hann fékk lagið hjó hann til Þorgarðs en hann steyptist í jörðina niður svo að í iljarnar var að sjá.

Þorleifur snaraði að sér kyrtilinn og kvað vísu:

Hvarf hinn hildardjarfi,
hvað varð af Þorgarði?
villumaðr á velli,
vígdjarfr refilstiga.
Farið hefir Gautr að grjóti
gunnelds hinn fjölkunni,
síðan mun hann í helju
hvílast stund og mílu.

Þá gekk Þorleifur heim til búðar sinnar og sagði mönnum þenna atburð og þótti öllum mikils um vert um þenna atburð. Síðan varpar Þorleifur frá sér kyrtlinum og féllu þá út iðrin og lét Þorleifur þar líf sitt við góðan orðstír og þótti mönnum það allmikill skaði. Þóttust nú allir vita að Þorgarður þessi hafði engi verið annar en galdur og fjölkynngi Hákonar jarls.

Síðan var Þorleifur heygður. Haugur hans stendur norður af lögréttu og sést hann enn. Bræður hans voru á þingi er þetta var tíðinda og gerðu útferð Þorleifs sæmilega og erfðu hann að fornum sið en Ásgeir faðir þeirra var þá litlu andaður. Síðan fóru menn heim af þingi og fréttust þessi tíðindi nú víða um Ísland og þóttu mikils verð.

8. kafli

breyta

Sá maður bjó þá á Þingvelli er Þorkell hét. Hann var auðigur maður að ganganda fé og hafði jafnan hægt í búi. Engi var hann virðingamaður.

Sauðamaður hans hét Hallbjörn og var kallaður hali. Hann vandist oftlega til að koma á haug Þorleifs og svaf þar um nætur og hélt þar nálægt fé sínu. Kemur honum það jafnan í hug að hann vildi geta ort lof kvæði nokkurt um haugbúann og talar það jafnan er hann liggur á hauginum en sakir þess að hann var ekki skáld og hann hafði þeirrar listar eigi fengið fékk hann ekki kveðið og komst aldrei lengra áfram fyrir honum um skáldskapinn en hann byrjaði svo:

Hér liggr skáld.

En meira gat hann ekki kveðið.

Það var eina nátt sem oftar að hann liggur á hauginum og hefir hina sömu iðn fyrir stafni ef hann gæti aukið nokkuð lof um haugbúann. Síðan sofnar hann og eftir það sér hann að opnast haugurinn og gengur þar út maður mikill vexti og vel búinn.

Hann gekk upp á hauginn að Hallbirni og mælti: „Þar liggur Hallbjörn og vildir þú fást í því sem þér er ekki lánað, að yrkja lof um mig og er það annaðhvort að þér verður lagið í þessi íþrótt og munt þú það af mér fá meira en vel flestum mönnum öðrum og er það vænna að svo verði ella þarftu ekki í þessu að brjótast lengur. Skal eg nú kveða fyrir þér vísu og ef þú getur numið vísuna og kannt hana þá er þú vaknar þá munt þú verða þjóðskáld og yrkja lof um marga höfðingja og mun þér í þessi íþrótt mikið lagið verða.“

Síðan togar hann á honum tunguna og kvað vísu þessa:

Hér liggr skáld það er skálda
skörungr var mestr að flestu.
Naddveiti frá eg nýtan
níð Hákoni smíða.
Áðr gat engr né síðan
annarra svo manna,
frægt hefir orðið það fyrðum,
férán lokið hánum.

„Nú skaltu svo hefja skáldskapinn að þú skalt yrkja lofkvæði um mig þá er þú vaknar og vanda sem mest bæði hátt og orðfæri og einna mest kenningar.“

Síðan hverfur hann aftur í hauginn og lýkst hann aftur en Hallbjörn vaknar og þykist sjá á herðar honum. Síðan kunni hann vísuna og fór síðan til byggða heim með fé sitt eftir tíma og sagði þenna atburð. Orti Hallbjörn síðan lofkvæði um haugbúann og var hið mesta skáld og fór utan fljótlega og kvað kvæði um marga höfðingja og fékk af þeim miklar virðingar og góðar gjafir og græddi af því stórfé, og gengur af honum mikil saga bæði hér á landi og útlendis þó að hún sé hér eigi rituð.

En frá bræðrum Þorleifs er það að segja að næsta sumar eftir andlát hans fóru þeir utan, Ólafur völubrjótur og Helgi hinn frækni, og ætluðu til hefnda eftir bróður sinn. En þeim varð eigi lagið þá enn að standa yfir höfuðsvörðum Hákonar jarls því að hann hafði þá enn eigi öllu illu því fram farið sem honum varð lagið sér til skammar og skaða. En þó brenndu þeir mörg hof fyrir jarlinum og gerðu honum margan fjárskaða í ránum og hervirki er þeir veittu honum og margri annarri óspekt.

Og lýkur hér frá Þorleifi að segja.