Allt fram streymir
Höfundur: Kristján Jónsson fjallaskáld
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumars blíða.
Fölna grös, en blikna blóm,
af björkum laufin detta.
Dauðalegum drynur róm
dröfn við fjarðar kletta.
Allt er kalt og allt er dautt,
eilífur ríkir vetur.
Berst mér negg í brjósti snautt
en brostið ekki getur.